Ísafjörður: Vesturafl og Fjölsmiðjan vilja hærra framlag bæjarins

Vesturafl og Fjölsmiðjan á Ísafirði hafa sent Ísafjarðarbæ erindi þar sem óskað er eftir hækkun á framlagi sveitarfélagsins til starfsemi samtakanna en bærinn hefur verið einn helsti styrktaraðili beggja. Í erindinu kemur fram að „framlag styrktaraðila hefur ekki breyst í takti við launaþróun og því hefur skapast skekkja sem eykst á hverju ári. Árið 2018 nægði framlag Ísafjarðbæjar til að dekka laun forstöðumanns (laun og launatengd gjöld) en í dag er framlagið einungis um 85% af launum forstöðumanns. Laun forstöðumanns Vesturfls og Fjölsmiðjunnar teljast of lág miðað við það sem gengur og gerist á vinnumarkaði í dag. Þetta gerir það að verkum að allir starfsmenn staðarins eru of lágt launaðir og við því þarf að bregðast.“

Tekist hafi hingað til að fá gott fólk í vinnu en nú er ekki víst að takist að halda því vegna þess að ekki er
hægt að greiða þeim laun í takt við ábyrgð og starf þeirra. Þjónusta beggja sé sveitarfélaginu mikilvæg og því er óskað eftir viðræðum um framlag Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráðið tók jákvætt í erindið og vísaði því til umsagnar í velferðarnefnd, s.s. með því að endurskoða samning við Vesturafl og fól bæjarstjóra að kanna mögulega aðkomu annarra sveitarfélaga til samstarfs.

DEILA