Mánudagur 12. maí 2025
Heim Blogg Síða 1739

Alþjóðlegi safnadagurinn er í dag 18. maí 2019.

Söfn um heim allan munu fagna Alþjóðlega safnadeginum laugardaginn 18. maí og dagana í kring. Þátttaka í Alþjóðlega safnadeginum fer vaxandi meðal safna um heim allan en á síðasta ári tóku yfir 40.000 söfn þátt í atburðinum í 158 löndum.

Sýning á Ísafirði

Alþjóðlegi safnadagurinn er á morgun, 18. maí. Yfirskrift dagsins er „Söfn sem menningarmiðstöðvar: Framtíð hefðarinnar“.  Dagurinn er haldinn ár hvert af International Council of Museums (ICOM). Þátttakendur eru um 35.000 söfn í 140 löndum. Í tilefni dagsins verður boðið upp á kaffi og meðþví í Safnahúsinu en í sal Listasafns Ísafjarðar getur að líta sýningu frá Menntamálastofnun – Tíðarandi í teikningum.

Ísfirðingar – Vantar nöfn á gamlar myndir

Þá höfum við breytt sýningunni um sögu hússins á 3. hæð. Á 1. hæðinni liggja frammi möppur með gömlum ljósmyndum af einstaklingum sem okkur vantar nöfnin á. Það er því tilvalið að kíkja við, skoða myndir, lesa blöðin, skoða sýningarnar og kippa með sér bók á bókasafninu í leiðinni.

Auglýsing

Fimmtíu manns í móttöku Arctic Fish á Patreksfirði

Vel var mætt í nýja sjóvinnubátinn Arnarnes þegar Arctic Fish bauð til fagnaðar af því tilefni að fyrirtækið hóf sjóeldisstarfsemi í Patreksfirði og tók í notkun Arnarnesið. Fjórir Patreksfirðingar hafa verið ráðnir til starfa hjá Arctic Fish. Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri var glaður í bragði þegar Bæjarins besta ræddi við hann í gærkvöldi og sagði að um fimmtíu manns hefðu komið til að samgleðjast með starfsmönnum fyrirtækisins við þessi tímamót.

Myndirnar tók Eyrún Viktorsdóttir.

Auglýsing

Fyrsti heimaleikur Vestra í sumar

Í dag mætast tvo hörkulið á Olísvellinum á Ísafirði, en okkar menn í Vestra taka þá á móti Kára frá Skaganum.

Kári byrjaði tímabilið með 4-0 sigri gegn Völsung og gerðu svo 1-1 jafntefli við Þrótt frá Vogum í 2. umferðinni. Sitja þeir í 1. sæti eins og er.

Okkar menn byrjaðu á sterkum útisigri gegn Selfossi í fyrstu umferð en létu svo í minni pokann fyrir Völsung í 2. umferðinni.

Það má búast við hörku leik á milli þessari sterku liða og hvetjum við að sjálfsögðu alla til að mæta og styðja við sitt lið.

Leikurinn hefst klukkan 16:00

Áfram Vestri!

Auglýsing

TAKK!

Ég er um það bil að lenda aftur á jörðinni. Búinn að ferðast niður úr þessum margfræga sjöunda himni, hef loks náð að sannfæra sjálfan mig um að ég hafi ekki verið að taka þátt í lygasögu. Ég er svona að mestu búinn að þrífa af mér alla þessa frasa sem ég hef farið með, þegar ég hef verið spurður hvernig hafi gengið á Aldrei fór ég suður á páskunum. Allir hljóma þessir frasar sem innantóm froða. En hvernig gekk allt saman? Jú, þetta gekk einmitt eins og í lygasögu. Við erum vissulega í sjöunda himni með þetta allt saman. Við erum algjörlega í himnasælu. Svona gæti ég haldið áfram en finn þó ekki nógu sterk lýsingarorð (Muna; himnasæla gæti verið ný tegund af sælu til hliðar við kroppsælu á næsta ári). 

Nú er nýafstaðin sextánda Aldrei fór ég suður hátíðin á Ísafirði. Undirbúningur hófst í október síðastliðnum með upphafsfundi að Núpi í Dýrafirði. Það er að mörgu að hyggja og verkefnin jafn mörg og þau eru mismunandi. En það er valin manneskja í hverju rúmi. Fundurinn ákvað að liturinn í húfu ársins yrði gulur og allt markaðsefni skyldi ríma við þann lit. Ákveðið var halda okkur við óbreytt dagskrárskipulag en við skyldum taka upp þráðinn með upphitunardagskrá  í formi skemmtikvölds í Alþýðuhúsinu, eins og við gerðum í nokkur ár. Þar sló Tvíhöfði í gegn. Varningshópurinn okkar fór á meira flug en áður með frábærar hugmyndir að skemmtilegum varningi, auk þess bættum við aðgengið og fjölguðum söludögum. Rétt eins og varningurinn skiptir veitingasalan okkur höfuðmáli í fjáröflun okkar. Aldrei mathöll sló í gegn og fór þar hæst pælan og auðvitað Kroppsælan. Til að kóróna allt var aðsóknin gríðarleg og við fullyrðum að aldrei hafa fleiri sótt hátíðina. Við höfum ekki margar leiðir til að mæla fjöldann þegar engin miðasala er, en til viðmiðunar þá hafa aldrei fleiri komið akandi vestur í páskaviku en í ár. Þetta var einstök stemning. Dásemd.

Við hófum leika með Aldrei fór ég suður árið 2004 og síðustu ár höfum við haft af því áhyggjur hvort við séum brunnin inni í stemningu. Við setjum upp dagskrá og áætlun, hengjum upp plaköt, krossleggjum fingur og vonum að einhver komi. Það er því einstakt að við sláum met á sextándu hátíðinni. Í okkar herbúðum ríkir ekkert annað en auðmýkt, gleði og þakklæti og þegar ég hef heyrt í meðlimum verkhópsins síðustu daga þá hefur engin þreyta mætt mér, bara hamingja og spenna fyrir næstu hátíð. Ég ætla að fá að deila því með ykkur að þarna kristallast mín verðlaun sem starfandi rokkstjóra hátíðarinnar. Það að fá að starfa með rúmlega tuttugu manna hópi frábærra einstaklinga, sem af einskærri ástríðu kemur saman á ári hverju til að undirbúa þessa tónlistarhátíð (og allt í sjálfboðavinnu), það er dásamlegt. Í ofanálag að líta yfir þennan hóp og sjá að varla ein manneskja hefur helst úr lestinni frá upphafi verkefnisins, er dýrmætt.

Þegar ég tala um AFÉS-hópinn sem tuttugu manns þá er það nú ekki fulltalið. Það eru ótal margir sem leggja hendur á plóginn hverja páska. Svo margir íbúar Ísafjarðarbæjar og nágrannabyggðalaga sem hjálpa til og koma að verkefninu hverju sinni. Þess vegna viljum við segja að samfélagið allt haldi þessa hátíð. Þannig líður okkur alla vega. Við fáum mikla velvild frá öllum í kringum okkur, frá bæjaryfirvöldum, fyrirtækjum, einstaklingum og íbúum öllum. Ég vil meina að gestir hátíðarinnar, okkar tónlistarfólk og allir aðrir, finni fyrir þessu. Að það sé velkomið og að samfélagið bjóði hátíðina velkomna á ári hverju. Auðvitað veit ég að sumir eru komnir með leiða á þessu havaríi öllu, aðrir eru á því að það sé bannað að hafa gaman á páskunum en ég vil trúa því að fleiri en við sem stöndum að AFÉS séum stolt af því að fá svona marga gesti vestur og að standa að svona vel heppnuðum viðburði árlega. 

Mig langar fyrir hönd verkstjórnar og aðstandenda Aldrei fór ég suður að þakka af öllu hjarta, öllum þeim sem hjálpuðu okkur, studdu við bakið á okkur og ekki síst öllum þeim sem komu á hátíðina. Án þess að taka út einstaka gesti þá langar mig að nefna tvo heiðursmenn sem komu í hjólastólum ásamt fallegum vinahópi annað kvöldið. Dýrmæt minning og takk fyrir allt. Takk elsku Ísafjörður fyrir að hýsa okkur í blíðunni á milli fjallanna. Við getum kannski prófað að hafa smá meiri snjó næst fyrir þá sem vilja skíða á daginn og rokka á kvöldin (höfum þá bara snjóinn upp í fjöllunum). Takk fyrir skemmtunina kæru gestir og takk fyrir að styðja okkur um leið. Þökkum öðrum íbúum þolinmæðina. Helsta og kannski eina vandamál AFÉS er að eiga ekki okkar eigin íverustað, húsakost. Við höfum verið heppin hingað til (Takk, Kampi!) en það er vitaskuld ekki sjálfgefið. Kannski einn daginn rís Aldrei-höllin með rokksafni sem er opið allan ársins hring. Með sérstöku BG herbergi, Villa Valla horni og litlu kúluhúsi tileinkuðu Ásthildi Cesil. Maður má láta sig dreyma, eitt sinn var Aldrei fór ég suður nefnilega bara fáránleg grínhugmynd en er ekkert fyndin lengur. Heldur fúlasta alvara.

Takk,
Kristján Freyr Halldórsson

Auglýsing

Virðisaukinn, frumkvöðlaverðlaun Ísafjarðarbæjar

Aðstandendur gönguskíðaferðanna „Bara ég og stelpurnar“ fengu í gær Virðisaukann, frumkvöðlaverðlaun Ísafjarðarbæjar. Verðlaunin voru veitt við athöfn fyrir fund bæjarstjórnar í gær.

Í umsögn atvinnu- og menningarmálanefndar segir um verðlaunahafann: „Hólmfríður Vala Svavarsdóttir er eigandi og hótelstjóri á Hótel Ísafirði. Fyrir 4 árum síðan byrjaði hún að þróa helgarferðir til Ísafjarðar sem er nú vörumerkið „Bara ég og stelpurnar“.

Áður en verkefnið hófst má segja að helgarnar frá janúar fram í maí hafi verið algjörlega dauður tími í rekstri Hótelsins. Hólmfríður nýtti áhuga sinn og fagþekkingu í skíðagöngu og byrjaði að bjóða upp á skíðagöngunámskeið bara ætluð konum.

Fyrsta árið byrjaði þetta með einni helgi þar sem 20 konur voru skráðar til þátttöku. Konurnar heimsækja Ísafjörð frá fimmtudegi til sunnudags, gista á Hótel Ísafirði og njóta leiðsagnar heimamanna í skíðagöngu. Núna, 4 árum seinna hafa námskeiðin þróast og leggur Hólmfríður Vala áherslu á að þær konur sem koma á námskeið nýti sér þjónustu annarra fyrirtækja hér í bænum og fari í jóga, heimsæki Dokkuna, Ívaf, Sætt og Salt og fleiri fyrirtæki.“

Á meðfylgjandi mynd eru ásamt Hólmfríði Völu þeir Gunnar Bjarni Guðmundsson og Heimir Gestur Hansson.

Mynd: Hálfdán Bjarki Hálfdánsson.

Auglýsing

Nýr björgunarbátur SVÍ á Vestfjörðum

Hið nýja björgunarskip Ísfirðinga.

Fyrir liggja drög að samningi hafnarsjóðs Ísafjarðarbæjar og Björgunarbátasjóðs SVÍ á Vestfjörðum til þrigjja ára vegna kaupa á nýjum björgunarbáti frá Noregi. Gert er ráð fyrir að grunnframlag hafnanna í ísafjarðarbæ verði 2,5 milljónir króna. Á móti kemur að björgunarbátasjóður SVFÍ skuldbindur sig til þess veita höfnunum aðgengi að skipinu þegar þörf verður á

Hafnarstjórn telur kaupin nauðsynleg og leggur til við bæjarstjórn að leitað verði leiða til að fjármagna þann kostnað sem falla mun á Ísafjarðarbæ verði samningurinn undirritaður.
Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta er heildarkostnaðurinn við kaupin um 40 milljónir króna.
Auglýsing

Bolvíkingurinn Helga Guðmundsdóttir 102 ára í dag

Afmælisbarnir Helga Guðmundsdóttir með Ósk Gunnarsdóttur, dóttur sinni.

Helga Guðmundsdóttir, Bolungavík  er 102 ára í dag.

Helga er fædd 17. maí 1917 á Blesastöðum á Skeiðum. Þar ólst hún upp, ein 14 systkina sem náðu fullorðinsaldri en tvö systkini hennar létust í æsku.

Helga giftist Bolvíkingnum Gunnari Halldórssyni og flutti til Bolungarvíkur árið 1952. Þau eignuðust þrjú börn. Agnar búsettur í Mikla­bæ í Skagaf­irði, og Ósk, kenn­ari í Kópa­vogi. Lát­in er Krist­ín sem síðast var kenn­ari í Kefla­vík.

Eftir því sem best er vitað er Helga fyrsti Bolvíkingurinn sem nær 100 ára aldri.

Bæjarins besta óskar Helgu til hamingju með daginn.

 

Auglýsing

Arctic Fish hefur sjóeldisstarfsemi í Patreksfirði

Arnarnes lengst til vinstri við hlið Kópanes og Hafnarnes. Mynd: Bernharður Guðmundsson.

Arctic Fish hefur í þessari viku hafið sjóeldisstarfsemi í Patreksfirði og í tengslum við það hafa fjórir Patreksfirðingar hafa bæst við hópinn og heildarfjöldi starfsmanna komnir á sjötta tuginn.

 

Eftir sem áður verður er stærstur hluti sjóeldisstarfseminnar í Dýrafirði þar sem sjóeldi hefur nú verið stundað með vexti á hverju ári síðan 2009. Í sumar mun fyrirtækið síðan einnig hefja eldi í Tálknafirði sem styður við áframhaldandi uppbyggu fyrirtækisins í árgangaskiptu eldi samkvæmt vottuðum umhverfisstaðli ASC.

 

Uppbygging sjóeldisins tengist einnig fjárfestingum og uppsetningum á sjóeldisbúnaði og á flugbrautinni í Patreksfirði er verið að setja saman sjókvíar. Einnig heldur uppbygging seiðaeldisstöðvar félagsins í Tálknafirði áfram. Fyrirhugað er að verklok við fyrstu áfangana verði fagnað í haust.

Arnarnes – nýr sjóvinnubátur

Í dag er Arctic Fish að taka á móti nýjum sjóvinnubát til að þjónusta nýju eldisstöðina í Patreksfirði. Báturinn hefur fengið nafnið Arnarnes og verður með heimahöfn á Patreksfirði.

Arnarnes í Patreksfjarðarhöfn.
Mynd: Sigurður Pétursson.

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish segir að fyrirtækið leggi mikið uppúr því að hafa sem bestan tækjabúnað til að þjónusta ört stækkandi sjókvíaeldi fyrirtækisins með öryggi starfsmanna og fisksins í fyrirrúmi. Arnarnes er 13,5*7,5m tvíbytta smíðuð af Moen Marine í Noregi, báturinn er útbúinn 41 tonmetra marine krana frá Palfinger, auk krana eru tveir koppar, annar 3 tonn og hinn 5 tonn. Báturinn er útbúinn með 2 380hö scania vélum sem koma með gír og skiptiskrúfu frá Nogva, um borð er 24kwa Nanny ljósavél og 50hö bógskrúfa. Í brúnni eru siglingartæki frá Furuno og björgunarbátar koma frá Viking. Um borð er góð aðstaða fyrir áhöfn til að setjast niður , elda og láta fara vel um sig, meðal annars er að sjálfsögðu klósett sturta og verkstæði.

Samsetning sjókvía á flugvellinum.
Mynd: Sigurður Pétursson.
Auglýsing

Aukin vatnsgæði, vöxtur og fiskivelferð í lokuðum eldiskvíum

Í júlí n.k. mun dýralæknirinn Arve Nilsen verja doktorsverkefni sitt við Norska Dýralæknaháskólann.  Verkefnið byggir á umfangsmiklum rannsóknum sem fóru fram á laxi í lokuðum eldiskvíum. Eitt meginviðfangsefni rannsókna var að meta vöxt og viðgang laxalúsar í lokuðum eldiskvíum og jafnframt mæla vaxtarskilyrði fyrir lax, auk fleiri þátta. Rannsóknir hófust árið 2012 og voru unnar í samstarfi við ýmsar stofnanir, háskóla og fyrirtæki. Mælingar fóru fram í litlum lokuðum rannsóknarkvíum og stórum lokuðum eldiskvíum, sem rúma allt að 300 tonna lífmassa hver.

Niðurstöður eru fjölþættar og komu að miklu á óvart. Þær hafa verið birtar í ritrýndum tímaritum og má nálgast hjá greinarhöfundi. Ein meginniðurstaða er að koma má alveg í veg fyrir lúsasmit ef sjóinntak er dýpra en 20 metrar. Vatnsgæði ráðast af þéttleika fiska, fóðrunarstyrk og sjóskiptum. Með örum sjóskiptum skapast allt að 5 faldur straumur í samanburði við straumhraða í norskum fjörðum. Súrefnisþörf er síðan fullnægt með beinni íblöndun á hreinu súrefni. Mikill straumur og góð fóðurdreifing eru lykilþættir fyrir því að þéttleiki laxa, vaxtarhraði og fóðurnýting er betri en í opnum eldiskvíum. Gott eftirlit á fóðurleifum er jafnframt mikilvægur þáttur í að hámarka fóðurnýtngu. Óvenju mikil og góð holdgæði á sláturlaxi komu skemmtilega á óvart, bæði hvað varðar mikinn stífleika á vöðva og bætta flakanýtingu. Síðan en ekki síst eru afföll á eldistímanum lítil eða undir 5%.  Þessar niðurstöður voru staðfestar í endurteknum rannsóknum yfir 6 ára tímabil.

Í umræðum hérlendis hafa komið fram mismunandi meiningar um hvað telst lokuð sjókví eða hálflokuð sjókví. Í því efni er rétt að horfa til þess að hve miklu leiti innstreymi og útstreymi er stjórnað. Allir eru sammála um að landeldisstöð sé lokað kerfi, enda er þar full stýring á innstreymi og útstreymi sjávar. Til eru lokaðar eldiskvíar með mismikla stjórnun á sjóskiptum. Eldiskvíar sem nýttar voru í rannsóknum Arve Nilsen voru hannaðar af fyrirtækinu AkvaDesign í Noregi. Í þeirri eldistækni er fullkomin stjórnun á sjóskiptum og teljast því lokaðar eldiskvíar. Með þessari eldistækni framleiðir fyrirtækið Akvafuture AS í Noregi nú 6.000 tonn af laxi.

Kostnaður vegna fjárfestingar í nýrri eldistækni er vissulega meiri en í opnum eldiskvíum. Hinsvegar er nú að koma í ljós að stofnkostnaður er fljótur að greiðast upp með lægri rekstrarkostnaði, sem stafar m.a. frá betri fóðurnýtingu og meiri tekjum sem fylgja minni afföllum og hærri flakanýtingu. Vottun afurða skilar einnig virðisaukningu. Uppsöfnun á úrgangsefnum leiðir auk þess til þess að kostnaður sem fylgir stöðugum tilfærslum á eldissvæðum og hvíld þeirra er óverulegur. Og í lokin má nefna að þessari eldistæki fylgja að sjálfsögðu engin útgjöld vegna meðhöndlunar gegn laxalús.

 

Jón Örn Pálsson

Verkefnisstjóri

AkvaFuture ehf

jop@akvafuture.is

Auglýsing

Vorþing Vitafélagsins á Þingeyri

Svalvogar í Dýrafirði. Mynd: isafjordur.is

Vitafélagið – íslensk strandmenning heldur laugardaginn 18. maí sitt árlega vorþing í Blábankanum á Þingeyri við Dýrafjörð í samstarfi við heimamenn. Vorþingið fjallar um strandmenningu í heild sinni s.s. handverk, útivist og nýtingu auðlinda. Lagt verður út frá þeim auði sem fámenni getur boðið uppá, sérstaklega þar sem aðgengi að hafinu og nær óspilltum fjörum er auðvelt eins og er við Dýrafjörð.

Fjölbreytt erindi verða á þinginu svo og skoðunarferðir, m.a. kynnumst við listakonu sem vinnur skartgripi úr þangi og sker út með bandsög í rekavið alls kyns hluti og fígúrur, bátasmiður frá Flateyri mun kynna sjósókn fyrri alda, sagt verður frá fornminjavernd og fulltrúi frá elstu starfandi vélsmiðju landsins mun kynna smiðjuna. Farið verður í vettvangsferð í fjöruna, á vinnustofuna Fjöruperlur, Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar o.fl.

Auglýsing

Nýjustu fréttir