Mánudagur 12. maí 2025
Heim Blogg Síða 1743

Bíldudalskallar á ferð fyrir vestan

Á siglingu um Arnarfjörð að skoða laxeldið.

Um síðustu helgi fjölmenntu Bíldudalskallar, eins og þeir kalla sig,  vestur og heimsóttu átthagana og notuðu tækifærið til þess að kynna sér starfsemi Arnarlax og Kalkþörungaverksmiðjunnar.

Alls voru það 26 manns úr Arnfirðingafélaginu sem héldu vestur og áttu þar góða daga í blíðu veðri.

Guðmundur Bjarnason sagði að ákaflega vel hefði verið tekið  á móti þeim bæði í Arnalaxi og í Kalkþörungaverksmiðjunni.

„Við fórum út í Kvíar og út í Arnarból, borðuðum á vegamótum og í Skrímslasetrinu og vorum í laxaveislu í boði Arnarlax“ sagði Guðmundur og bætti við „það var fínasta veður og hnúfubakur að velta sér á firðinum með kálfi.“

Meðal þeirra sem voru í ferðinni voru nokkrir sem stóðu að stofnun Arnarlax á síðunum tíma. Guðmundur segir að þeir hafi verið 6 ár að berjast fyrir fyrsta leyfinu ( 3000 tonn) í Arnarfirðinum. “ Laxinn og kalkið hefur gjörbreytt öllu, Bíldudalur hefur algerlega snúist við.“ segir Guðmundur Bjarnason.

 

Bíldudalskallarnir í heimsókn í Kalkþörungaverksmiðjunni. halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri tók á móti þeim.
Í heimsókn hjá Arnarlaxi. Víkingur Gunnarsson tók á móti gestunum.

 

Myndir: Guðmundur Bjarnason.

Auglýsing

Karl Sigurðsson 101 árs í dag

Karl Kristján Sigurðsson, Hnífsdal er 101 árs í dag. Karl fæddist á Ísafirði, nánar tiltekið í
húsi sem kallast Rómaborg. Ungur flutti fjölskyldan út í Hnífsdal og þar hefur Karl búið stærstan hluta ævi sinnar.

Kalli átti farsælan skipstjórnarferil en lengstan tíma var hann á Mími eða alls 25 ár. Eftir að síldin hvarf fór Karl í land starfaaði lengi hjá Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal.

Í byrjun april tók Karl, ásamt fleirum,  fyrstu skóflustungu að viðbyggingu leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði eins og sjá má á myndinni sem Axel Rodriguez Överby tók.

Í Morgunblaðinu í dag er vegleg umfjöllun um afmælisbarnið.

 

Auglýsing

Skaginn 3X og Vísir undirrita milljónasamning

Hátæknifyrirtækið Skaginn 3X mun setja upp vinnslubúnað fyrir sjávarútvegsfyrirtækið Vísi í línuskipið Pál Jónsson, sem er í smíðum og verður væntanlega tilbúið til afhendingar í haust.
Félögin undirrituðu samning um verkefnið, sem hleypur á tugum milljóna íslenskra króna, við hátíðlega athöfn á sjávarútvegssýningunni í Brussel í síðustu viku.

Fyrirtækin hafa átt farsælt samstarf í gegnum tíðina og síðasta samstarfsverkefni var að setja upp búnað í skipið Sighvat GK. Nýi búnaðurinn bætir alla aflameðhöndlun, svo sem blæðingu, kælingu, flokkun og frágang afla í lest. Verkefnið er að hluta til unnið með Marel, sem mun meðal annars sjá um flokkara og annan búnað.

„Skaginn 3X hefur unnið með Vísi að mörgum verkefnum í gegnum tíðina og komið að endurnýjun og þróun nýrra lausna í fiskiskip félagsins undanfarin ár,” segir Freysteinn Nonni Mánason, sölustjóri hjá Skaganum 3X.
“Í þessu verkefni er enn bætt við nýjungum og meðal annars verður ný hönnun á skrúfum í RoteXTM lausn skipsins, sem bæta mun blæðingu enn frekar,” bætir hann við.
Vísir hefur lagt mikla áherslu á ábyrgar veiðar, hátæknivinnslu og vörugæði. Fyrirtækið býr nú þegar yfir góðum skipaflota til línuveiða og nýja skipið mun enn frekar styðja við stefnu félagsins um að veiða, vinna og framleiða afurðir úr fyrsta flokks hráefni fyrir breiðan hóp kröfuharðra viðskiptavina vítt og breitt um heiminn.

“Lausnin um borð í Pál Jónsson hefur verið unnin í nánu og góðu samstarfi við sérfræðinga Skagans 3X og stuðlar að áframhaldandi framleiðslu á framúrskarandi matvælaafurðum,” segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis.
Skaginn 3X kynnti ValuePump™ í Brussel Starfsmenn Skagans 3X hafa einbeitt sér að því að finna lausnir á því hvernig varðveita megi gæði hráefnis betur en áður þekktist. Árangur þeirrar vinnu var kælikerfið SUB-CHILLING™, sem undirkælir fisk án þess að ís komi þar við sögu.

„Þessi kælitækni skilaði undraverðum árangri og bætti líftíma fersks fisks um fimm til sjö daga,” segir Ingólfur Árnason, forstjóri Skagans 3X.
Í framhaldi af undirkælingunni var ákveðið að ganga enn lengra og kallaði á þróun nýs tækis, sem var kynnt formlega í fyrsta sinn á sjávarútvegssýningunni í Brussel við mjög góðar viðtökur.
„Við köllum þetta tæki ValuePump™ og það er algjörlega einstakt á markaðnum – ekkert annað tæki sem völ er á í dag getur gert það sama og nýja tækið okkar eða virkar á svipaðan hátt,“ segir hann.

Ingólfur segir að tækið muni valda byltingu í fiskiðnaðinum, draga verulega úr vinnslutíma og auka gæði afurða enn frekar.
„Á meðan fiski er dælt á milli staða innan vinnslunnar má ná fram margskonar ávinningi; stytta blæðingartíma, flýta kæliferlinu, þvo fiskinn, sótthreinsa hann, sjóða eða frysta. Við erum sem sagt með dælu, en það fer svo allt eftir vökvanum sem um hana rennur hverju sinni hver ávinningurinn verður. Um dæluna getur runnið vökvi sem er allt frá því að vera 80 gráðu heitur niður í það sem jafngildir 20 gráða frosti og allt þar á milli“.

Auglýsing

Í matvælaframleiðslu er fiskeldi helsti vaxtarbroddurinn

Sennilega vex engin matvælaframleiðsla í heiminum eins hratt og fiskeldi, líkt og lesa má úr gögnum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO. Það er ekki að ástæðulausu.

 

Áætlað er að jarðarbúum fjölgi um 2 milljarða á næstu þrjátíu árum, fari úr 7,7 milljörðum í 9,7 milljarða. Þessu fylgir óhjákvæmilega mun meiri neysla á prótíni; hjá því verður einfaldlega ekki komist. Lífskjör eru almennt að batna í heiminum og þar með eykst neysla vaxandi hóps sem hefur kaupmátt til að kaupa matvöru á borð við kjöt og fisk. Ljóst er því að eftirspurnin mun aukast á komandi árum. Verkefnið er risavaxið og stóra spurningin er þá; hvaðan á þetta prótín að koma?

 

Í hverri skýrslunni á fætur annarri er bent á að fiskeldi í heiminum muni vaxa. FAO hefur til að mynda vakið athygli á þessu árum saman. Með batnandi lífskjörum í heiminum eykst spurn eftir dýrari fiskeldisafurðum, svo sem laxi, ár frá ári eins og tölur síðustu ára hafa einnig staðfest. Það er því fráleitt sem látið hefur verið í veðri vaka að Sameinuðu þjóðirnar vari við fiskeldi á borð við það sem stundað er með góðum árangri vestan hafs og austan og er nú að vaxa fiskur um hrygg hér á landi.

 

Miklar og örar tækniframfarir eiga sér stað í hvers konar fiskeldistækni. Þær opna nýjar leiðir til frekari vaxtar í góðri sátt við lífríkið. Færð hafa verið fyrir því rök að breytt neyslumynstur og náttúrulegar aðstæður stuðli að hlutfallslega aukinni eftirspurn eftir fiskafurðum umfram ýmsar aðra matvælaframleiðslu. Víða um heiminn, þó ekki hér á landi, er ræktarland komið að endimörkum; til lengri tíma litið gæti sú staða skapað íslenskum landbúnaði ný sóknarfæri. Bent er á – meðal annars af alþjóðastofnunum –  að landbúnaðarframleiðsla á ákveðnum svæðum hafi leitt til eyðileggingar búsvæða viðkvæmra lífvera og geti því ekki vaxið  á heimsvísu. Þetta eykur enn þörfina á fiskeldi af margs konar toga.

 

Íslenskur sjávarútvegur hefur náð ótrúlegum árangri með því að auka vinnsluvirðið með stórbættri nýtingu sjávarfangsins og sker sig úr að því leyti í samanburði við aðrar þjóðir. Það breytir hins vegar ekki þeirri stóru heildarmynd að óhjákvæmilegur og bráðnauðsynlegur  vöxtur í fiskframleiðslu muni í framtíðinni koma frá fiskeldi, rétt eins og gerst hefur á undanförnum árum. Þetta blasir við hverjum manni og þetta eru þau skilaboð sem fræðimenn, greinendur og alþjóðastofnanir, þar með talið stofnanir Sameinuðu þjóðanna, hafa sent frá sér ítrekað á undanförnum árum og gera enn.

 

Einar K. Guðfinnsson, starfar að fiskeldismálum hjá SFS

Auglýsing

Fasteignamarkaðurinn í apríl: 31 samningur og 461 milljónir króna

Frá Hólmavík. Mynd:Kristinn H. Gunnarsson.

Fasteignamarkaðurinn á Vestfjörðum var mun líflegri í apríl en í mánuðunum á undan. Alls voru gerðir 31 samningar að upphæð 461 milljónir króna. Tólf samningar voru um fjölbýli , 14 um sérbýli og 5 um aðrar eignir.

Tíu samninga af þessum 31 voru á Ísafirði. Fimm um fjölbýli, tveir um sérbýli og þrír um aðrar eignir. samtals fjáræð samninganna var 189 milljón króna.

Utan Ísafjarðar var gerður 21 samningur að fjárhæð 272 milljónir króna. Sjö voru um fjölbýli, 12 um sérbýli og tveir voru um aðrar eignir.

Meðalfjárhæð á samning á Ísafirði var 18,9 milljónir króna en utan Ísafjarðar var meðalupphæðin 13 milljónir króna.

Fasteignaveltan utan höfuðborgarsvæðisins var í apríl rúmir 11 milljarðar og lækkaði hún um rúmar 150 milljónir m.v. apríl í fyrra.

Frá þessu er greint í fréttum Þjóðskrár Íslands.

Auglýsing

Kostnaður við umferðarslys 51 milljarður króna

Frá vatnavöxtum í Hestfjarðará í nóvember síðastliðnum. Mynd : Kristinn H. Gunnarsson.

Í nýútkominni skýrslu Samgöngustofu um umferðarslys á Íslandi 2018 kemur fram að kostnaðurinn við umferðaslysin er áætlaður hafa vera um 51 milljarður króna. Alls urðu 6336 slys og óhöpp á síðasta ári. Banaslysin urðu 15 og 155 alvarleg slys. Kostnaður við hvert banaslys er áætlaður 660 milljónir króna og við hvert alvarlegt slys 86,4 milljónir króna, hvort tveggja á verðlagi ársins 2013. Slys Íslendinga í útlöndum eru ekki skráð í slysaskrána, en hins vegar slys útlendinga hér a landi.

Í skýrslunni segir að árið 2018 hafi að mörgu leyti verið gott ár í umferðinni á Íslandi.

Á síðustu tíu árum (2009-2018) létust 133 í umferðinni á Íslandi en árin tíu þar á undan (1999-2008) létust 229. Því má segja að 96 mannslíf hafi bjargast á síðustu tíu árum eða u.þ.b. tíu á ári, segir í skýrslunni.

Flest slys og óhöpp verða á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þar á eftir eru annars vegar tvö önnur stór gatnamót við Miklubraut (Háaleitisbraut og Grensásvegur) og hins vegar þrjú gatnamót eða hringtorg í Hafnarfirði; Hringtorg Flatahraun / Fjarðarhraun /Bæjarhraun, hringtorg Reykjanesbraut / Lækjargata og gatnamót við Kaplakrika (Reykjanesbraut / Fjarðarhraun).
Þegar kemur að slysum með meiðslum eru gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar einnig með flest slys. Þar á eftir eru svo gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar og gatnamót Miklubrautar og Háaleitisbrautar.

Vestfirðir : 94 slys og óhöpp

Á Vestfjörðum urðu 94 slys og óhöpp þar sem 35 slösuðust eða létust. Eitt banaslys varð á árinu, í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi. Sá vegarkafli er í fjórða sæti yfir flest slys í dreifbýli með meiðslum sé miðað við umferðarmagn á árabilinu 2014-2018. Um er að ræða Djúpveg  (Hvítanesvegur (6315-01) – Hestfjarðará) 14 km langan vegarkafla þar sem urðu 7 slys með meiðslum.

 

Auglýsing

Vatnsgjald Bolungavík : telur úrskurð ráðuneytisins ekki hafa áhrif

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík telur að úrskurður Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um vatnsgjald í Reykjavík hafi ekki áhrif á gjaldskrá vatnsveitunnar í Bolungavík. Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum að álagning Orkuveitu Reykjavíkur á vatnsgjaldi ársins 2016 hafi verið ólögmæt.

Í úrskurði ráðuneytisins segir, að með öllu sé óheimilt í gjaldskrá að ákveða hærra gjald en nemur meðalkostnaði af því að veita þjónustuna. Samkvæmt skýru orðalagi í 1. mgr. 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga skuli vatnsgjaldi, ásamt öðrum tekjum vatnsveitu, aðeins ætlað að standa undir rekstri vatnsveitunnar. Undir það falli einnig fjármagnskostnaður, fyrirhugaður stofnkostnaður samkvæmt langtímaáætlun veitunnar og kostnaður við að tryggja nægilegt vatn til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað í samræmi við skyldur veitunnar.

Í lögum eða reglugerð væri á hinn bóginn hvergi að finna ákvæði, sem heimilar að tekinn sé arður af starfsemi vatnsveitu.

Í framhaldi af úrskurðinum ákvað ráðuneytið að taka til skoðunar gjaldskrár allra sveitarfélaga, sem settar hafa verið á grundvelli laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004.

Tekjur af vatnsveitu Bolungavíkur urðu 2018 35,3 milljónir króna en gjöldin 29,7 milljónir. Tekjur umfram gjöld voru því nærri 20%. Jón Páll segir að það liggi fyrir uppsöfnuð fjárfestingaþörf í vatnsveitunni og núverandi gjaldskrá og afkoma vatnsveitunnar endurspegli þessa stöðu og er til þess fallin að búa í hagin fyrir framtíðar fjárfestingar.

Auglýsing

Þrautseigir grásleppukarlar

Gísli Skarphéðinsson og Hallgrímur Guðfinnsson, grásleppukarlar. Mynd: Kristján Andri Guðjónsson.

Þeir eru þrautseigir grásleppukarlanir á Sörla ST 67 Hallgrímur Guðfinnsson og Gísli Skarphéðinsson, annar Bolvíkingur og hinn Ísfirðingur. Þeir voru að ljúka sínu fjórða úthaldi saman. „Meðalaldurinn á skipshöfninni er 72 ár“ segir Hallgrímur. Veiðin var 16 – 17 tonn af grásleppu og Hallgrímur segist alltaf ánægður. Gott verð fékkst fyrir hrognin. Þeir reru mest í Djúpinu, „veðráttan var einstaklega góð, aldrei vesen vegna veðurs“ segir Hallgrímur, sem nú er kominn suður í Miðhús í Biskupstungunum þar sem hann býr.

Hann segist ekkert hrifinn af því að kvótasetja grásleppuna, en um það hefur verið rætt, og segir enga þörf á því. “ Það er enginn straumur af ungu fólki á grásleppuveiðar. Reimar Vilmundarson er unglambið í hópnum og hann er að detta í fimmtugt.“

Auglýsing

Á móti straumnum – róið fyrir Pieta samtökin

í dag þriðjudaginn 14. maí leggur kajakræðarinn Veiga Grétarsdóttir
af stað hringinn í kringum landið og er stefnan tekin á Ingjaldssand. Veiga
leggur af stað klukkan 10:00 frá bryggjunni á Ísafirði.

Veiga mun róa rangsælis hringinn í kringum landið en það hefur enginn
gert áður. Ásamt því að vera fyrsta íslenska konan til að róa hringinn í
kringum landið á kajak er hún mögulega fyrsta transkonan í heiminum til
að reyna slíkt afrek.
Verkefnið kallar Veiga „Á móti straumnum“ sem er táknrænt þar sem segja
má að Veiga hafi siglt á móti straumnum alla ævi.
Veiga mun stoppa víða á leið sinni umhverfis landið næstu vikurnar og
vonast hún eftir því að geta lokið hringnum á Ísafirði eftir sex til átta vikur.

Á ferð sinni um landið mun Veiga halda fyrirlestra á átta stöðum:
Patreksfirði, Stykkishólmi, Akranesi, Vestmannaeyjum, Höfn, Reyðarfirði, Húsavík og Siglufirði, þar sem hún mun kynna ferðina, verkefnið og segja frá kynleiðréttingaferlinu. Fyrirlestrarnir verða auglýstir fyrir hvern áfangastað þegar nær dregur en veður og vindar ráða alfarið för.

Á meðan á róðrinum stendur mun Veiga halda úti vefsíðunni http://veiga.is/ þar sem hægt verður að fylgjast með ferð hennar í kringum landið. Einnig veður hægt að fylgjast með Veigu á samfélagsmiðlum.

Veiga safnar áheitum fyrir Píeta samtökin sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Sjá nánar á www.pieta.is.

Hægt er að heita á Veigu með því að leggja inn á styrktarreikning: 301-13-305038,

kt: 410416-0690 eða hringja í styrktarnúmerin: 901 7111 –1.000, kr. | 901 7113 – 3.000, | 901 7115 – 5.000, kr.

Auglýsing

Ísafjarðarbær: Símanotkun nemenda ekki vandamál

Það er mat skólastjórnenda í grunnskólum í Ísafjarðarbæ að símanotkun nemenda sé ekki vandamál, til staðar eru reglur um símanotkun sem stjórnendur telja að virki vel.

Þetta kemur fram í bókun Fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar á fundi hennar síðastliðinn fimmtudag. Tilefni bókunarinnar var erindi sem nefndinnii barst frá Birnu Lárusdóttur, foreldri barns við Grunnskólans á Ísafirði. Í bréfinu segir er því beint til fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar að hún hafi forgöngu um að grunnskólar sveitarfélagsins verði snjallsímalausir á skólatíma frá og með næsta hausti.

„Tillaga mín er sú að í góðu samráði við nemendur, kennara, foreldra og skólayfirvöld verði gerð tilraun til snjallsímaleysis í öllum árgöngum skólanna í eitt skólaár og árangurinn metinn að þeim tíma loknum.“ segir í erindinu.

Birna hefur um skeið talað fyrir snjallsímaleysi í Grunnskólanum á Ísafirði og segir að  fjölmargir foreldrar hafi tekið undir málflutning hennar,  „að því gefnu að nemendur megi áfram taka síma með í skólann svo hægt sé að ná í þá í lok skóladags.“

Þá segir Birna að kennarar við GÍ hafi haft  samband og „talið nauðsynlegt að grípa inn í þróun mála til að bæta skólabraginn, sem þeir telja að hafi breyst mjög til hins verra á skömmum tíma fyrir tilstilli snjallsímanna. Samskipti nemenda séu minni og
athygli nemenda skert þegar síminn er við hendina.“

Vísa Birna til Ölduselsskóla og Varmárskóla sem hafa valið að fara þessa leið.

Fræðslunefndin vísa til ofangreinds mats skólastjórenda í svari sínu til Birnu en gefur ekkert upp um afstöðu sína til málsins, annað en að hún segir að  „Fræðslunefnd telur mikilvægt að umræða um skjátíma og netnotkun barna og ungmenna sé haldið á lofti í samfélaginu.“

Auglýsing

Nýjustu fréttir