Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 1831

Áfram veginn

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps.

Þann áttunda mars á nýliðnu ári kom sveitarstjórn Reykhólahrepps saman og samþykkti með fjórum atkvæðum gegn einu að velja Þ-H leið inn á tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Þessi ákvörðun var tekin með víðtæk rök í farteskinu og mikla undirbúningsvinnu. Nálgast má rökstuðning sveitarfélagsins í fundargerð sveitarstjórnar. Þar segir meðal annars:

„Reykhólahreppur telur ljóst að leið Þ-H hafi umfangsmeiri neikvæð umhverfisáhrif í för með sér en leið D2. Hins vegar hafi hún jákvæðari samfélagsáhrif og bætir samgöngur og eykur umferðaröryggi meira en leið D2. Þá er verulegur munur á kostnaði þessara framkvæmdakosta, sem er slíkur að hann er líklegur til að hafa afgerandi áhrif á tímasetningar samgöngubóta. Sveitarfélagið telur brýna þörf fyrir samgöngubætur, sem felst í auknu umferðaröryggi, aukinni greiðfærni og styttingu leiða. Sú þörf taki til mun fleiri hagsmuna en Reykhólahrepps eingöngu, þar sem hagsmunir ná til allra Vestfjarða. Óásættanleg bið hefur verið á samgöngubótum.“

Þetta var skoðun meirihluta sveitarstjórnar í mars í fyrra en þá var R leiðin ekki til umræðu. Umrædd R leið fellur á sömu rökum og D2 leiðin á sínum tíma, hún er of dýr og hún fullnægir ekki öryggiskröfum, þar að auki hefur hún ekki farið í umhverfismat svo áhrif hennar á náttúru og umhverfi liggur ekki fyrir.

Í umfjöllun um leiðarval bókar hreppsnefnd svo á þessum sama fundi:

„Beðið hefur verið eftir samgöngubótum í a.m.k. 15 ár og þörfin orðin verulega brýn að ekki verði unað við lengri bið. Loks eru jákvæð teikn um byggðaþróun og atvinnuþróun í landsfjórðungnum, sem mikilvægt er að nýta og styðja við. Því þarf að mati Reykhólahrepps að ráðast strax eða sem allra fyrst í samgöngubætur til að auka umferðaröryggi, greiðfærni og stytta leiðir. Það er brýn nauðsyn og brýnir almannahagsmunir á samgöngubótum á svæðinu. Í undirbúningi fyrir ákvörðun hefur leitað upplýsinga frá sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytinu um fjármuni til nauðsynlegra samgöngubóta. Samkvæmt þeim og upplýsingum frá Vegagerðinni mun leið D2 að öllum líkindum verða til þess að enn frekari tafir verði á framkvæmdum ef sú leið verði valinn, þar sem hún er um 6 ma.kr. dýrari en leið Þ-H. Ekki er um að ræða viðfangsefni sem snýr eingöngu að hagsmunum Reykhólahrepps. Hagsmunirnir taka til Vestfjarða og sunnanverðra Vestfjarða. Samfélagið hefur nú beðið eftir samgöngubótum í mörg ár.“

Og síðar í sömu bókun:

„Með hliðsjón af þeim takmörkuðu fjármunum sem eru til skiptanna og þeirrar brýnu þarfar í samgönguverkefnum sem eru um allt land, telur sveitarstjórn miklar líkur á því að enn frekari tafir verði á framkvæmdum ef valinn er kostur A1 eða aðrir kostir. Það er orðið verulega aðkallandi að ráðast í samgöngubætur og samkvæmt niðurstöðu Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri kann frekari töf á framkvæmdum að hafa í för með sér talsverð neikvæð áhrif á samfélagið á sunnanverðum Vestfjörðum og ógna þeirri jákvæðu samfélagsþróun sem má sjá merki um á svæðinu.“

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur nú tekið sér tæpt ár til að skoða betur valkosti og nú bíður fjórðungurinn gjörvallur með öndina í hálsinum eftir næsta fundi sveitarstjórnar. Það er nefnilega þannig eins og kom fram í bókun sveitarstjórnar að þetta viðfangsefni snýr ekki eingöngu að hagsmunum Reykhólahrepps, þeir taka til Vestfjarða allra.  Hvernig ætlum við að koma 50 þúsundum tonnum af laxi suður og hvað með umferðina sem kemur að norðan þegar Dýrafjarðargöng opna. Þurfum við næstu áratugi að sullast yfir stórhættulega hálsana eða læðast Barmahlíðina á blindhæðum og í kröppum beygjum í margföldum umferðarþunga frá því sem nú er.

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps

Auglýsing

HM unglinga í skíðagöngu – þrír Ísfirðingar

Skíðasamband Íslands hefur valið keppendur til þátttöku á HM unglinga sem fram fer í Lahti í Finnlandi dagana 19.-27.janúar 2019. Er þetta í fyrsta sinn í mjög langan tíma sem SKÍ sendir keppendur á þetta mót.

Í raun er um tvö mót að ræða á sama tíma og sama stað. Annars vegar HM unglinga sem er fyrir 17-20 ára og HM U23 sem er fyrir 21-23 ára. SKÍ sendir fjóra keppendur á HM U23 mótið og einn keppanda á HM unglinga.

Keppendur
Kristrún Guðnadóttir – HM U23

Albert Jónsson – HM U23
Dagur Benediktsson – HM U23
Isak Stianson Pedersen – HM U23
Sigurður Arnar Hannesson – HM unglinga

Þjálfarar
Vegard Karlstrøm – Landsliðsþjálfari í skíðagöngu
Steven Gromatka – Aðstoðarþjálfari

Þrír af fimm keppendum eru frá Ísafirði.  Það eru Albert Jónsson, Dagur Benediktsson og Sigurður Arnar Hannesson. Verður að telja þetta einstaka viðurkenningu til skíðastarfs unglinga á Ísafirði og verður gaman að fylgjast með keppendunum þegar að móti kemur.

Auglýsing

Eftirlit Fiskistofu er veikburða og ófullnægjandi

Niðurstöður Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu eru alvarlegur áfellisdómur yfir eftirliti með nýtingu fiskistofnanna. Þetta má lesa úr niðurstöðuorðum í skýrslu embættisins um eftirlitshlutverk Fiskistofu, en hún var unnin fyrir Alþingi.

Í niðurstöðum segir Ríkisendurskoðandi:

Eftirlit Fiskistofu með vigtun sjávarafla, hvort heldur sem er á hafnarvog eða hjá
aðilum sem hafa leyfi til endur- eða heimavigtunar, er ófullnægjandi og efast
má um að það skili tilætluðum árangri.

Eftirlit stofnunarinnar með brottkasti er veikburða og ómarkvisst.
Raunverulegur árangur þess er auk þess á huldu þar sem hvorki liggja fyrir skýr
árangursmarkmið eða árangursmælikvarðar.

Ekki verður séð að Fiskistofa kanni hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir
aflahlutdeildum sé í samræmi við það hámark sem er skilgreint í lögum nr.
116/2006 um stjórn fiskveiða. Ráðast þarf í endurskoðun á 13. og 14. gr.
laganna svo reglur um hámarksaflahlutdeild séu skýrar.

Grípa þarf til markvissra ráðstafana til að tryggja skilvirkt og árangursríkt eftirlit
sem er í samræmi við forsendur og ákvarðanir Alþingis um að nytjastofnar
sjávar séu nýttir með sjálfbærum hætti.

Um vigtunina segir nánar í skýrslu Ríkisendurskoðunar:

Á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem Ríkisendurskoðun aflaði er ljóst að eftirlit Fiskistofu með vigtun sjávarafla, hvort heldur sem er á hafnarvog eða hjá aðilum sem hafa leyfi til endur- eða heimavigtunar, er takmarkað og efast má um að það skili tilætluðum árangri. Núverandi fyrirkomulag vigtunar leyfir í raun umtalsverð frávik í skráningu heildarmagns á sama tíma og Fiskistofa hefur ekki sinnt skilvirku eftirliti. Að mati ríkisendurskoðanda þarf að grípa til markvissra ráðstafana til að bæta úr þessu og tryggja skilvirkt og árangursríkt eftirlit með vigtun og skráningu sjávarafla.

Um brottkastið segir Ríkisendurskoðandi að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti telur að
brottkast sé óverulegt innan íslenska fiskveiðiflotans. Þetta mat ráðuneytisins fær þessa umsögn Ríkisendurskoðanda:

Ríkisendurskoðandi bendir á að Hafrannsóknastofnun hefur ekki ráðist í neinar
rannsóknir á tegundaháðu brottkasti í rúman áratug auk þess sem gagnasöfnun um lengdarháð brottkast hefur dregist talsvert saman undanfarin ár. Í ljósi þessa og að eftirlit með brottkasti er afar takmarkað, veikburða og ómarkvisst er ekki tilefni til fullyrðinga um umfang þess. 

Í stuttu máli segir Ríkisendurskoðandi að ráðuneytið hafi engin rök fyrir því að telja brottkast óverulegt.

Niðurstaðan er að lögin þurfi að vera skýrari og starfsmenn Fiskistofu fleiri annars „er ljóst að eftirlit með nýtingu auðlinda hafsins og samþjöppun aflaheimilda verður áfram veikburða, óskilvirkt og ekki í samræmi við forsendur og ákvarðanir Alþingis.“

 

 

Auglýsing

Aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni skoðaðar

Félags- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra kynntu á ríkisstjórnarfundi í morgun áform um skoða í sameiningu breytingar til að styðja betur við barnshafandi konur á landsbyggðinni og fjölskyldur þeirra. Skipaður verður starfshópur sem á að móta og leggja fram tillögur að úrbótum hvort sem er innan fæðingarorlofskerfisins eða með öðrum hætti. Starfshópurinn mun fara yfir aðstæður þessara kvenna með tilliti til staðsetningar fæðingarþjónustu á landsvísu en margar þeirra þurfa að dveljast fjarri heimabyggð, með tilheyrandi tilkosntaði, í nokkurn tíma til að hafa öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu á meðgöngu og eftir fæðingu.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir þetta mikilvægt mál og fagnar því að ráðherrarnir taki höndum saman um að leita leiða til úrbóta og jafna aðstæður fólks hvað þetta snertir.

Óskað verður eftir tilnefningum í þessa vinnu á næstu dögum en gert er ráð fyrir tveir formenn leiði hópinn, annar frá félags og barnamálaráðherra og hinn frá heilbrigðisráðherra.

Auglýsing

MIKILL MEIRIHLUTI ÍSLENDINGA VILL SEINKA KLUKKUNNI

Á milli 63% og 64% Íslendinga vilja að klukkunni verði seinkað um 1 klukkustund frá því sem nú er. Á bilinu 36-37% þeirra vilja óbreytta stöðu klukkunnar. Um 23% vilja að með fræðslu verði fólk hvatt til að ganga fyrr til náða og á milli 13% og 14% myndu vilja að skólar, fyrirtæki og stofnanir hefji starfsemi seinna á morgnana.

Þetta kemur fram í nýrri viðhorfskönnun Maskínu.

Svarendur voru 1.373 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 11.-18. janúar 2019.

Norðlendingar vilja einna helst seinka klukkunni um 1 klukkustund (65,8%) en Austfirðingar síst (46,2%).

Íslendingar með heimilistekjur lægri en 400 þúsund eru hlynntastir seinkun klukkunnar (72,1%) og eru einnig andvígastir því að klukkan haldi óbreyttri stöðu en skólar, fyrirtæki og stofnanir hefjist seinna (9,9%). Einhleypir eru ólíklegastir þess að vilja seinka klukkunni (61,4%) og þeir sem ekki eiga maka eru hlynntastir seinkun klukkunnar (78,1%).

Töluverður munur er á viðhorfi til klukkunnar eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk myndi kjósa. Kjósendur Viðreisnar eru hlynntastir því að klukkunni yrði seinkað (80,1%) en kjósendur Miðflokksins andvígastir (50,4% vilja breytingu). Rúmlega 33% kjósenda Sjálfstæðisflokksins vilja hafa óbreytt ástand en að fólk sé hvatt til að ganga fyrr til náða, en kjósendur Viðreisnar eru ólíklegastir til þess að vilja það (10,3%).

Vestfirðir og Vesturland eru tekin saman í greiningu á niðurstöðum eftir búsetu. Um 10% færri vilja seinka klukkunni eða um 53% og er það næst minnsti stuðningur við seinkun klukkunnar á landinu. Að sama skapi eru 10% fleiri eða um 33% sem vilja beita fræðslu sé miðað við heildarniðurstöður könnunar.

Auglýsing

Ný skýrsla: friðlýsing og virkjun fara ekki saman

Á ljósmynd eru frá vinstri: Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur og stjórnarmaður í ÓFEIGU, Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur og Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur, höfundar skýrslu Environice.

Náttúruverndarsamtökin ÓFEIG létu ráðgjafarfyrirtækið Environice  vinna fyrir sig  í desember 2018 og janúar 2019 skýrslu áhrif hugsanlegrar friðlýsingar víðerna við Drangajökul (Drangajökulsvíðerna) á umhverfi og samfélag á svæðinu og í næsta nágrenni þess, einkum í Árneshreppi. Tilgangurinn með skýrslunni, segir í fréttatilkynningu frá ÓFEIG er að bera saman áhrif friðlýsingar annars vegar og fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar hins vegar, auk þess að fjalla um svonefndan núllkost, þ.e.a.s. það ástand sem þróast myndi ef hvorki kæmi til friðlýsingar né virkjunarframkvæmda. Skýrslunni er ætlað að vera þar til bærum stjórnvöldum til aðstoðar við mikilvæga ákvarðanatöku um framtíð svæðisins.

Meginniðurstaða skýrslunnar er sú að friðlýsing Drangajökulsvíðerna sé til þess fallin að skapa ný atvinnutækifæri á svæðinu til langs tíma, bæði í ferðaþjónustu, opinberri þjónustu og í afleiddum greinum, og stuðla þar með að eflingu byggðar. Jafnframt myndi friðlýsing koma í veg fyrir óafturkræfa röskun á landslagi og víðernum, menningarminjum o.fl. Áhrif friðlýsingar á einstaka þætti umhverfis og samfélags voru í öllum tilvikum metin jákvæðari eða minna neikvæð en áhrif fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar á sömu þætti.

Skýrslan byggir ekki á mælingum á stöðu mála eða áhrifum, heldur á mati sem byggt er á fyrirliggjandi upplýsingum.

Víðernin sem skýrslan fjallar um eru samtals um 1.190 km2 að flatarmáli og ná allt frá Steingrímsfjarðarheiði í suðri að mörkum Hornstrandafriðlandsins í norðri. Lagt er til að allt þetta svæði verði friðlýst sem óbyggð víðerni skv. 46. gr. náttúruverndarlaga, þ.e. sem stórt landsvæði „þar sem ummerkja mannsins gætir lítið sem ekkert og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum umsvifum“. Friðlýsing miðar að því að „varðveita einkenni svæðisins, t.d. að viðhalda fjölbreyttu og óvenjulegu landslagi, víðsýni og/eða vernda heildstæð stór vistkerfi, og tryggja að núlifandi og komandi kynslóðir geti notið þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja”.

Þá segir í fréttatilkynningunni að friðlýsing og virkjun geta ekki farið saman. „Með virkjunarframkvæmdunum mætti auka tekjur sveitarfélagsins verulega til skamms tíma, en um leið væri mikilvægum hluta af aðdráttarafli svæðisins eytt til frambúðar og lokað á þá möguleika til atvinnuuppbyggingar til langs tíma sem felast í þessu aðdráttarafli.“

Skýrslunni er ætlað að stuðla að upplýstri umræðu. Mun völdum aðilum verða veitt tækifæri á að rýna skýrsluna á næstu dögum og vikum. Almenningi verður að því loknu veittur aðgangur að henni.

 

Auglýsing

Jafnréttislandið Ísland

Það er fjölbreytt starf að vera forseti ASÍ og mikil forréttindi að geta beitt sér í stærstu hagsmunamálum almennings frá degi til dags. Í upphafi næstu viku verður kynnt niðurstaða húsnæðishóps en stór hluti vikunnar hefur farið í þá vinnu með góðu samstarfsfólki. Vinnuverndarmál hafa einnig verið rædd mikið og eins er nefnd um félagsleg undirboð að störfum þar sem við reisum að sjálfsögðu kröfur um að tekið verði á kennitöluflakki, eftirlit og viðurlög við brotum gagnvart starfsfólki verði hert. Reyndar er orðalagið félagsleg undirboð ekki það sem við notum dags daglega lengur heldur glæpastarfsemi á vinnumarkaði, því launaþjófnaður og kjaraskerðingar eru auðvitað ekkert annað.

Í gær hitti ég félaga frá Noregi, en fulltrúar samtaka vinnandi fólks og fulltrúar samtaka atvinnurekenda eru saman á ferð hér á landi til að kynna sér meðal annars jafnréttismál og jafnlaunastaðalinn. Ég byrja alltaf á að gera grein fyrir að þó að Ísland toppi listana yfir jafnrétti í heiminum er það aðallega vegna þátttöku kvenna í opinberu lífi og stjórnmálum. Samkvæmt öllum öðrum mælikvörðum erum við á eftir flestum Norðurlöndum. Það hefur t.d. orðið fækkun í fjölda kvenna á þingi. Við getum því ekki gert ráð fyrir að verma fyrsta sætið öllu lengur. Þá hefur komið í ljós að ýmsir sem hafa stært sig af jafnréttislandinu Íslandi á erlendum vettvangi hafa haft rýra innistæðu fyrir uppslættinum. Það er því vafasamt að Ísland stæri sig sérstaklega af árangri í jafnréttismálum en vissulega hafa jafnréttismál verið ofarlega á baugi hjá okkur áratugum saman. Verkalýðshreyfingin þarf líka að hugsa sinn gang í þessum efnum enda hefur hún verið aftarlega á merinni í að jafna kynjahlutföll í forystu sinni.

Til umræðu kom líka hinn kynskipti vinnumarkaður og hvernig megi brjóta hann upp. Við höfum ekki lagt sömu áherslu á það og nágrannalöndin. Vandinn liggur ekki endilega í því að konur sinni að stórum hluta ákveðnum störfum og karlar öðrum heldur er verðmatið á störfunum mjög ólíkt. Álagið getur líka verið mjög misjafnt, bæði tilfinningalega og líkamlega. Allir sem hafa unnið á leikskóla eða gengið um beina vita hvað það tekur mikið á að vera alltaf glöð, viðmótsþýð og leysa hvers manns vanda fyrir utan líkamlegu vinnuna. Skipulagið í kringum kvennastörfin er oft og tíðum öðruvísi en í kringum karlastörfin og það þarf að laga. Þarna getur jafnréttisstaðallinn aðstoðað okkur við „rétt“ verðmat á störfum þar sem tekið er tillit til fleiri þátta en hingað til.

Verkefnin næstu daga og vikna eru risastór en ég er sannfærð um að vinnan skili sér í betri hag almennings.

Njótið helgarinnar,

Drífa Snædal

forseti ASÍ

Auglýsing

Tveir Ísfirðingar á Vetrarólympíuhátíð æskunnar

Framkvæmdastjór ÍSÍ hefur samþykkt að senda 13 keppendur á Vetrarólympíuhátíð æskunnar sem vrða haldnir 9.- 16. febrúar næstkomandi í Sarajevo í Bosníu Herzegóníu.

Keppnisgreinar á leikunum eru alpagreinar, skíðaskotfimi, skíðaganga, íshokkí, skautahlaup, listskautar, krulla og snjóbrettagreinar. Keppendur koma frá 46 Evrópuþjóðum og verða yfir eitt þúsund talsins.

Ólympíuhátíðin er sett með athöfn sem nær hámarki þegar Ólympíueldur er tendraður og hátíðinni lýkur með lokaathöfn og skemmtun. Hátíðin hefur verið mikilvæg fyrir ungt íþróttafólk álfunnar í gegnum tíðina. Margir af fyrri keppendum á hátíðinni hafa síðar náð alla leið á efsta getustigi í sínum greinum.

Af þrettán keppendum eru tveir frá Ísafirði. Það eru þeir Jakob Daníelsson og Kolfinna Íris Rúnarsdóttir sem keppa bæði í skíðagöngu. Þjálfari skíðagöngufólksins verður Tormod Vatten. Þriðji skíðagöngukeppandinn Egill Bjarni Gíslason, frá Akureyri, er reyndar tengdur Ísafirði en föðurfólk hans eru Ísfirðingar. Alls eru fjórir keppendur í skíðagöngu frá Íslandi.

Auglýsing

Unnið að framkvæmd byggðaáætlunar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vinnur í samstarfi við stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál, landshlutasamtök sveitarfélaga og fleiri aðila, að framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018 til 2024.

Áætlunin lýsir stefnu ríkisins í byggðamálum og er ætlað að stuðla að jákvæðri þróun byggða um land allt og bæta skilyrði til búsetu segir í tilkynningu frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Meginmarkmið hennar er að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstök áhersla er lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

54 aðgerðir byggðaáætlunar

Áætlunin er um 54 aðgerðir og verða 30 þeirra fjármagnaðar af byggðalið fjárlaga, samtals að upphæð 3,5 milljarðar á tímabilinu.

Kostnaður við áætlunina verður umtalsvert meiri en það fjármagn sem kemur af byggðalið fjárlaga. Með samþættingu við aðrar opinberar áætlanir verður hægt að fjármagna aðgerðir.

160 milljónum úthlutað úr samkeppnissjóðum

Sérstök valnefnd hefur verið skipuð sem annast mat á umsóknum um styrki á grundvelli byggðaáætlunar, en hana skipa þau Elín Gróa Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Magnús Karel Hannesson, fv. starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, sem var formaður. Með valnefnd starfa Jóhanna Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í ráðuneytinu og Sigríður K. Þorgrímsdóttir, sérfræðingur hjá Byggðastofnun.

Á árinu 2018 var auglýst eftir umsóknum um styrki vegna þriggja aðgerða byggðaáætlunar þ.e. sértækra verkefna sóknaráætlana, fjarvinnslustöðva og verslunar í strjálbýli. Alls var úthlutað 160 m.kr. til 19 verkefna á grundvelli aðgerðanna þriggja.

skipting fjárheimilda 2019 og nýjar auglýsingar
Á næstu dögum mun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra birta yfirlit yfir skiptingu fjármuna byggðaáætlunar eftir aðgerðum og einstökum verkefnum á sviði byggðamála, á grundvelli framangreindra reglna og með vísan til fjárheimilda

 

Auglýsing

Tungumálatöfrar – skráning fyrir 2019 hafin

Opnað hefur verið fyrir skráningar á Tungumálatöfra 2019. Skráningarform má nálgast hér: https://bit.ly/2QFJofa
Tungumálatöfrar er íslenskunámskeið með listsköpun og leik fyrir 5 – 11 ára krakka sem fer fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði dagana 5. – 10. ágúst 2019. Námskeiðið er hugsað fyrir öll börn með sérstaka áherslu á íslensk börn sem að hafa fæðst eða flutt erlendis og börn af erlendum uppruna sem sest hafa að hér á landi. Á lokadeginum verður svo Töfraganga sem endar með bæjarhátíð í Suðurtanga. Þar standa bæjarbúar af ólíkum uppruna fyrir fjölskylduskemmtun með leikjum, sögum, myndlist og matarupplifun.

Gjald er 20.000 krónur fyrir hvert barn – 30.000 fyrir tvö börn úr sömu fjölskyldu. Námskeiðið er í fjórar klukkustundir dag hvern og lýkur með skrúðgöngu og fjöslskylduskemmtun á laugardegi. Matur og allur efniskostnaður er innifalinn.

Nánari upplýsingar á síðu Edinborgarhúss og Facebook síðu Tungumálatöfra.

Auglýsing

Nýjustu fréttir