Á móti straumnum – róið fyrir Pieta samtökin

í dag þriðjudaginn 14. maí leggur kajakræðarinn Veiga Grétarsdóttir
af stað hringinn í kringum landið og er stefnan tekin á Ingjaldssand. Veiga
leggur af stað klukkan 10:00 frá bryggjunni á Ísafirði.

Veiga mun róa rangsælis hringinn í kringum landið en það hefur enginn
gert áður. Ásamt því að vera fyrsta íslenska konan til að róa hringinn í
kringum landið á kajak er hún mögulega fyrsta transkonan í heiminum til
að reyna slíkt afrek.
Verkefnið kallar Veiga „Á móti straumnum“ sem er táknrænt þar sem segja
má að Veiga hafi siglt á móti straumnum alla ævi.
Veiga mun stoppa víða á leið sinni umhverfis landið næstu vikurnar og
vonast hún eftir því að geta lokið hringnum á Ísafirði eftir sex til átta vikur.

Á ferð sinni um landið mun Veiga halda fyrirlestra á átta stöðum:
Patreksfirði, Stykkishólmi, Akranesi, Vestmannaeyjum, Höfn, Reyðarfirði, Húsavík og Siglufirði, þar sem hún mun kynna ferðina, verkefnið og segja frá kynleiðréttingaferlinu. Fyrirlestrarnir verða auglýstir fyrir hvern áfangastað þegar nær dregur en veður og vindar ráða alfarið för.

Á meðan á róðrinum stendur mun Veiga halda úti vefsíðunni http://veiga.is/ þar sem hægt verður að fylgjast með ferð hennar í kringum landið. Einnig veður hægt að fylgjast með Veigu á samfélagsmiðlum.

Veiga safnar áheitum fyrir Píeta samtökin sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Sjá nánar á www.pieta.is.

Hægt er að heita á Veigu með því að leggja inn á styrktarreikning: 301-13-305038,

kt: 410416-0690 eða hringja í styrktarnúmerin: 901 7111 –1.000, kr. | 901 7113 – 3.000, | 901 7115 – 5.000, kr.

DEILA