Skúli Halldórsson – 110 ára minning – 28. apríl 1914 – 28. apríl 2024

Skúli Halldórsson, tónskáld, var fæddur á Flateyri við Önundarfjörð þann 28. apríl 1914.
.
Faðir hans var Halldór Georg Stefánsson f. 1884 – d. 1948, sem var fyrsti héraðslæknirinn á Flateyri og sat frá 1. júlí 1910 til 1923. Halldór átti létt með nám og útskrifaðist sem læknir 22 ára, yngstur kandidata til þess tíma.
.
Móðir Skúla var Unnur Skúladóttir Thoroddsen f. 1885 – d. 1970. Unnur fæddist á Ísafirði þar sem faðir hennar var sýslumaður 1884-1892. Skúli Thoroddsen varð sýslumaður Ísfirðinga aðeins 25 ára en hann var settur af sem sýslumaður 1892 eftir miklar deilur í hinum svokölluðu ”Skúlamálum” – Upphaf þeirra mála var mannslát á Klofningsheiði í Önundarfirði 21. des. 1891, svonefnd “Skurðsmál”. Skúli Thoroddsen var þingmaður Ísfirðinga 1892-1916 og bjó á Ísafirði til 1901 en síðan á Bessastöðum til 1908 og eftir það í Reykjavík. Kona Skúla Thoroddsen og amma Skúla Halldórssonar var Theodóra Thoroddsen skáldkona og kvenskörungur.
.
Unnur móðir Skúla Halldórssonar var listakona og mjög músíkölsk og nam píanóleik í Skotlandi enda byrjaði Skúli snemma píanónám hjá móður sinni. Hún tók virkan þátt í tónlistarlífinu á Flateyri og bjó fjölskyldan á Grundarstíg 9. Eina systur átti Skúli, Önnu Margréti f. 30. okt. 1911 d. 1973.
.
Fjölskyldan býr á Flateyri 1910-1923, síðan á Ísafirði 1923-1928 og eftir það í Reykjavík þar sem Skúli stundar m.a. píanó- og tónlistarnám hjá Páli Ísólfssyni.
.
Skúli Halldórsson tekur Verslunarskólapróf og hefur störf hjá Strætisvögnum Reykjavíkur 1934 og starfar þar óslitið í 51 ár lengst af sem skrifstofustjóri og lengi þar við hlið Eiríks Ásgeirssonar forstjóra frá Flateyri. Skúli hafði píanó á kontornum með sérstöku leyfi borgarstjóra til þess að geta leikið á er andinn færðist yfir tónskáldið.
.
Eftir Skúla Halldórsson liggja mörg tónverk; bæði sönglög og stærri verk og hafa komið út hljómplötur og geisladiskar með verkum hans. Þekktustu lög Skúla eru eflaust Smaladrengurinn, Smalastúlkan, Hlíðin mín fríða og Linda.
.
Skúli kvænist Steinunni Magnúsdóttur frá Nýlendu, Miðnesi, Hvalsnesi, 1937 og eignast þau tvö börn; Magnús, arkitekt, f. 1937 og Unni, fiskifræðing, f. 1939. Steinunn lést 13. okt. 1997.

Skúli og Steinunn bjuggu alla tíð að Bakkastíg 1 í Reykjavík.

Skúli Halldórsson lést þann 23. júlí 2004.

Árið 1992 kom út ævisaga Skúla Halldórssonar “Lífsins dóminó” skráð af Súgfirðningnum Örnólfi Árnasyni

23. apríl 1994 hélt Önfirðingafélagið í Reykjavík Skúla Halldórssyni glæsilega afmælistónleika við húsfylli í Íslensku Óperunni til heiðurs honum áttræðum. Komu þar fram margir af bestu tónlistarmönnum á Íslandi og kynnir var Önfirðingurinn Kristín Á. Ólafsdóttir.
Heiðursgestur var frú Vigdís Finnbogadóttir þáverandi forseti Íslands sem á sínar rætur að Holti í Önundarfirði.

Björn Ingi Bjarnason

Skúli Halldórsson, Vigdís Finnbogadóttir og Björn Ingi Bjarnason.

Skúli Halldórsson hylltur á tónleikunum.

Kynnir var Kristín Á. Ólafsdóttir frá Mosvöllum.

Myndir: Björn Ingi Bjarnason.

DEILA