Við Djúpið: söngur og píanó í Edinborg kl. 20 í kvöld

Frá tónleikunum 17. júní í Hömrum.

Tónlistarhátíðin Við Djúpið heldur áfram eftir tvo vel heppnaða daga um helgina. Í hádeginu voru tónleikar í Bryggjusal Edinborgarhússins. David Kaplan lék tvö af öndvegisverkum píanóbókmenntanna, Fantasíu Mozarts í c-moll (K. 475) og Tunglskinssónötu Beethovens. Þriðja verkið á tónleikunum var Ballade eftir finnska tónskáldið Kaiju Saariaho sem lést fyrr í mánuðinum. Ballade er samið árið 2005, stutt en áhrifamikið verk þar sem tónskáldið lætur laglínu birtast út úr þéttum tónvefnaði og hverfa inn í hann aftur.

Í kvöld eru norræn sönglög í öndvegi. Hér hljóma þekkt lög eftir Jórunni Viðar, Jón Leifs, Edvard Grieg og Jean Sibelius en við fáum einnig að heyra lög eftir annan flytjandann, bandaríska tónskáldið og píanóleikarann Evan Fein, samin við íslensk ljóð, og alveg nýtt verk eftir Halldór Smárason, Fjallkonuljóð, sem er samið við samnefnt ljóð Lindu Vilhjálmsdóttur frá árinu 2018.

DEILA