Mánudagur 12. maí 2025
Heim Blogg Síða 1740

Knattspyrnuskóli Vestra – Eiður Smári kemur

Um helgina verður haldinn í fyrsta skiptið knattspyrnuskóli Vestra. Þórólfur Sveinsson þjálfari hjá Þór Akureyri sér um skipulagningu og utanumhald á skólanum og með honum kemur Hlynur Eiríksson afreksþjálfari hjá FH.  Þjálfarar Vestra verða þeim svo til aðstoðar. Silja Úlfarsdóttir einn færasti hlaupaþjálfari Íslands mun vera með hlaupaþjálfun en hún hefur sérhæft sig í hraðaþjálfun fyrir íþróttamenn. Iðkendur fá einnig fyrirlestur um næringu og mun Salome Elín Ingólfsdóttir næringarfræðingur sjá um þann hluta.

Til að toppa þetta alltsaman mun knattspyrnuskólinn fá góðan gest frá KSÍ en það er enginn annar en Eiður Smári Guðjohnsen fyrrverandi fyrirliði Íslenska landsliðsins og fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu sem mætir á svæðið og verður með okkur í skólanum.

Knattspyrnuskólinn verður á Torfnesi.

Skólinn er ókeypis öllum iðkendum Vestra í knattspyrnu og innifalið í því er þjálfun, allt nesti og matur á meðan skólinn er í gangi og gjöf að skóla loknum. Það er Dömukvöld knattspyrnudeildar Vestra sem styrkir skólann.

Auglýsing

Ísafjörður: 61 milljóna króna lán í Ofanflóðasjóði

Frá framkvæmdum í Kubba. Mynd: iav.is

Ofanflóðanefnd hefur samþykkt er lánsumsókn Ísafjarðarbæjar að upphæð 61,4 mkr með fyrirvara um upphæð lánsins þar til bókhaldsgögn hafa verið yfirfarin.

Lánið er tekið vegna framkvæmda í Ísafjarðarbæ árið 2018 fyrir kostnaðarhæut sveitarfélagsins. Hlutur sveitarfélaga í umræddum framkvæmdum er 10% af kostnaði. Miðað við þá kostnaðarskiptingu má ætla að kostnaður við snjóflóðavarnirnar á síðasta ári hafi verið um 610 milljónir króna.

Í Ofanflóðasjóði liggja nærri 20 milljarðar króna samkvæmt ársreikningi 2017 og þar af eru nærri 17 milljarðar króna handbært fé. Fyrir skömmu kom fram gagnrýni um hægagang í framkvæmdum og hafa stjórnvöld verið hvött til þess að hraða framkvæmdum.

Auglýsing

Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 2018 komið út

Ársrit Sögufélags ísfirðinga 2018, 56. ár er komið út. Ritstjórar eru Jón Þ. Þór og Veturliði Óskarsson. Á forsíðu er mynd af Súgandafirði sem Róbert Schmidt tók.

Ritstjórar ársritsins segja í ávarpi sínu að meira efni hafi borist til þeirra á árinu en mörg undanfarin ár og fyrir vikið sé efni 56. árgangs fjölbreytt og fróðlegt, taki til ýmissa tímabila og margra svæða.

Fitjað er upp á þeirr nýbreytni að endurbirta efni frá fyrri árgöngum og er í þessu hefti grein Jóns Grímssonar Ísafjörður fyrir sextíu árum sem birtist í fyrsta árgangi ársritsins. Í greininni er brugðið ljósi á Ísafjörð og mannlífið þar á því Herrans ári 1896.

Guðfinna Hreiðarsdóttir skrifað minningargrein um Geir Guðmundsson í Bolungavík sem lést á árinu, en hann átti sæti í stjórn Sögufélags ísfirðinga í nærri fjörtíu ár.

Kjartan Ólafsson fyrrv ritstjóri og alþm skrifar um Suðureyri 1911 – 1916, úr dagbókum Magnúsar Hjaltasonar. Þá skrifar Leifur Reynisson grein sem hann nefnir örlagasaga Dýrfirðings og er um Jón Mósesson frá Arnarnesi við Dýrafjörð.

Margt fleira áhugavert er í ársritinu og verður enginn svikinn af því að festa kaup á því.

Stjórn Sögufélags Ísfirðinga skipa Guðfinna M. Hreiðarsdóttir, formaður, Sigurður Pétursson, ritari, Magni örvar Guðmundsson, gjaldkeri og meðstjórnandi er Valdimar H. Gíslason.

Auglýsing

Strandveiðar 2018: 45% aflans á A svæði

Smábátar í Bolungavíkurhöfn.

Heildaraflinn á strandveiðunum sumarið 2018 varð 9.803 tonn sem skiptist í 9.396 tonn af kvótabundnum tegundum og 391 tonn af ufsa sem landað var sem VS afla. Af kvótabundnu tegunundum var langmest af þorski 9.075 tonn. Heimilt var að veiða 10.200 tonn auk 700 tonna af ufsa.

A svæðið, sem nær meðal annars yfir Vestfirði, varð langaflahæst með 4.210 tonn af kvótabundnum tegundum eða 45% af heildaraflanum. Á A svæðinu stunduðu 202 bátar starndveiðar en alls voru 548 bátar á veiðunum.

Heildarverðmæti strandveiðiaflans var 2.194 milljónir króna. Þar af voru 90% seld í gegnum fiskmarkaði eða 8.857 tonn. Til fiskvinnslu voru seld 685 tonn samkvæmt samningi um almennan byggðakvóta yfir allt landið, sem er um 7% af heildarstrandveiðiaflanum.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.

Þetat kemur fram í skriflegu svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á alþingi við fyrirspurn frá Ingu Sæland um strandveiðar árið 2018.

Auglýsing

Sóknaráætlun landshluta: minna í atvinnuþróun en meira í menningu

Frá hamingjudögun á Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Framkvæmd sóknaráætlana landshluta hefur almennt tekist vel frá árinu 2015 að því er fram kemur í úttekt sem ráðgjafarfyrirtækið Evris gerði fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Í úttektinni var lagt mat á það hvort tekist hefði að ná markmiðum samninga um sóknaráætlanir. Þar var jafnframt bent á atriði sem betur mættu fara og lagðar fram tillögur til úrbóta.

Í skýrslu Evris segir :

„Það er almennt mest sátt um að sóknaráætlanir hafi treyst stoðir menningar í
landshlutum. Nokkur einhugur ríkir um að sóknaráætlanir hafi hóflega styrkt
samkeppnishæfni landshlutanna. Það er talsverður munur á afstöðu fólks hvort
sóknaráætlanir hafi tryggt gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna
og fært vald frá ríki til sveitarfélaga.“

Þá segir að samráðsvettvangur sem komið var á fót í öllum
landshlutum til að tryggja lýðræðislega aðkomu að verkefninu hafi ekki gengið sem skyldi og  finna þarf leiðir til að festa í sessi tilvist þeirra.

Stuðningur við menningartengd verkefni úr uppbyggingarsjóðum hefur aukist á
tímabilinu á kostnað styrkja til atvinnuþróunar og nýsköpunar. Styrkir eru almennt styrkir frekar lágir og „má færa rök fyrir því að meiri slagkraftur sé í færri en stærri styrkjum.“

Að mati Evris væri skynsamlegt að búa til hvata í uppbyggingarsjóði, sérstaklega þann hluta sem snýr að atvinnuþróun- og nýsköpun, og nota þannig sóknaráætlanir sem tæki til að styrkja það markmið að auka samkeppnishæfni landshlutanna og landsins í
heild um leið.

Þá segir að úthlutunarnefndir og fagráð séu í flestum tilvikum skipuð
einstaklingum sem búa á viðkomandi svæðum „en skynsamlegt gæti verið að
gera auknar kröfur um að einstaklingar utan svæðis, með sérþekkingu, taki
einnig þátt í fagráðum og úthlutunarnefndum í öllum landshlutum.“

 

Auglýsing

Tálknafjörður: deilt um 12 íbúðir fyrir aldraða

Séð yfir Tálknafjörð.

Meirihluti sveitarstjórnar er ákveðinn í því að reisa 12 öryggisíbúðir fyrir aldraða. Þetta kemur fram í samþykkt í hreppsnefndinni á síðasta fundi. Þar segir að sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps samþykkir að hreppurinn leggi fram 16% stofnframlag til byggingar íbúðanna á móti 24% framlagi ríkissjóðs. Framlag hreppsins verður 36,9 milljónir króna.  Miðað við þessar tölur virðist gert ráð fyrir að kostnaðurinn við íbúðirnar 12 verði um 230 milljónir króna.

í samþykktinni kemur ennfremur fram að „stofnframlag Tálknafjarðarhrepps greiðist með peningum, eftir því sem verkinu miðar og í samræmi við nánara samkomulag við Landsbankann um brúarlán á meðan á framkvæmdum stendur. “

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri segir að sótt hafi verið um til Íbúðalánasjóðs um stofnframlag frá ríkinu 24% af kostnaði. Erindið hefur ekki verið afgreitt og ekki er vitað hvort framlag ríkisins verði samþykkt. Án þess verður ekkert af framkvæmdum að sögn Bryndísar.

Gert er ráð fyrir að um leiguíbúðir verði að ræða þar sem verði öryggisþjónusta, en ekki hjúkrunarrými eða þjónustuíbúðir.

Lilja Magnúsdóttir, E-lista er á móti áformunum og segir í bókun að ekki hefur verið sýnt fram á þörf íbúa fyrir þessar íbúðir og  ekki heldur hvernig tryggja eigi rekstur þeirra til frambúðar.

Lilja Magnúsdóttir sagði í samtali við Bæjarins besta að sveitarfélagið hefði ekkert bolmagn til þess að ráðast í þessa framkvæmd og væri hún þess vegna á móti. Hún spyr líka hvernig eigi að fjármagna 60% sem eru umfram stofnframlögin.

Vítaverð ráðstöfun fjár

Í bókunin sinni segir Lilja að „ráðstöfun fjármuna sveitarfélagsins er vítaverð af hálfu meirihluta sveitarstjórnar þegar stór hluti þorpsins býr við óviðunandi ástand í neysluvatnsmálum og jafnframt algjört neyðarástand með tilliti til brunavarna vegna vatnsskorts, götur sveitarfélagsins eru illa farnar vegna skorts á viðhaldi og fráveita sveitarfélagsins er í algjörum ólestri.“

E listinn vildi að haldin yrði íbúafundur um málið sem allra fyrst en meirihlutinn vildi frekar efna til slíks fundar í byrjun september í haust.

Auglýsing

Vestri: Fundur um meistaraflokk kvenna

Stór hópur stúlkna á aldrinum 15-17 ára æfa körfubolta með Vestra. Þessi glæsilegi hópur er grunnur sem deildinn hyggst byggja á til að setja á fót meistaraflokk kvenna á ný.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra ásamt barna- og unglingaráði deildarinnar boða til fundar um meistaraflokk kvenna. Fundurinn fer fram í félagsheimili Vestra (Vallarhúsinu), fimmtudaginn 16. maí kl. 18:00. Það er sérstaklega mikilvægt að allir þeir sem áhuga hafa á verkefninu mæti til fundarins og á það bæði við um iðkendur og foreldra en ekki síður aðra áhugasama um verkefnið. Við hvetjum því alla sem hafa áhuga á framgangi kvennakörfunnar á Vestfjörðum að fjölmenna á fundinn.

Undanfarin ár hafa stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra og barna- og unglingaráð deildarinnar unnið markvisst að þvi að félagið tefli fram meistaraflokki kvenna á nýjan leik en síðast var hann starfræktur veturinn 2014-2015. Haustið 2016 voru lagðar línur um áætlun til að þetta markmið næði fram að ganga. Haustið 2017 var framtíðarsýn stjórnar kynnt fyrir iðkendum og foreldrum á fjölmennum fundi í Menntaskólanum á Ísafirði. Þar var stefnan sett á að tefla fram meistaraflokki kvenna eigi síðar en haustið 2020 en fyrr ef aðstæður byðu upp á.

Nú boðar stjórn til fundar um málið þar sem ákvörðun verður tekin um hvort lið verður skráð til leiks næskomandi haust eða beðið til haustsins 2020.

Ljóst er að þetta verkefni krefst samhents átaks úr röðum félagsins og því mikilvægt að allir sem áhuga hafa á verkefninu mæti.

Áfram Vestri!

Auglýsing

Gunnar Jónsson opnar sýningu á morgun

Ísfirðingurinn Gunnar Jónsson opnar sýninguna Gröf  í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, D – sal, fimmtudag 16. maí kl. 20.00.

Gunnar Jónsson er 37. listamaðurinn sem sýnir í sýningarröð D-salar Listasafns Reykjavíkur.

Gunnar er fæddur í Reykjavík árið 1988 en ólst upp á Ísafirði og býr þar og starfar í dag. Gunnar lauk BA-prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2012. Í verkum sínum rannsakar hann eigin uppruna, sjálfsmynd og umhverfi. Gunnar vinnur meðal annars með vídeó, ljósmyndir og tónlist. Hann er virkur í ýmsu félagsstarfi og er m.a. varamaður í stjórn Reykvíkingafélagsins á Ísafirði.

Markmið sýningarraðarinnar í D-sal er að gefa efnilegum listamönnum tækifæri til að vinna í fyrsta sinn að einkasýningu í opinberu listasafni og beina athygli gesta að nýjum og áhugaverðum hræringum innan listheimsins. Sýningarröðin hóf göngu sína árið 2007.

Sýningin verður opin til 23. júní 2019.

Auglýsing

Vegurinn á Bolafjall er opinn fyrir umferð

Frá Bolafjalli. Mynd : bolungarvik.is

Vegagerðin  opnaði veginn upp á Bolafjall í dag fyrir almennri umferð.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að búið sé að hefla og rykbinda veginn og setja upp merkingar, en vakin er athygli á því að enn eru snjóskaflar á fjallsbrúnum og brýnt að fara ekki út af stígum vegna aurbleytu uppi á fjallinu.

 

Auglýsing

Tálknafjörður : nemendur fegra bæinn sinn

Fimmtudaginn 9. maí bauð 9.-10. bekkur á opið hús í Tálknafjarðarskóla til þess að fylgjast með úrslitakeppni um verkefni Landsbyggðavina sem nemendur gerðu til að fegra, breyta og bæta bæinn sinn, Tálknafjörð. Gaman var að sjá hversu margir voru komnir til að fylgjast með; foreldrar, kennara og sveitarstjórnarfólk.
Fríða Vala Ásbjörnsdóttir formaður Landsbyggðavina kom til þess að fylgjast með kynningu nemendanna og í dómnefnd sátu þeir Páll Líndal, Ph.D í umhverfissálfærði, stundakennari við HÍ, Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson Ph.D. í lífrænni efnafærði, dósent við HÍ, og Freyja Magnúsdóttir fulltrúa atvinnulífsins á Tálknafirði.
Í verkefniLandsbyggðavina: Framtíðin er núna fengu nemendur það verkefni að hugleiða hvaða tækifæri og auðlegð búi í þorpinu sínu. Þrjú verkefni komust í úrslit:

  • Þyrlupallur á Tálknafirði
  • Jörðmynd
  • Hjólabrettagarður á Tálknafirði.

Dómnefndin var sammála um ágæti allra verkefnanna og Páll Líndal, formaður dómnefndar, hvatti nemendur til þess að halda áfram með verkefnin. Gaman er að segja frá því að hópar tveggja verkefna hafa áframsent erindi til sveitarstjórnar vegna verkefnanna. Verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því.

Frétt á vef Tálknafjarðarhrepps.

Auglýsing

Nýjustu fréttir