Bíldudalskallar á ferð fyrir vestan

Á siglingu um Arnarfjörð að skoða laxeldið.

Um síðustu helgi fjölmenntu Bíldudalskallar, eins og þeir kalla sig,  vestur og heimsóttu átthagana og notuðu tækifærið til þess að kynna sér starfsemi Arnarlax og Kalkþörungaverksmiðjunnar.

Alls voru það 26 manns úr Arnfirðingafélaginu sem héldu vestur og áttu þar góða daga í blíðu veðri.

Guðmundur Bjarnason sagði að ákaflega vel hefði verið tekið  á móti þeim bæði í Arnalaxi og í Kalkþörungaverksmiðjunni.

„Við fórum út í Kvíar og út í Arnarból, borðuðum á vegamótum og í Skrímslasetrinu og vorum í laxaveislu í boði Arnarlax“ sagði Guðmundur og bætti við „það var fínasta veður og hnúfubakur að velta sér á firðinum með kálfi.“

Meðal þeirra sem voru í ferðinni voru nokkrir sem stóðu að stofnun Arnarlax á síðunum tíma. Guðmundur segir að þeir hafi verið 6 ár að berjast fyrir fyrsta leyfinu ( 3000 tonn) í Arnarfirðinum. “ Laxinn og kalkið hefur gjörbreytt öllu, Bíldudalur hefur algerlega snúist við.“ segir Guðmundur Bjarnason.

 

Bíldudalskallarnir í heimsókn í Kalkþörungaverksmiðjunni. halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri tók á móti þeim.
Í heimsókn hjá Arnarlaxi. Víkingur Gunnarsson tók á móti gestunum.

 

Myndir: Guðmundur Bjarnason.

DEILA