Eftirlit Fiskistofu er veikburða og ófullnægjandi

Niðurstöður Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu eru alvarlegur áfellisdómur yfir eftirliti með nýtingu fiskistofnanna. Þetta má lesa úr niðurstöðuorðum í skýrslu embættisins um eftirlitshlutverk Fiskistofu, en hún var unnin fyrir Alþingi.

Í niðurstöðum segir Ríkisendurskoðandi:

Eftirlit Fiskistofu með vigtun sjávarafla, hvort heldur sem er á hafnarvog eða hjá
aðilum sem hafa leyfi til endur- eða heimavigtunar, er ófullnægjandi og efast
má um að það skili tilætluðum árangri.

Eftirlit stofnunarinnar með brottkasti er veikburða og ómarkvisst.
Raunverulegur árangur þess er auk þess á huldu þar sem hvorki liggja fyrir skýr
árangursmarkmið eða árangursmælikvarðar.

Ekki verður séð að Fiskistofa kanni hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir
aflahlutdeildum sé í samræmi við það hámark sem er skilgreint í lögum nr.
116/2006 um stjórn fiskveiða. Ráðast þarf í endurskoðun á 13. og 14. gr.
laganna svo reglur um hámarksaflahlutdeild séu skýrar.

Grípa þarf til markvissra ráðstafana til að tryggja skilvirkt og árangursríkt eftirlit
sem er í samræmi við forsendur og ákvarðanir Alþingis um að nytjastofnar
sjávar séu nýttir með sjálfbærum hætti.

Um vigtunina segir nánar í skýrslu Ríkisendurskoðunar:

Á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem Ríkisendurskoðun aflaði er ljóst að eftirlit Fiskistofu með vigtun sjávarafla, hvort heldur sem er á hafnarvog eða hjá aðilum sem hafa leyfi til endur- eða heimavigtunar, er takmarkað og efast má um að það skili tilætluðum árangri. Núverandi fyrirkomulag vigtunar leyfir í raun umtalsverð frávik í skráningu heildarmagns á sama tíma og Fiskistofa hefur ekki sinnt skilvirku eftirliti. Að mati ríkisendurskoðanda þarf að grípa til markvissra ráðstafana til að bæta úr þessu og tryggja skilvirkt og árangursríkt eftirlit með vigtun og skráningu sjávarafla.

Um brottkastið segir Ríkisendurskoðandi að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti telur að
brottkast sé óverulegt innan íslenska fiskveiðiflotans. Þetta mat ráðuneytisins fær þessa umsögn Ríkisendurskoðanda:

Ríkisendurskoðandi bendir á að Hafrannsóknastofnun hefur ekki ráðist í neinar
rannsóknir á tegundaháðu brottkasti í rúman áratug auk þess sem gagnasöfnun um lengdarháð brottkast hefur dregist talsvert saman undanfarin ár. Í ljósi þessa og að eftirlit með brottkasti er afar takmarkað, veikburða og ómarkvisst er ekki tilefni til fullyrðinga um umfang þess. 

Í stuttu máli segir Ríkisendurskoðandi að ráðuneytið hafi engin rök fyrir því að telja brottkast óverulegt.

Niðurstaðan er að lögin þurfi að vera skýrari og starfsmenn Fiskistofu fleiri annars „er ljóst að eftirlit með nýtingu auðlinda hafsins og samþjöppun aflaheimilda verður áfram veikburða, óskilvirkt og ekki í samræmi við forsendur og ákvarðanir Alþingis.“

 

 

DEILA