Merkir Íslendingar – Karl Geirmundsson

Karl Geirmundsson fæddist á Atlastöðum í Fljótavík í Sléttuhreppi þann 13. mars 1939.

Foreldrar hans voru Guðmunda Regína Sigurðardóttir, f. 1904, d. 1994, og Geirmundur Júlíusson, f. 1908, d. 1996.

Systkini Karls eru:

Halldór, f. 1930, d. 2014, Júlíus Gunnar, f. 1931, d. 2021, Geir Sigurlíni, f. 1932, Helgi, f. 1934, d. 2005, Ásthildur, f. 1936 og Baldur, f. 1937.

Karl kvæntist þann 24.12. 1965 Rannveigu Hjaltadóttur frá Dalvík, f. 23.9. 1942, d. 21.10. 2013.

Foreldrar Rannveigar voru Hjalti Þorsteinsson, f. 1914, d. 1995, og Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir, f. 1917, d. 1996.

Börn Rannveigar og Karls eru:

1) Hjalti, f. 23.7. 1965, giftur Sigríði Láru Gunnlaugsdóttur, f. 20.4. 1967. Börn þeirra eru: a) Rannveig, sambýlismaður Axel Sveinsson, b) Friðrik Þórir, sambýliskona Dagmar Pálsdóttir, c) Davíð, unnusta Hildur Karen Jónsdóttir.

2) Rúnar Óli, f. 3.4. 1972, giftur Nanný Örnu Guðmundsdóttur, f. 10.8. 1970. Börn þeirra eru: a) Örvar Dóri, sambýliskona Svava Guðmundsdóttir og eiga þau tvær dætur, b) Regína Sif, sambýlismaður Alexander Hermannsson, c) Kolfinna Íris, sambýlismaður Egill Bjarni Gíslason.

3) Smári, f. 2.4. 1976, giftur Sigríði Gísladóttur, f. 24.8. 1981. Synir þeirra eru: a) Karl Gísli, b) Símon.

Karl ólst upp til sex ára aldurs í Fljótavík er fjölskyldan flutti að Látrum í Aðalvík. Eftir eitt ár á Látrum fluttist fjölskyldan til Hnífsdals.

Að lokinni hefðbundinni skólagöngu í Hnífsdal sinnti Karl margskonar störfum, en rauður þráður í starfsferli hans var tónlistin. Á unglingsaldri hófu Karl og Baldur bróðir hans að spila fyrir dansi og gerðu það um áratugaskeið undir merkjum BG flokksins og þekktasta útgáfa hljómsveitarinnar var BG og Ingibjörg.

Karl og Rannveig bjuggu allan sinn búskap á Ísafirði. Eftir andlát Rannveigar fluttist Karl á Hlíf – íbúðir fyrir aldraða, og síðustu fimm árin bjó hann á hjúkrunarheimilinu Eyri.

Ásamt tónlistinni var hestamennskan líf og yndi Karls og var hann einn af máttarstólpum hestamennskunnar á Ísafirði.

Karl Geirmundsson lést á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði þann  29. janúar 2023.

Karl var jarðsunginn frá Ísafjarðarkirkju þann 11. febrúar 2023

Þegar Karl Geirmundsson varð 75 ára sagði hann m.a. í afmæligrein í Morgunblaðinu.

„Ég byrjaði að leika á trommur með Baldri bróður og Karli heitnum Einarssyni. Hljómsveitin hét KBK en þeir léku báðir á harmónikku. Síðan bættist í hópinn. Ég fór að leika á gítar og síðan verður þetta hljómsveitin BG og Ingibjörg. Við lékum fyrir dansi í áratugi, víða um land en þó einkum á Vestfjörðum.“

– Þið gáfuð út plötur, ekki satt?

„Jú við sendum frá okkur fjórar litlar plötur sem SG Hljómplötur gáfu út og eina stóra plötu, Sólskinsdag, sem var tekin upp í Hafnarfirði og Steinar Berg gaf út á sínum tíma. Þessu var bara ágætlega tekið. Sum þessara laga urðu býsna vinsæl og gengu í útvarpinu mánuðum og árum saman. Maður heyrir jafnvel enn sum þeirra spiluð, s.s. lögin Góða ferð og Þín innsta þrá.“

DEILA