Þeir eru þrautseigir grásleppukarlanir á Sörla ST 67 Hallgrímur Guðfinnsson og Gísli Skarphéðinsson, annar Bolvíkingur og hinn Ísfirðingur. Þeir voru að ljúka sínu fjórða úthaldi saman. „Meðalaldurinn á skipshöfninni er 72 ár“ segir Hallgrímur. Veiðin var 16 – 17 tonn af grásleppu og Hallgrímur segist alltaf ánægður. Gott verð fékkst fyrir hrognin. Þeir reru mest í Djúpinu, „veðráttan var einstaklega góð, aldrei vesen vegna veðurs“ segir Hallgrímur, sem nú er kominn suður í Miðhús í Biskupstungunum þar sem hann býr.
Hann segist ekkert hrifinn af því að kvótasetja grásleppuna, en um það hefur verið rætt, og segir enga þörf á því. “ Það er enginn straumur af ungu fólki á grásleppuveiðar. Reimar Vilmundarson er unglambið í hópnum og hann er að detta í fimmtugt.“