Samgönguráðherra: fjármögnun tryggð

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir að fjármögun framkvæmda í Gufudalssveit sé tryggð í fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020-2024.

Áætlunin var samþykkt á Alþingi 29. júní 2020. Samkvæmt henni er varið 7,2 milljörðum króna til þess að gera 25,8 km veg um Gufudalssveit. Í fyrra 2020, voru 1.500 m.kr. til verksins og 2.700 m.kr. í ár. Samtals eru þegar til reiðu 4,2 milljarðar króna. Á næsta ári eru 700 m.kr. og árið 2023 eru merktar 2.300 m.kr. til þess. Samtals gera þetta 7,2 milljarðar króna.

Í fjárlögum er ekki ákveðin fjárveiting til einstakra verkefna heldur er ein fjárhæð sem svarar til verkefna sem Alþingi hefur ákveðið í samgönguáætlun. Fram kemur í umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga og Vestfjarðastofu um fjárlög yfirstandandi árs 2021, sem dags. er 22. október 2020, að

„Frumvarpið tryggir fjármögnun framkvæmda samkvæmt samgönguáætlun 2020-2024 s.s. á Vestfjarðavegi 60, Gufudalssveit og Dynjandisheiði og eru í takti við langþráða opnun Dýrafjarðargangna nú í október á þessu ári.“

Sigurður Ingi Jóhannsson segir aðspurður í viðtali við Bæjarins besta að fjárveitingar á fjárlögum til samgönguframkvæmda muni fylgja því sem ákveðið er í Samgönguáætlun 2020-2024 fyrir næstu ár 2022 og 2023 og því sé fjármögnun framkvæmda í Gufudalssveit tryggð. Samgönguráðherra sagðist vera mjög ánægður með að samningar hafi tekist við eigendur Grafar og að málið væri nú í höfn. Vegalengdin um Vestfjarðaveg 60 hefði styst um 27 km með Dýrafjarðargöngum og myndu styttast um 22 km til viðbótar með nýjum veg um Gufudalssveit. Hann bætti því að næst færu fram nauðsynlegar rannsóknir og annar undirbúningur og að útboð fari fram í vetur.

DEILA