Vatnsgjald Bolungavík : telur úrskurð ráðuneytisins ekki hafa áhrif

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík telur að úrskurður Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um vatnsgjald í Reykjavík hafi ekki áhrif á gjaldskrá vatnsveitunnar í Bolungavík. Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum að álagning Orkuveitu Reykjavíkur á vatnsgjaldi ársins 2016 hafi verið ólögmæt.

Í úrskurði ráðuneytisins segir, að með öllu sé óheimilt í gjaldskrá að ákveða hærra gjald en nemur meðalkostnaði af því að veita þjónustuna. Samkvæmt skýru orðalagi í 1. mgr. 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga skuli vatnsgjaldi, ásamt öðrum tekjum vatnsveitu, aðeins ætlað að standa undir rekstri vatnsveitunnar. Undir það falli einnig fjármagnskostnaður, fyrirhugaður stofnkostnaður samkvæmt langtímaáætlun veitunnar og kostnaður við að tryggja nægilegt vatn til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað í samræmi við skyldur veitunnar.

Í lögum eða reglugerð væri á hinn bóginn hvergi að finna ákvæði, sem heimilar að tekinn sé arður af starfsemi vatnsveitu.

Í framhaldi af úrskurðinum ákvað ráðuneytið að taka til skoðunar gjaldskrár allra sveitarfélaga, sem settar hafa verið á grundvelli laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004.

Tekjur af vatnsveitu Bolungavíkur urðu 2018 35,3 milljónir króna en gjöldin 29,7 milljónir. Tekjur umfram gjöld voru því nærri 20%. Jón Páll segir að það liggi fyrir uppsöfnuð fjárfestingaþörf í vatnsveitunni og núverandi gjaldskrá og afkoma vatnsveitunnar endurspegli þessa stöðu og er til þess fallin að búa í hagin fyrir framtíðar fjárfestingar.