Mánudagur 12. maí 2025
Heim Blogg Síða 1742

Vegurinn á Bolafjall er opinn fyrir umferð

Frá Bolafjalli. Mynd : bolungarvik.is

Vegagerðin  opnaði veginn upp á Bolafjall í dag fyrir almennri umferð.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að búið sé að hefla og rykbinda veginn og setja upp merkingar, en vakin er athygli á því að enn eru snjóskaflar á fjallsbrúnum og brýnt að fara ekki út af stígum vegna aurbleytu uppi á fjallinu.

 

Auglýsing

Tálknafjörður : nemendur fegra bæinn sinn

Fimmtudaginn 9. maí bauð 9.-10. bekkur á opið hús í Tálknafjarðarskóla til þess að fylgjast með úrslitakeppni um verkefni Landsbyggðavina sem nemendur gerðu til að fegra, breyta og bæta bæinn sinn, Tálknafjörð. Gaman var að sjá hversu margir voru komnir til að fylgjast með; foreldrar, kennara og sveitarstjórnarfólk.
Fríða Vala Ásbjörnsdóttir formaður Landsbyggðavina kom til þess að fylgjast með kynningu nemendanna og í dómnefnd sátu þeir Páll Líndal, Ph.D í umhverfissálfærði, stundakennari við HÍ, Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson Ph.D. í lífrænni efnafærði, dósent við HÍ, og Freyja Magnúsdóttir fulltrúa atvinnulífsins á Tálknafirði.
Í verkefniLandsbyggðavina: Framtíðin er núna fengu nemendur það verkefni að hugleiða hvaða tækifæri og auðlegð búi í þorpinu sínu. Þrjú verkefni komust í úrslit:

  • Þyrlupallur á Tálknafirði
  • Jörðmynd
  • Hjólabrettagarður á Tálknafirði.

Dómnefndin var sammála um ágæti allra verkefnanna og Páll Líndal, formaður dómnefndar, hvatti nemendur til þess að halda áfram með verkefnin. Gaman er að segja frá því að hópar tveggja verkefna hafa áframsent erindi til sveitarstjórnar vegna verkefnanna. Verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því.

Frétt á vef Tálknafjarðarhrepps.

Auglýsing

Ísafjarðarbær : Fjárfest fyrir 575 millj. kr. á árinu 2018

Frá fundi í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjárfest var fyrir 575 millj. kr. á árinu 2018 en áætlaðar fjárfestingar voru 730 millj. kr. Helsta skýring frávika frá áætlun er sú að inni í fjárfestingum er ekki 100 millj. kr. fjárfesting á árinu vegna Sindragötu 4a þar sem áætlað er að selja allar íbúðirnar á árinu 2019 og þær því flokkaðar meðal veltufjármuna. Fjárfestingar sveitarsjóðs námu 520 millj. kr. og fjárfestingar B-hluta stofnana námu 55 millj. kr.

Mikil umsvif voru við gatnagerð og stíga á árinu þar sem malbikunarstöð kom vestur og var fjárfest fyrir 275 millj. kr. Götur sveitarfélagsins voru malbikaðar fyrir 100 millj. kr., þar af 55 millj. kr. á Ísafirði og 45 millj. kr. á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri. Stærsta einstaka framkvæmdin á árinu var hellulögn Tangagötu frá Þvergötu að Austurvegi sem nam 70,5 millj. kr. Nýjar götur; Akurtunga og Æðartangi voru gerðar fyrir um 66 millj. kr. á árinu og nýr göngustígur var lagður meðfram grjótgarðinum í Fjarðarstræti fyrir 33 millj. kr. sem hefur vakið mikla ánægju meðal íbúa og notkun hans farið fram úr öllum spám.

Til viðbótar við gatnagerð og stíga voru settar 107 millj. kr. í skólamannvirki á árinu. Þar má helst nefna hönnun á viðbyggingu við Eyrarskjól sem verður til þess að skólinn getur tekið við fleiri börnum og bætir starfsmannaðstöðu til muna. Gerðar voru breytingar innanhúss í Grunnskólanum á Ísafirði til að koma fyrir starfsemi Dægradvalar sem nú getur tekið við öllum börnum 1. til 3. bekkja. Skólalóðir Grunnskólanna á Ísafirði og Flateyri voru endurnýjaðar á árinu.

Miklar framkvæmdir voru í snjóflóðavörnum á árinu og var hlutur sveitarfélagsins um 54,6 millj. kr.  Framkvæmdir í Kubba fóru á fullt og nam kostnaðurinn alls 573 millj. kr., en Ofanflóðasjóður greiðir 90% af honum.

Fjárfesting í íþróttamannvirkjum nam um 35 millj. kr. og tækjakaup eignasjóðs námu um 18,3 millj. kr. Meðal annars var keyptur skólabíll á Þingeyri fyrir 5,7 millj. kr. og björgunarbúnaður fyrir slökkviliðið fyrir 6,5 millj. kr. Nýja þjónustuhúsið á tjaldsvæðinu á Þingeyri var klárað fyrir um 9,6 millj. kr., hverfisráðin fengu úthlutað 11,1 millj. kr. og uppbyggingasamningar voru framkvæmdir fyrir 8 millj. kr.

Auglýsing

Ræktun stórþörunga til að mæta rammatilskipun ESB um vatn

Lisa Vidal ver lokaritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun.

Miðvikudaginn 15. maí kl. 9:00 mun Lisa Christine Vidal verja meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Ritgerðin ber titilinn Legislation meets science: Implementing a macroalgae farm to reach the requirements of the Water Framework Directive.  Vörnin fer fram í Háskólasetrinu og er opin almenningi.

Í rannsókninni fjallar Lisa um möguleika þararæktunar sem lið í því að uppfylla rammatilskipun ESB um vatn sem Ísland er aðili að. Umfram næringarefni og hættan á ofauðgun af mannavöldum í hafinu er ein helsta ógning sem stafar að vatnakerfum á landi og sjó á Íslandi. Í rannsókninni var kannað hvort ræktun stórþörunga geti gagnast við upptöku umfram næringarefna til að bæta vatnsgæði og þar með mæta kröfum vatnatilskipunarinnar. Meðal annars var gerð tilraun með að setja upp litla þararækt í Skutulsfirði í tengslum við rannsóknina. Nánari lýsingu má nálgast í útdrætti á ensku.

Leiðbeinandi verkefnisins er dr. Peter Krost, sérfræðingur í sjávarlíffræði við Coastal Research and Management í Kiel í Þýskalandi og kennari í fisk- og sjávareldi við Háskólasetur Vestfjarða. Prófdómari er dr. Agnes Mols Mortensen, líffræðingur við Fiskaalning, rannsóknarmiðstöð Færeyja um sjávareldi.

Auglýsing

Ísafjarðarbær greiðir 2,8 milljónir króna í lífeyrisskuldbindingar vegna Hjallastefnunnar

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að greiða til Brúar lífeyrissjóðs áfallnar lífeyrisskuldbindingar í Jafnvægissjóð og Varúðarsjóð vegna Hjallastefnunnar á grunni þjónustusamnings Hjallastefnunnar við Ísafjarðarbæ samtals kr. 2.826.830.

Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs frá síðasta mánudag.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til uppgjörs við Brú lífeyrissjóð vegna ógreidds framlags sem Hjallastefnan telur sig ekki skylduga til að greiða.

Vísað er til þess að þegar lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins var breytt árið 1997 hafi ríkissjóður með samkomulagi milli fjármála- og efnahagsráðherra, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Brúar lífeyrissjóðs, samhliða lagabreytingunni, skuldbundið sig til að greiða án lagaskyldu framlag til A-deildar Brúar vegna skuldbindinga aðila, þ.m.t. sveitarfélaga, vegna verkefna sem að meirihluta eru fjármögnuð af ríkissjóði með samningum og ríki ber að sinna.  Af þeim sökum fellst Ísafjarðarbær á að greiða umrædda fjárhæð, þótt lagaskylda sé ekki ótvíræð.

Stuðst er við minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsett 16. apríl sl., og frá Akureyrarbæ, dagsett 9. maí sl. um sams konar mál og lagt er til að samþykkja greiðslu á sömu forsendum og Akureyrarbær.

 

Auglýsing

Karfan: Yngvi hættir hjá Vestra

Ingólfur Þorleifsson, formaður Kkd. Vestra og Yngvi Páll Gunnlaugsson, fráfarandi yfirþjálfari Kkd. Vestra, stilltu sér upp í góðviðrinu á Ísafirði í dag eftir að hafa náð samkomulagi um starfslok Yngva. Eftirsjá er af Yngva, sem hefur stýrt faglegu starfi félagsins síðastliðin þrjú ár.

Yngvi Páll Gunnlaugsson, yfirþjálfari Körfuknattleiksdeildar Vestra, hefur ákveðið að láta af störfum hjá deildinni og hafa hann og stjórn félagsins náð góðu samkomulagi þar um. Yngvi mun áfram gegna starfinu fram eftir sumri eða þar til nýr þjálfari kemur til starfa. Ástæður brotthvarfs Yngva frá félaginu eru breyttir fjölskylduhagir en hann stefnir suður á höfuðborgarsvæðið með fjölskyldu sína með haustinu.

Frá þessu er greint á heimasíðu Vestra í gær.

Yngvi hefur átt farsælan feril hjá Vestra en hann tók við starfi yfirþjálfara körfunnar fyrir sléttum þremur árum. Hann hefur stýrt meistaraflokki karla í 1. deild ásamt því að vera yfir öllu starfi yngri flokka deildarinnar og þjálfa einstaka aldurshópa, jafnt stúlkur sem drengi. Hann varð bikarmeistari 2017 með 9. flokk drengja og undir hans forystu hafa yngri lið körfunnar náð góðum árangri og sum keppt í efstu riðlum á Íslandsmótum. Einnig hefur fulltrúum Vestra í yngri landsliðum KKÍ fjölgað í hans tíð auk þess sem meistaraflokkur kvenna er mögulega í burðarliðnum hjá deildinni eftir langt hlé.

Það er sannarlega eftirsjá af Yngva Páli frá Ísafirði og úr starfi íþróttafélagsins Vestra. Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra færir Yngva bestu þakkir fyrir gott og gefandi samstarf og óskar honum og fjölskyldu hans alls velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Auglýsing

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir 2018 samþykktur

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar var samþykktur í síðari umræðu bæjarstjórnar þann 2. maí síðastliðinn. Rekstrarafgangur Ísafjarðarbæjar nam 44 millj. kr. árið 2018 en gert hafði verið ráð fyrir 29 millj. kr. afgangi í fjárhagsáætlun. Niðurstaðan var í meginatriðum eins og fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og afskriftir var 489 millj. kr. samanborið við 335 millj. kr. árið áður en áætlunin 2018 hafði gert ráð fyrir 504 millj. kr.

Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs var neikvæð um 14,2 millj. kr. en gert hafði verið ráð fyrir halla upp á 25,6 millj. kr.

Tekjur sveitarfélagsins námu 4.919 millj. kr. en gert hafði verið ráð fyrir 4.996 millj. kr. Laun og launatengd gjöld voru alls 2.517 millj. kr.  sem er um 5,5 millj. kr. yfir því sem áætlað var. Heildarfjöldi starfsmanna hjá sveitarfélaginu í árslok 2018 var 438 en meðalfjöldi stöðugilda 315. Launþegar á árinu voru í allt 706.

Skuldir 7,5 milljarðar króna

Heildar skuldir og skuldbindingar í ársreikningi 2018 voru 7,5 milljarðar króna og þar af eru vaxtaberandi skuldir 5 milljarðar króna. Skuldahlutfall sveitarfélagsins var 152,32% í árslok 2018 og hækkar úr 145,15% frá árslokum 2017. Þá hækkun má rekja til samkomulags um 562,8 millj. kr. framlag til Brúar lífeyrissjóðs sem fjármagnað var með láni frá Lánasjóði sveitarfélaga. Ef ekki hefði komið til þess þá hefði skuldahlutfallið lækkað á milli ára og verið um 141%. Skuldaviðmiðið var 99,76% í árslok samkvæmt reglum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en það var 114,26% árið áður. Ástæður lækkunar skuldaviðmiðsins má rekja til breyttra reglna við útreikning þess en með sambærilegum útreikningum árið áður var skuldaviðmiðið 100,92%.

Veltufé frá rekstri var 514 millj. kr. en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 463 millj. kr. Veltufé frá rekstri sýnir hvað rekstur gefur af sér til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána.

Veltufjárhlutfallið var 0,88 í árslok 2018 en var 0,67 árið áður. Bókfært eigið fé nam 1.488 millj. kr. í árslok en var 1.354 millj. kr.  í árslok árið áður. Eiginfjárhlutfallið var 16,56% af heildarfjármagni en var 17,11% árið áður.

Íbúar Ísafjarðarbæjar þann 1. janúar 2019 voru 3.800 og fjölgaði þeim um 93 frá fyrra ári eða um 2,5%. Skatttekjur sveitarfélagsins voru 866 þús. kr. á hvern íbúa en tekjur samtals 1.295 þús. kr. á hvern íbúa.

Auglýsing

Er hagkvæmt að nýta ljósátu í Ísafjarðardjúpi?

Kristján G. Jóhannsson ver meistaraprófsritgerð sína í Sjávartengdi nýsköpun um hagkvæmni þess að nýta ljósátu í Ísafjarðardjúpi.

Fimmtudaginn 16. maí kl. 13:00 mun Kristján Guðmundur Jóhannsson verja meistaraprófsritgerð sína í sjávartengdri nýsköpun við Háskólasetur Vestfjarða. Ritgerðin ber titilinn Er hagkvæmt að nýta ljósátu í Ísafjarðardjúpi? Vörnin markar tímamót í starfsemi Háskólasetursins því þetta er fyrsta meistaraprófsvörnin í einstaklingsmiðaða meistaranáminu í sjávartengdri nýsköpun sem sett var á fót árið 2012.

Leiðbeinendur verkefnisins eru Einar Hreinsson, M.Sc. sjávarútvegsfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun og Sigríður Kristjánsdóttir, M.Sc. framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu. Prófdómari er dr. Ögmundur Knútsson, dósent við Viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Útdráttur

Markmið rannsóknarinnar var að kanna hagkvæmni þess að nýta ljósátu í Ísafjarðardjúp, sem eru sviflæg krabbadýr og líkjast smávaxinni rækju að útliti. Rannsóknir hafa leitt í ljós að umtalsvert magn finnst í Ísafjarðardjúpi. Ljósáta, sem almennt nefnist krill, er veidd á nokkrum svæðum í heiminum, en í mestu magni á hafsvæði við Suðurheimskautið. Greint er frá helstu rannsóknum hér við land auk þess sem farið er yfir lagalegt umhverfi nýtingar og hvernig veiðum er stýrt annars staðar. Margs konar afurðir eru framleiddar úr ljósátu og m.a. fæðubótarefni, sem vaxandi eftirspurn er eftir víða um lönd. Norðmenn og Kínverjar hafa undanfarin ár fjárfest mikið í veiðum og vinnslu á ljósátu. Lögð er fram hugmynd að nýsköpunarfyrirtæki, sem myndi sjá um veiðar og vinnslu á ljósátu úr Ísafjarðardjúpi og sett upp reiknilíkan og hugmyndir að markaðssetningu afurða.

Auglýsing

Salome hleypur hálfmaraþon til minningar um Kolbein

Salóme Gunnarsdóttir ætlar að hlaupa núna á sunnudaginn 19. maí næstkomandi hálfmaraþon á milli kirkja á Vestfjörðum, þ.e. á milli Súðarvíkurkirkju og Ísafjarðarkirkju. Svo vill til að vegalengdin milli kirknanna er nákvæmlega 21,1 km eða hálf maraþon vegalengd. Salóme er að hlaupa til minningar um frænda sinn Kolbein Einarsson sem lést nýverið úr krabbameini og safnar um leið áheitum fyrir Kraft.

Salóme er að hlaupa sitt fyrsta hálfmaraþon og mun hlaupa ein. Hún ætlaði sér fyrst að fara í hlaup í London en eftir andlát Kolbeins ákvað hún að hlaupa frekar á Vestfjörðum, til stuðnings Krafti og til minningar um Kolbein. Kolbeinn verður jarðsunginn á Ísafirði 18. maí og mun Salóme hlaupa styrktarhlaup sitt daginn eftir og á sama tíma og Kraftur heldur hlaup í Reykjavík .

Það er engin opinber áheitasöfnunarsíða fyrir þetta hálfmaraþon, bara reikningsnúmer:

Reikningsnúmer: 0515-26-850722
Kennitala: 020288-2999.

Salome greinir frá þessum fyrirætlunum sínum á facebook síðu sinni. Þar segist hún hafa rætt við framkvæmdastjóra Krafts, sem mælti með því að Salome notaði bankareikning á sínu eigin nafni, og legði svo heildarsummuna inn á Kraft í einni færslu að hlaupinu loknu. Segir Salome í færslunni að hver króna sem lögð verður inn á reikninginn muni fara til Krafts.

 

Auglýsing

Bíldudalskallar á ferð fyrir vestan

Á siglingu um Arnarfjörð að skoða laxeldið.

Um síðustu helgi fjölmenntu Bíldudalskallar, eins og þeir kalla sig,  vestur og heimsóttu átthagana og notuðu tækifærið til þess að kynna sér starfsemi Arnarlax og Kalkþörungaverksmiðjunnar.

Alls voru það 26 manns úr Arnfirðingafélaginu sem héldu vestur og áttu þar góða daga í blíðu veðri.

Guðmundur Bjarnason sagði að ákaflega vel hefði verið tekið  á móti þeim bæði í Arnalaxi og í Kalkþörungaverksmiðjunni.

„Við fórum út í Kvíar og út í Arnarból, borðuðum á vegamótum og í Skrímslasetrinu og vorum í laxaveislu í boði Arnarlax“ sagði Guðmundur og bætti við „það var fínasta veður og hnúfubakur að velta sér á firðinum með kálfi.“

Meðal þeirra sem voru í ferðinni voru nokkrir sem stóðu að stofnun Arnarlax á síðunum tíma. Guðmundur segir að þeir hafi verið 6 ár að berjast fyrir fyrsta leyfinu ( 3000 tonn) í Arnarfirðinum. “ Laxinn og kalkið hefur gjörbreytt öllu, Bíldudalur hefur algerlega snúist við.“ segir Guðmundur Bjarnason.

 

Bíldudalskallarnir í heimsókn í Kalkþörungaverksmiðjunni. halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri tók á móti þeim.
Í heimsókn hjá Arnarlaxi. Víkingur Gunnarsson tók á móti gestunum.

 

Myndir: Guðmundur Bjarnason.

Auglýsing

Nýjustu fréttir