Mánudagur 12. maí 2025
Heim Blogg Síða 1738

Hreppsnefnd Auðkúluhrepps hefur í mörg horn að líta!

Fallegt bæjarstæði. Frá Tjaldanesi í Arnarfirði. Þar bjó Örn landnámsmaður einn vetur í tjöldum. Þar af nafnið. Ekki gengur sól af um skammdegi á Tjaldanesi. Ljósm. H. S.

Í gamni og alvöru af Þingeyrarvefnum:

Eins og komið hefur fram í fréttum, eru mikil umsvif hjá hreppsnefnd Auðkúluhrepps í Arnarfirði þessar vikurnar. Nú sækjast til dæmis ýmsir auðmenn eftir að stofna alls konar fjárfestingafélög í hreppnum, sem eru þó nokkur þar fyrir eins og til dæmis Puntstrá ehf. Samvinnufélag. Þeir halda nefnilega margir að þar sé eitthvert skjól að finna fyrir sköttum með niðurfellingu opinberra gjalda líkt og á Tortola og Cayman Islands.

Í því sambandi skulu nú rifjuð upp ýmis stór fjármál sem hafa verið til umfjöllunar hjá Kauphöll Auðkúluhrepps og Fjármálaeftirliti hreppsins, sem að vísu er lítt starfandi vegna fjárskorts. Allt á þetta að vera opið og gegnsætt. Liggur því beinast við að birta frétt frá í fyrrahaust sem sýnir vel við hvað hreppsnefndin er að kljást þarna í Auðkúluhreppi.

Frétt dagsins 19. nóv. 2018:

Miklar hræringar á hlutabréfamarkaðnum í Auðkúluhreppi

Fréttaritari vor í Auðkúluhreppi símar:

Í dag lék allt á reiðiskjálfi í Kauphöllinni í Auðkúluhreppi í Arnarfirði. Hlutabréf í mörgum félögum skiptu um eigendur og er nánast ómögulegt að átta sig á þeim sviptingum öllum. Hvað þá að nokkur maður viti almennilega á hvaða verði bréfin fóru.

Eignarhaldsfélagið Puntstrá ehf. Samvinnufélag, sem er 49% í eigu Gríms grallara, forstjóra Ánarmúla ehf og 50% í eigu Karls Karlssonar á Karlsstöðum, forstjóra Glímufélagsins Hlaðseyrar hf og 1% í eigu almennra félagsmanna, mun eignast alla hluti í Ufsum hf., sem fer með 40,3% eignarhlut í Hjallkárseyri hf, sem er 90% í eigu Rauðs á Rauðsstöðum, samkvæmt kaupsamningi þess efnis, að því er segir í áríðandi fréttatilkynningu frá Hlutabréfamarkaði Auðkúluhrepps.

Urðarhlíð hf hefur til þessa verið 50,12% í eigu Skóga ehf. og 49,88% í eigu Gíslaskers sf, en samningur milli félaganna gerir ráð fyrir að Ánarmúli ehf. taki við öllum hlutum Dynjanda II í Skógum ehf.

Þá hefur núverandi hluthöfum Dynjanda II verið veittur kaupréttur á sama viðskiptagengi til 29. febrúar 2019, á þeim hlutum sem undir voru í viðskiptunum. Samkvæmt tilkynningu frá Hlutabréfamarkaði Auðkúluhrepps má rekja tilurð viðskiptanna til þess að líftími Dynjanda II mun renna sitt skeið á næsta ári. Og þá skipta þeir um kennitölu. Úff! (Sjá Viðskiptatíðindi Auðkúluhrepps)

                                                                   Hallgr. Sveinsson

Auglýsing

Vesturbyggð – breyting á skipan í ráð og nefndir

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt eftirtaldar breytingar á skipan í nefndir og ráð bæjarins:

Esther Gunnarsdóttir tekur sæti sem aðalmaður í menningar- og ferðamálaráði í stað Rögnu Jennýar Friðriksdóttur og að Anna Vilborg Rúnarsdóttir taki sæti sem varamaður.

Ásdís Snót Guðmundssdóttir tekur sæti sem varamaður í skipulags- og umhverfisráði í stað Rögnu Jennýar Friðriksdóttur.

Rebekka Hilmarsdóttir tekur sæti sem aðalmaður í fjallskilanefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðahrepps í stað Ásgeirs Sveinssonar.

Auglýsing

Vesturbyggð: ítrekað stofnað til heimildarlausra útgjalda

Fram kemur í endurskoðunarskýrslu KPMG fyrir Vesturbyggð fyrir árið 2018 sem og í stjórnsýsluskoðunum frá árinu 2015 að KPMG hefur ítrekað bent á það að ekki hafi verið gætt að ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um gerð viðauka við fjárhagsáætlun, áður en stofnað er til útgjalda eða skuldbindinga sem ekki er heimild fyrir í fjárhagsáætlun.

Greinilegt er á  því sem fram kemur hjá KPMG að sveitarfélagið hafi ekki brugðist við ábendingunum með því að fara að lögum.

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að ábendingin kom fram í skýrslum KPMG fyrir fjögur ár í röð: 2015, 2016, 2017 og 2018.

Hún segist ekki geta tjáð sig um það af hverju ekki var brugðist við ábendingunum. „Um mitt ár 2018 var farið í að rýna þetta verklag og unnið að því að bæta það.“ segir Rebekka. Hún vill þó benda á „að mörg sveitarfélög hafa ekki gætt að ákvæðum sveitarstjórnarlaga um gerð viðauka, það á ekki bara við um Vesturbyggð“  og segir hún að sendi sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytið hafi sent leiðbeiningar til allra sveitarfélaga á árinu 2018 varðandi þessa framkvæmd.

Í bókun bæjarstjórnar Vesturbyggðar á síðasta fundi þar sem ársreikningar 2018 voru afgreiddir segir : „Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur þegar farið í endurskoðun á verklagi við vinnslu og gerð viðauka, þannig að viðaukar og staðfesting þeirra sé í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga og tryggt sé að framkvæmdir séu ekki hafnar fyrr en samþykktur viðauki við fjárhagsáætlun liggur fyrir.“

 

Auglýsing

Nemanja valinn bestur á lokahófi

Allir verðlaunahafarnir saman ásamt Yngva þjálfara og Ingólfi formanni. Mynd : vestri.is

Lokahóf Körfuknattleiksdeildar Vestra var haldið í beinu framhaldi af aðalfundi deildarinnar þann 24. apríl síðastliðinn. Sú nýbreytni var viðhöfð að elstu iðkendum deildarinnar í yngri flokkum, frá 9. flokki upp í drengja- og stúlknaflokk, var boðið til hófsins.

Yngvi Páll Gunnlaugsson yfirþjálfari veitti viðurkenningar. Besti leikmaðurinn var valinn Nemanja Knezevic en hann var jafnframt valinn besti varnarmaður liðsins. Nebojsa Knezevic var valinn besti sóknarmaðurinn, Hugi Hallgrímsson besti ungi leikmaðurinn, Hilmir Hallgrímsson fékk nafnbótina dugnaðarforkurinn og Egill Fjölnisson hlaut viðurkenningu fyrir mestu framfarirnar. Sérstök verðlaun, „Járnmaðurinn“ hlaut Gunnlaugur Gunnlaugsson fyrir ósérhlífið starf í þágu félagsins en þess má einnig geta að Gunnlaugur var fyrr um kvöldið kosinn sem varamaður í stjórn deildarinnar.

Að lokinni verðlaunaafhendingu veitti stjórn deildarinnar Guðmundi Kort Einarssyni lítinn þakklætisvott fyrir óeigingjarnt starf í þágu körfuknattleiks á Ísafirði en Guðmundur flytur suður á Akranes nú í vor. Þau eru ófá verkin sem Guðmundur hefur gengið í fyrir deildina í gegnum tíðina. Guðmundur hefur setið í stjórn deildarinnar sem varamaður undanfarin ár og sinnt fjölmörgum verkefnum á þeim vettvangi sem verða seint fullþökkuð. Hans verður þó líklega einna mest saknað af vettvangi Jakans-TV en hann hefur undanfarin ár borið uppi metnaðarfullar útsendingar Jakans af einstakri elju og dugnaði.

 

Auglýsing

Landsnet: Afhendingarstaður í Djúpinu kominn á framkvæmdaáætlun

Landsnet kynnir  drög að nýrri kerfisáætlun Landsnets 2019 – 2028 á opnum kynningarfundi á Hótel Ísafirði á morgun , þann 21. maí kl. 15.00 – 17.00.

Á fundinum verður kerfisáætlunin kynnt og fundargestum gefst tækifæri á að spyrja og hitta fólkið sem vinnur að gerð áætlunarinnar og fá að heyra hvað verið er að gera til að tryggja leiðina inn í framtíðina.

Fundurinn er liður í fundarherferð Landsnet um landið.

Stóru tíðindin eru þau að afhendingarstaður í Djúpinu er kominn á framkvæmdaáætlun.  Verkefnið snýr að uppsetningu á nýjum afhendingarstað í meginflutningskerfinu við Ísafjarðardjúp. Afhendingarstaðurinn verður tengdur við núverandi meginflutningskerfi í Kollafirði inn á Mjólkárlínu 1 (MJ1), þar sem byggt verður nýtt tengivirki.

Aðalvalkostur sem lagður er fram er að byggja 132 kV loftlínu, um 26 km langa, að afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi (Miðdal) ásamt tengivirkjum á báðum endum.

Kostnaður er áætlað 2.275 milljónir króna og gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á síðari hluta árs 2022 og að þeim ljúki með spennusetningu seinni hluta árs 2024. Gert er ráð fyrir að lokafrágangur og lúkning fyrir verkefnið ásamt tengdum verkefnum verði í gangi fram á árið 2024.

Einnig var skoðaður jarðstrengur þessa leið og er kostnaður áætlaður heldur meiri eða 2.367 milljónir króna.

Um þessa tvo valkosti segir í skýrslunni:

Báðir valkostir uppfylla markmið framkvæmdarinnar sem er að auka afhendingaröryggi flutningskerfisins á Vestfjörðum. Einnig hefur verið framkvæmt mat á því hvernig valkostirnir uppfylla markmið raforkulaga og má sjá niðurstöður úr því mati á myndum 3-68 og 3-69. Báðir valkostir koma jafnvel út þegar horft er til markmiða um skilvirkni og öryggi. Valkostur 2, sem er jarðstrengskostur, kemur betur út þegar horft er til áreiðanleika afhendingar en valkostur 1, sem er loftlína, kemur betur út þegar horft er til gæða raforku og hagkvæmni.
Hvað varðar stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, er valkostur 1 sá sem samræmist stefnunni betur, þar sem gert er ráð fyrir að línur í meginflutningskerfinu séu lagðar sem loftlínur, nema þegar sértstök viðmið eigi við.  Þau viðmið eiga ekki við í þessu tilfelli.
Það er því niðurstaða valkostagreiningar að Valkostur 1 er sá valkostur sem best uppfyllir öll markmið og samræmist best stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins og lagningu raflína.

 

Auglýsing

Öxarárfoss vatnsmikill í vorblíðunni

Öxarárfoss. Mynd : Kristinn H. Gunnarsson

Þingvellir eru komnir í sumarskrúða eins og sjá má á myndinni af Þingvallabænum og í gær var Öxarárfoss óvenju vatnsmikill og tilkomumikill. Þótt enn sé rétt miður maí voru fjölmargir erlendir ferðamenn í þjóðgarðinum. 

Auglýsing

Ársfundur Orkubús Vestfjarða á morgun

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Stakkanesi.

Opinn ársfundur Orkubús Vestfjarða verður haldinn á Hótel Ísafirði þriðjudaginn 21. maí kl. 12:00

Illugi Gunnarsson stjórnarformaður Orkubúsins og Elías Jónastansson, orkubússtjóri munu ræða málefni fyrirtækisins, kynna helstu stærðir í ársreikningi 2018 og það sem er á döfinni hjá fyrirtækinu.

Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs flytur erindi um loftlagsmál, orkuskipti og rafbíla.

Fundarmönnum gefst kostur á að koma með fyrirspurnir til framsögumanna.

Ársfundurinn er öllum opinn og verður fundargestum boðið upp á súpu á staðnum.

Áætluð fundarlok eru um kl. 13:30

Auglýsing

knattspyrna: Vestri vann 3:1

Frá leik á Torfnesvelli. Mynd úr safni.

Karlalið Vestra vann fyrsta heimaleikinn í 2. deildinni á þessu leiktímabili þegar liðið lagði lið Kára frá Akranesi 3:1. Fyrir leikinn voru Skagamennirnir í efsta sæti deildarinnar og þeir byrjuðu betur og skoruðu mark á 12. mínútu. Það var Eggert Kári Karlsson sem gerði markið. En Vestramenn jöfnuðu leikinn á 27. mínútu þegar Josh Signey skoraði eftir stoðsendingu frá Daniel Osafo-Badu.

Vetsri gerði síðan út um leikinn undir lok seinni hálfleiks  með tveimur mörkum. Á 80. mínútu skoraði Aaron Spear og Josh Signey átti stoðsendinguna. Josh Signey skorðai svo þriðja markið á 83. mín. og innsiglaði öruggan sigur.

Lið Vestra er í 2. – 5. sæti eftir þrjár umferðir með 6 stig og hefur unnið tvo leiki en tapað einum. Leiknar eru 22 umferðir.

Auglýsing

Auðshaugur: skil ekki hvernig ríkinu dettur þetta í hug

Auðshaugur.

Valgerður Ingvadóttir segist ekki skilja hvernig ríkinu dettur í hug að setja fram kröfu um eignarhald á stórum hluta jarðarinnar Auðshaugs í Barðastrandarsýslu.  En kröfulýsing efnahags- og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins  fyrir Barðastrandarsýslu liggur fyrir og hafa landeigendur frest til 16. ágúst 2019 til þess að bregðast við kröfum ríkisins. Að þeim fresti loknum verður málið tekið fyrir í Óbyggðanefnd, sem mun svo úrskurða um kröfuna. Úrskurði nefndarinnar má skjóta til dómstóla.

„Áður fyrr var til jörðin Auðnir, sem var úr Auðshaugi, en 1888 voru jarðirnar sameinaðar aftur.  Í þá daga bjó sýslumaður á Auðshaugi. Krafa ríksins er um það land Auðshaugs sem var innan til við Auðnir. Hér er fimmti ættliðurinn í röð sem býr á Auðshaugi“ segir Valgerður.

Hún segir að eigendur að Auðshaugi séu komnir með lögfræðing sem muni halda á málinu gagnvart Óbyggðanefnd. Valgerður segir að til séu nokkur gömul skjöl með greinargóðum landamerkjalýsingum jarðarinnar Auðshaugs og telur að þeim hafi öllum verið þinglýst.

Aðspurð um hvað geti skýrt kröfu ríkisins segir Valgerður að það verði að geta sér til um það, en henni sýnist að vatnsréttindin sem fylgja Kjálkafjarðará og vötnunum þar fyrir ofan verða líklegust til að skýra hana. Valgerði finnst það sérstakt að aðeins er gerð krafa í land úr jörðinni Auðhaugi en engar aðrar jarðir í nágrenninu.

 

Auglýsing

laxeldi: Jákvætt álit Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun er jákvæð í áliti sínu á fyrirhuguðu auknu laxeldi Arctic Fish og Arnarlax í sjó í Tálknafirði og Patreksfirði úr 3.000 tonnum í 17.500 tonn.

Forsaga málsins nær til ákvörðunar Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál (ÚUM) sem felldi úr gildi starfs- og rekstrarleyfi Arctic Fish og Arnarlax með tveimur úrskurðum 27. sept. 2018 og og 4. okt. 2018 þar sem ekki hefði verið framkvæmd valkostagreining í umhverfismatinu fyrir framleiðsluaukningunni á sínum tíma. Brást Alþingi við með því að setja lög um veitingu leyfa til bráðabirgða og gefa fyrirtækinu kost á að bæta úr umhverfismatinu. Hefur síðan verið unnið að viðbót við umhverfismatið þar sem framkvæmd er umrædd valkostagreining.

Var í þeirri greiningu tekið fyrir landeldi, eldi með ófrjóum lax, aðrar eldisaðferðir – regnbogasilungur og lokaðar eldiskvíar. Er það niðurstaða fyrirtækisins í viðbótarskýrslunni að umræddir aðrir kostir séu ekki fýsilegir hver þeirra af  tilgreinum ástæðum. Ennig var farið fram á breytingu á staðsetningu kvíanna í Tálknafirði og Patreksfirði í ljósi þeirrar reynsla sem komin var frá því umhverfismatið var gert fyrir þremur árum.

Það er álit Skipulagsstofnunar að ástæður fyrirtækisins fyrir því að útiloka aðra valkosti séu málefnalegar og gerir stofnunin ekki athugasemdir við þær.

Ýmsar umsagnir bárust um viðbótarfrummatsskýrsluna frá sveitarfélögum, stofnunum og samtökum sem lagst hafa gegn laxeldi í sjó svo sem landssambandi veiðifélagi, Náttúruverndarsamtökum Íslands og nokkrum veiðiréttarhöfum innan og utan Vestfjarða.

Náttúruverndarsamtök Vestfjarða, sem nýlega voru endurvakin, eru hluti af Náttúruverndarsamtökum Íslands, en þau samtök hafa staðið að nokkrum kærum og málshöfðunum fyrir dómstólum í því skyni að koma fiskeldinu í sjó á Vestfjörðum á kné.

Óttar Yngvason fór með málið fyrir hönd samtakanna og gerði kröfu um að framkvæmdin færi á byrjunarreit  með nýju umhverfismatsferli frá grunni. Því var Skipulagsstofnun ekki sammála og telur að viðbótarfrummatsskýrslan bæti úr þeim annmörkum sem ÚUA taldi vera á umhverfismatinu.

Málið fer núna að fengnu áliti Skipulagsstofnunar til Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar sem veita starfsleyfi og rekstrarleyfi. Umhverfisstofnun mun auglýsa umhverfismatið og gefa kost á athugasemdum. Vænta má niðurstöðu um leyfisveitingarnar eftir  um það bil 2 – 3 mánuði.

Auglýsing

Nýjustu fréttir