Vegagerð um Gufudalssveit – Óskiljanlegar tafir

Teitur Björn Einarsson, alþm.

Nýlega auglýsti Vegagerðin útboð fyrir næsta áfanga Vestfjarðarvegar um Gufudalssveit, sem er undirbúningur fyrir brúarsmíði yfir Gufufjörð og Djúpafjörð. Það er eitt og sér jákvætt að verkið þokist áfram. En ef málið er skoðað heildstætt og rýnt í fyrri áætlanir og forsendur er með öllu óskiljanlegt að búið er að fresta verklokum um heil þrjú ár. Í gildandi samgönguáætlun 2020-2024 er kveðið á um verklok árið 2024. Samkvæmt tilkynningu Vegagerðarinnar er nú miðað við verklok árið 2027 með vísan til draga að samgönguáætlun 2024-2038.

Í vor lagði ég fyrirspurn fyrir samgönguráðherra og spurði út í útboð og næstu skref í Gufudalssveit. Í svari ráðherra er rakið að framkvæmdir í Gufudalssveit hófust haustið 2020 með endurbótum á veginum frá Gufudalsá að Skálanesi og lauk þeim árið 2021. Árið 2021 voru svo boðnir út tveir verkáfangar, annars vegar þverun Þorskafjarðar frá Kinnarstöðum að Þórisstöðum, og hins vegar Djúpadalsvegur. Verklok við þverun Þorskafjarðar eru áætluð í júní 2024 samkvæmt verksamningi. Í upphafi árs 2022 var boðinn út 10,4 km kafli frá Þórisstöðum að Hallsteinsnesi og eru áætluð verklok í október 2023.

Fjármögnun var tryggð

Nú er sem sagt eingöngu verið að bjóða út undirbúning fyrir brúarsmíði. Í svari ráðherra er tiltekið að áætlað er að útboð fyrir sjálfa brúarsmíðina verði árið 2024 og verklok árið 2027 eins og fyrr segir. Óútskýrt er með öllu af hverju þverun fjarðanna er ekki boðin út í heilu lagi og reynt að standa við fyrri áætlanir en hingað til hafa yfirvöld og ráðherra kynnt að verktími í Gufudalssveit yrði þrjú ár frá því að hafist væri handa. Málið verður enn sérkennilegra í ljósi þess að um mitt sumar 2021 tilkynnti samgönguráðherra að fjármögnun framkvæmda við Gufudalssveit væru tryggðar. Það hefur ekki gengið eftir.

Tafir á tafir ofan

Staðan er því sú að afar brýn vegaframkvæmd sem hófst árið 2020 á nú að ljúka árið 2027 samkvæmt nýju uppleggi samgönguráðherra í stað 2024. Hér ber að geta þess að þverun Þorskafjarðar var kippt fram fyrir aðra verkáfanga vegna tafa (það hefur verið mikið um tafir) sem urðu á útgáfu framkvæmdaleyfis og samninga við landeigendur á svæði Teigsskógs.

En það skýrir á engan hátt eða réttlætir að heildarframkvæmdartími við vegaðgerð frá Þórisstöðum að Skálanesi tefjist um þrjú ár eftir að verkið gat loksins hafist. Óþarfi er að rekja grátlega forsögu málsins í hartnær tvo áratugi fram til ársins 2020. Ónýtir malarvegir og fjallvegir um hálsana tvo eru vandamálið og ákall Vestfirðinga um úrbætur hefur í áratugi snúist um þann vegakafla sérstaklega.

Samgönguráðherra mun á næstunni kynna og mæla fyrir á Alþingi samgönguáætlun 2024-2038 og fimm ára aðgerðaráætlun 2024-2028 því samfara. Ljóst er að áfram verður þörf á því að halda ráðherra og samgönguyfirvöldum við efnið og þrýsta á um að staðið verði við gefin fyrirheit og verklokum í Gufudalssveit verði flýtt eins og hægt er.

Teitur Björn Einarsson,

þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

DEILA