Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 1833

Fyrstu kynni – Grænlendingar á Ísafirði

Grænlendingarnir að njóta ísfirskrar náttúru.

Í gær var opnuð í Reykjavík sýningin Fyrstu kynni – Grænlendingar á Ísafirði í Veröld, húsi Vigdísar. Fjallað er um heimsókn tæplega 90 Grænlendinga til Ísafjarðar árið 1925. Áður hefur þessari heimsókn verið gerð skil á Ísafirði. Sýningarhöfundur er Sumarliði R. Ísleifsson. Margar ljósmyndir eru sýndar sem teknar voru þá. Það var einkum danski ljósmyndarinn Marinus Simson sem búsettur var á Ísafirði og Thyra Juul, einnig dönsk. Sýndar eru bækur sem tengjast Grænlandi.

Tildrög heimsóknar Grænlendinganna eru þau að inúítar sem bjuggu í grennd við Ammassalik fluttust til Scoresbysunds að áeggjan danskra stjórnvalda og kom fólkið við á Ísafirði á leið sinni, meðal annars til þess að sækja vistir. Þá þurfti að vígja prest til þess að þjóna nýju byggðinni og það var einfaldlega auðveldara að fara til Ísafjarðar til þess en að ferðast mun lengra til annarra byggðarlaga á Grænlandi.

Fjölmenni var við opnunina og mátt þar sjá margan Vestfirðinginn.

Svona var Ísafjörður 1925.
Hér má sjáfyrir miðju Ísfirðinginn Magnús Jóhannesson, fyrrv ráðuneytisstjóra.
Bolvíkingurinn og Ísfirðingurinn Guðmundur Magnús Kristjánsson (Muggi) til vinstri og Ólafur Engilbertsson frá Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd til hægri.
Jón Elíasson, Bolvíkingur lét sig ekki vanta.

 

Auglýsing

Mokað á morgun í Árneshrepp

Frá Norðurfirði. Mynd: Árneshreppur.

Vegagerðin mun hefja mokstur á morgun norður í Árneshrepp. Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti sagði í samtali við Bæjarins besta að það væri kominn töluverður snjór og það hefði snjóað mikið í logni síðustu daga.

G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar staðfesti að Vegagerðin hefði samþykkt að ráðast í moksturinn sem helmingamokstur. Það þýðir að sveitarfélagið Árneshreppur mun greiða helminginn af kostnaðinum. Miðað er við að fært verði fyrir fjórhjóladrifin ökutæki. Eva kvaðst ekki vita hver kostnaður hreppsins gæti orðið en sagðist vera bjartsýn og skaut á 100 – 150 þúsund krónur.

Ákvörðunin nú á aðeins við þennan eina mokstur, en annars er enginn reglubundinn mokstur næstu mánuði samkvæmt mokstursáætlun Vegagerðarinnar.

Auglýsing

Anað út í ófæruna – Vestfirðingum til ómælds skaða

Þann áttunda mars á síðasta ári samþykkti hreppsnefnd Reykhólahrepps með 4 atkvæðum gegn 1 að „lleið Þ-H verði lögð til grundvallar í aðalskipulagstillögu vegna breytingar á aðalskipulagi Reykhólahrepps 2006 – 2018 vegna vegagerðar um Vestfjarðarveg 60, Bjarkalundur að Skálanesi.“

Þá var talið að komin væri loksins niðurstaða í val á veglínu. Í aðdraganda fundarins sagði sá eini sem var á móti, í opinberu viðtali, að málið þyldi ekki frekari tafir og að niðurstaða yrði að fást. Það kom svo í ljós að það átti bara við ef niðurstaðan yrði „rétt“ og Þ-H leiðin var ekki „rétt“. Hófst nú nýr tafaferill sem staðið hefur síðan og miðar að því koma í veg fyrir Þ-H leiðina. Í þessari viku er gert ráð fyrir því að  sveitarstjórnin  ógildi leiðavalið frá 8. mars 2018 og velji R leiðina, leið sem er óframkvæmanleg.  Þá verður málið í þeirri stöðu, að óbreyttu,  að ekkert mun gerast næstu árin.

Það er misskilningur hjá hreppsnefndarmönnunum á Reykhólum að þeir ráði vegagerð. Það er ríkið sem gerir það og Vegagerðin fyrir hönd þess rannsakar og velur leið. Ríkið á vegina , borgar þá og heldur þeim við. Sveitarfélagið leggur ekkert til. Sveitarstjórn getur neitað Vegagerðinni með því að gefa ekki út framkvæmdaleyfi og gera ekki viðeigandi breytingar á skipulagi.  En það þýðir ekki að Ríkið verði að leggja vegina eins og sveitarstjórnin mæla fyrir um.

Vegalög

Í 28. grein vegalaga segir eftirfarandi:

Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar skal það rökstyðja það sérstaklega. Þó er sveitarfélagi óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillagan felur í sér. [Skal Vegagerðin þegar við á leggja fram mat á umferðaröryggi mismunandi kosta við vegarlagningu nægilega tímanlega til að skipulagsnefnd geti tekið afstöðu til matsins við mótun aðalskipulagstillögu.]

Vegalög eru lög. Sveitarstjórnarmenn verður að hlíta lögum rétt eins og aðrir þegnar landsins. Þarna segir í fyrsta lagi að lega vegar skuli ákveðin að fenginni tillögu Vegagerðarinnar.  Tillagan liggur fyrir og er um Þ-H leið. Sú tillaga var unnin í samráði fyrir Reykhólahrepp og að kröfu hans.

rökstuðningur enginn

Þá segir í öðru lagi að sveitarstjórn skuli rökstyðja það sérstaklega ef ekki er fallist á tillöguna. Fyrir liggur að leiðtogar hreppsnefndar hafa samþykkt í skipulagsnefnd hreppsins að setja R leið inn á aðalskipulag. Þetta þarf að rökstyðja sérstaklega. En rökstuðingurinn er afar fátæklegur:

„Ljóst er að samfélagslegir hagsmunir Reykhólahrepps og umhverfissjónarmiðum verði best borgið með R-leið. Undirritaðir telja að umhverfisáhrif Þ-H leiðar séu það umfangsmikil að sú leið verði aldrei fær“

Þetta stendur ekki undir því að geta kallast rökstuðningur. Umhverfismat fyrir R leiðina hefur ekki farið fram en þær athuganir sem gerðar hafa verið á fyrri stigum hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að umhverfisáhrif verði mikil og slæm. Eina leiðin til þess að vita betur er með því að láta framkvæmda fullburða umhverfismat. Það eru engin gögn sem styðja fullyrðinguna að umhverfissjónarmiðum verði best borgið með R – leið. Meira að segja hreppsnefnd Reykhólahrepps andmælti ekki Vegagerðinni á sínum tíma þegar ákveðið var að leggja frekari skoðun á umræddri leið á hilluna.

 

Seinni hluti rökstuðningsins er aðeins mat tveggja mat um að Þ-H leiðin verði aldrei fær vegna umhverfisáhrifa. Það er líka í andstöðu við fyrirliggjandi gögn og afstöðu flestra þeirra sem komið hafa að málinu.

umferðaröryggi

Þá segir í lögunum að sveitarstjórn er óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillaga Vegagerðarinnar. Þetta liggur fyrir eftir öryggismatsúttekt á þeim fjórum möguleikum sem hafa verið nefndir. Þar kom Þ-H leiðin best út,  það er með mest umferðaröryggi. En R – leiðin kom langverst út, var sem sé hættulegasti kosturinn. Þetta þýðir einfaldlega að óheimilt er að velja R- leiðina. Það er lögbrot. Þeir tvímenningar hafa ekki lagt fram nein gögn um öryggi R leiðina sem breytir öryggismatsútektinni. Þeir einfaldlega láta sem lagaákvæðið komi þeim ekki við.

 

út í ófæruna

Gangi það eftir, sem virðist fyrirsjáanlegt, að hreppsnefndin samþykki tillöguna um R-leiðina kemur upp staða sem er algert einsdæmi.  Valin veglína sem enginn er til þess að framkvæma. Hefja þarf  ferli um breytingar á skipulagi og auglýsa þær. Þá mun Vegagerðin væntanlega mótmæla tillögunum og benda á vegalögin. Það er vandséð hvernig Skipulagsstofnun getur hleypt tillögunum áfram og mun ekki geta staðfest þær. Málið er sjálfdautt og á þá eftir að líta til andófs og mótmæla þeirra annarra sem leggjast gegn R – leiðinni.

Sveitarstjórnin hefur engan framkvæmdaaðila. Enginn sem vill leggja veginn, enginn sem borga umframkostnaðinn, enginn til þess að standa straum af kostnaði við umhverfismat og skipulagsbreytingar. Kostnaður við Þ-H leiðina er orðinn um 430 milljónir. Hver ætlar borgar hundruð milljóna króna við algerlega nýtt ferli sem mundi taka mörg ár? Svarið er skýrt. Enginn. Ekki einu sinni Hagkaupsbræður eða annað innlent auðvald. En Vestfirðingar munu líða fyrir þvermóðskuna.

Kristinn H. Gunnarsson.

 

 

 

Auglýsing

Samgönguráðherra fer norður í Árneshrepp

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra.

Samgönguráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hefur ákveðið að fara í heimsókn norður í Árneshrepp í framhaldi af ákalli til stjórnvalda frá nefnd um brothættar byggðir.

Sigtryggur Magnason, einn aðstoðarmanna ráðherrans upplýsir Bæjarins besta um þetta og segir jafnfram að ráðherrann hlusti á áhyggjur íbúanna. Dagsetning hefur ekki verið ákveðin.

Auglýsing

MMR: lítilsháttar fylgisbreyting frá vinstri til hægri

Sjálfstæðisflokkurinn mældist með stuðning 22,2% landsmanna í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 4.-14. janúar. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hélst nær óbreytt frá síðustu mælingu sem lauk 11. desember. Samfylkingin mældist með 15,0% fylgi, sem er tæplega tveimur prósentustigum minna en flokkurinn mældist með í síðustu könnun. Þá minnkaði fylgi Vinstri grænna um rúmlega eitt og hálft prósentustig*, fylgi Miðflokksins jókst um eitt prósentustig og fylgi Flokks fólksins jókst um tvö og hálft prósentustig frá síðustu mælingum.

Stuðningur við ríkisstjórnina jókst lítillega en 41,1% sögðust styðja ríkisstjórnina nú samanborið við 40,3% í síðustu mælingu.

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.
Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma.
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 2061 einstaklingur, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 4. til 14. janúar 2019

Auglýsing

Bolungavík: Ákall til íbúa Reykhólahrepps – samþ Þ-H leið

Bæjarstjórn Bolungavíkur samþykkti fyrr í vikunni eftirfarandi ályktun um vegamál. Hún er samhljóða ályktun frá Ísafjarðarbæ, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi:

Bæjarráð Bolungarvíkur biðlar til íbúa Reykhólahrepps að leggjast á árar með okkur við að ljúka endurnýjun Vestfjarðavegar sem stofnbrautar sem allra fyrst og leysa þannig samgönguvandamál Vestfjarða.

Samgöngur okkar Vestfirðinga hafa lengi valdið íbúum og fyrirtækjum erfiðleikum og mikil vinna verið lögð í endurbætur á Vestfjarðavegi. Hingað til hefur algjör sátt og einhugur ríkt meðal allra sveitarstjórna á Vestfjörðum um að leggja áherslu á láglendisveg út úr fjórðungnum samkvæmt leið Þ-H til að stytta ferðatíma og auðvelda samgöngur árið um kring. Núna þegar sveitarstjórn Reykhólahrepps virðist ætla að fara aðrar leiðir en áður hefur verið unnið að, fyllumst við eins og aðrir Vestfirðingar ótta um að þessi framkvæmd sigli á ný í strand og að enn og aftur verði málinu frestað.

Framundan er stór ákvörðun sem sveitarstjórn Reykhólahrepps þarf að taka og er þess vænst að við þá ákvörðun verði jafnframt tekið tillit til hagsmuna íbúa og fyrirtækja utan Reykhólahrepps. Það skiptir alla Vestfirðinga gríðarlegu máli að hægt sé að hefja úrbætur á Vestfjarðavegi sem allra fyrst, því 60 ára gamlir þjóðvegir eru á engann hátt boðlegir í nútíma samfélagi.

Við óskum jafnframt eftir stuðningi stjórnvalda til að koma þessum brýnu samgöngubótum samkvæmt Þ-H leið á Vestfjarðavegi í gegn sem allra fyrst.

Auglýsing

Heilsugæslusel á Flateyri í athugun

Ákveðið var að loka á þessu ári heilsugæsluselinu á Flateyri í sparnaðarskyni. Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbirgðisstofnunar Vestfjarða segir að búið sé að segja  upp húsnæðinu á Flateyri og rennur uppsagnarfresturinn út í lok apríl. Hins vegar er í athugun hvort annað ódýrar húsnæði fáist á Flateyri. Segir Gylfi að hann hafi átt óformlegar viðræður við formann félags eldri borgara, starfsfólk okkar sem búsett er á Flateyri og aðra Flateyringa um hvernig best væri að koma málum fyrir. „Ýmsar forsendur þurfa að vera til þess að hægt sé að koma heilsugæsluseli fyrir, svo sem gott aðgengi, lágur rekstrarkostnað og fleira.“

„Ég hef einnig farið á fund bæjarráðs Ísafjarðarbæjar vegna málsins og verið í sambandi við bæjarstjórann. Það sem er til umræðu á þeim vettvangi er einkum bættar almenningssamgöngur og hvort bærinn eigi húsnæði sem gæti hentað til þessara nota.“

Vonast Gylfi til þess að geta boðað til íbúafundar á Flateyri í næstu viku.

 

Varðandi aðrar sparnaðaraðgerðir segir Gylfi Ólafsson að þær séu að mestu óbreyttar og undirbúningur þeirra allra langt kominn. „Enn eigum við eftir að útfæra fleiri aðhaldsaðgerðir til að mæta þeim rekstrarhalla sem fyrirsjáanlegur er að óbreyttu.“

 

 

Auglýsing

Ísafjörður: einangrun knattspyrnuhússins kostar 100 mkr

Hugmynd að fjölnota íþróttahúsi.

Stofnkostaður á 2.970 fermetra íþróttahúsi knattspyrnuhúsi óeinangruðu er 506 milljónir króna en 602 milljónir króna ef húsið er einangrað. Þetta kemur fram í úttekt Verkís fyrir nefnd um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss sem lögð var fram á fundi nefndarinnar á þriðjudaginn.

Þá er reiknað út hver heildarkostnaður kann að verða af stofnkostnaði og rekstri hússins í 80 ár. Ef húsið er einangrað og miðað við 10 gráðu hitastig er stofnkostnaðurinn 602 mkr og heildarkostnaðurinn 1.831 milljón króna. Sé húsið óeinangrað  verður stofnkostnaðurinn 506 mkr og heildarkostnaðurinn á líftíma hússin 1.770 milljónir króna.

Einnig eru gefnar upp tölur fyrir einangrað hús sem er hitað í 5 gráður. Þá er stofnkostnaðurinn áætlaður 597 milljónir króna og heildarkostnaður 1.789 milljónir króna.

Niðurstaða nefndarinnar var að fela tæknideild Ísafjarðarbæjar að óska eftir greiningu á kostnaði við byggingu óeinangraðs knattspyrnuhúss sem uppfyllir kröfur KSÍ, annarsvegar 46mX61m að innanmáli og hinsvegar 46mX70m.

Auglýsing

Tálknafjörður: byggðakvóti fjármagni dvalarheimili

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps tók fyrir á fundi sínum í gær að ákveða reglur um úthlutun byggðakvóta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.

Samþykkt var tillaga með fjórum atkvæðum gegn einu um að falla frá vinnsluskyldu á byggðakvótanum, en skylt hefur verið að landa aflanum til vinnslu í Vestur Barðastrandarsýslu, gegn því að 20 kr af hverju kg byggðakvóta renni til sveitarfélagsins sem  fari í sérstakan sjóð, sem hugsaður er til uppbyggingar dvalarheimilis á Tálknafirði. Með þessu telur sveitarstjórn að byggðakvótinn komi að notum fyrir alla íbúa, þ.e.a.s. samfélagið í heild.

Fallist útgerðaraðilar ekki á þessa tilhögun verður áfram vinnsluskylda eins og verið hefur. Auk þessarar samþykktar um gjaldtökuna leggur sveitarstjónin til að landa verði aflanum í Tálknafjarðarhöfn og að hluti byggðakvótans skiptist jafnt milli allra báta.

Rökstuðningur meirihluti sveitarstjórnar, lista óháðra,  fyrir þessu fyrirkomulagi varðandi gjaldtökuna  er:

„Fallið verði frá vinnsluskyldu afla skv. úthlutuðum byggðakvóta, að því gefnu að allir
útgerðaraðilar, sem fá úthlutaðan byggðakvóta, fallist á að greiða kr. 20.00 af hverju
þorskkílói, sem landað er af úthlutuðum byggðakvóta. Þessir peningar fari í sérstakan
sjóð, sem hugsaður er til uppbyggingar dvalarheimilis á Tálknafirði. Sveitarstjórn telur
að með því að byggja upp dvalarheimili á staðnum sé stuðlað að því að fólk sem ekki
getur lengur haldið heimili þurfi ekki að flytja burt úr sveitarfélaginu, annaðhvort til
Reykjavíkur eða á sjúkrahúsið á Patreksfirði, sem er eina úrræðið á svæðinu. Ennfremur
er augljóst að með þessu skapast fjölmörg störf sem gæti þýtt fjölgun í sveitarfélaginu.
Með þessu telur sveitarstjórn að byggðakvótinn komi að notum fyrir alla íbúa, þ.e.a.s.
samfélagið í heild.“

Minnihluti hreppsnefndar, Jóhann Örn Hreiðarsson, fyrir hönd E lista, var ósammála þessari breytingu og greiddi atkvæði gegn henni. Segir í bókun hans að mótmælt sé því „að tengja framlög til dvalarheimilis við afnám vinnsluskyldu á byggðakvóta Tálknafjarðarhrepps. Slík tenging þýðir auknar álögur á útgerðir sem nú þegar eru að greiða háar upphæðir í auðlindagjöld til ríkisins.“ Segir ennfremur að þessi afstaða meirihlutans lýsi algeru skilningsleysi á mikilvægi byggðakvóta fyrir afkomu minni útgerða og lýst yfir alvarlegum áhyggjum af atvinnumálum í sveitarfélaginu.

Auglýsing

Krónan veiktist um 6,4% í fyrra

Krónan veiktist í fyrra um 6,4%. Þetta er annað árið í röð sem krónan veikist gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Árið 2017 veiktist krónan um 0,7%.  Þessar upplýsingar koma fram í Hagsjá, rafrænu fréttabréfi sem hagdeild Landsbankans gefur út.  Síðustu fjögur árin þar á undan hafði krónan styrkst á hverju ári og styrktist hún um 18,4% yfir árið 2016. Það var mesta styrking krónunnar gagnvart viðskiptaveginni myntkörfu í íslenskri hagsögu.

Veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum

Gjaldmiðlar allra helstu viðskiptalanda okkar styrktust gagnvart íslensku krónunni á síðasta ári. Af einstökum gjaldmiðlum styrktist gengi japanska jensins mest gagnvart krónunni, eða um 13,9%. Styrking Bandaríkjadollars var næst mest, eða 11,4% en þar á eftir kom svissneski frankinn með 10,4% styrkingu. Minnst var styrking sænsku krónunnar (2,4%) og Kanadadollars (2,6%).

Raungengi krónunnar  enn hátt

Þrátt fyrir þessa lækkun á nafn- og raungengi er gengi krónunnar enn tiltölulega sterkt á mælikvarða raungengis sé horft aftur til ársins 1980. Síðan þá hefur raungengið verið lægra en það var í desember um 80% af tímabilinu.

Auglýsing

Nýjustu fréttir