Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 1830

Héraðsdómur Reykjavíkur: vísar frá kröfu um ógildingu laxeldisleyfa

Kristín Edwald, lögmaður.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur með dómi síðastliðinn föstudag vísað frá kröfu um ógildu starfs- og rekstrarleyfa Arnarlax til laxeldis í sjó í Arnarfirði. Kærendur voru  fyrirtækin Akurholt og Geiteyri, sem eru veiðiréttarhafar í Haffjarðará. Þau voru ekki talin eiga lögvarða hagsmuni þar sem fyrirtækin eru  utan áhrifasvæðis fiskeldisins. Auk Arnarlax voru kærðir leyfisveitendurnir Matvælastofnun og Umhverfisstofnun. Kærendur voru dæmdir til þess að greiða allan lögmannskostnað Arnarlax og stofnananna.

– Í niðurstöðu héraðsdóms kom fram að kröfur veiðiréttarhafanna miðuðu að því að fá dóm sem legði bann við að laxeldi í sjókvíum væri stundað á Íslandi. Vísaði dómurinn til þess að löggjafinn og stjórnvöld hefðu um áratugaskeið tekið með í reikninginn áhrif fiskeldis á náttúrulega laxastofna í veiðiám á Íslandi, við ákvarðanatöku um hvort og á hvern hátt og í hversu miklum mæli fiskeldi skyldi heimilað, segir Kristín Edwald, hæstaréttarlögmaður og einn af eigendum LEX lögmannsstofu, sem flutti málið fyrir hönd Arnarlax.

– Þessu til viðbótar kom fram í dóminum að óumdeilt væri að staðbundin umhverfisáhrif starfsemi Arnarlax næðu ekki til þess hafsvæðis þar sem Haffjarðará rynni til sjávar. Niðurstaða dómsins er því sú að veiðiréttarhafarnir hafi ekki orðið fyrir tjóni af starfsemi Arnarlax og að þeir hafi ekki sýnt fram á að starfsemin skapaði hagsmunum þeirra sérstaka hættu. Þeir hafi því ekki lögvarða hagsmuni af að fá dóm um kröfur sínar, segir Kristín Edwald.
– Arnarlax hefur frá árinu 2009 farið í gegnum flóknar leyfisveitingar sem hafa m.a. farið í gegnum hefðbundið ferli hjá Skipulagsstofnun, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun þar sem sömu eða sambærilegir hagsmunaaðilar hafa komið á framfæri sínum sjónarmiðum og látið reyna á gildi leyfisveitinganna m.a. fyrir úrskurðarnefndum. Til viðbótar því að hafa þurft að greiða sinn eigin lögmannskostnað þurfa veiðiréttarhafarnir einnig að greiða lögmannskostnað Arnarlax, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar, segir Kristín.

Veiðiréttarhafarnir hafa tvær vikur frá uppkvaðningu úrskurðarins til þess að kæra umrædda niðurstöðu til Landsréttar.

Þetta er annar dómurinn á stuttum tíma sem fjallar um ógildingu rekstrarleyfis. Þann 12. desember 2018 sýknaði Héraðsdómur Reykjaness Matvælastofnun og fyrirtækið Laxar fiskeldi ehf af kröfu N2 málsóknarfélags. Í því máli var kærandi talinn eiga aðild að málinu og krafan tekin til efnislegrar meðferðar. Héraðsdómur Reykjaness hafnaði kröfunni í öllum atriðum, meðal annars þeim að eldið myndi valda verulegum og óafturkræfum skaða á öllum villtum laxastofnum í öllum ám Austfjarða,  og sýknaði hina ákærðu í málinu.

Auglýsing

Reykhólarhreppur: ákvörðun í dag

Hreppsnefnd Reykhólahrepps tekur í dag ákvörðun um veglínu fyrir Vestfjarðaveg 60. Boðað hefur verið til aukafundar í dag kl 14. Í gær hittu forsvarsmenn Reykhólahrepps Samgönguráðherra. Fyrir liggur tillaga frá skipulagsnefnd um að setja R leiðina inn á aðalskipulag. Að tillögunni standa tveir sveitarstjórnarmenn, oddvitinn Ingimar Ingimarsson og fomaður skipulagsnefndar Karl Kristjánsson.

Auk þeirra eru þrír til viðbótar í sveitarstjórnni. Bæjarins besta sendi fyrirspurn til þeirra og spurðist fyrir um afstöðu þeirra til málsins.  Jóhanna Ösp Einarsdóttir sagðist mundu gefa út afstöðu sína á fundinum í dag.  Þær Árný Huld Haraldsdóttir, varaoddviti og Embla Dögg B. Jóhannsdóttir hafa ekki svarað fyrirspurninni.

Þá gengu einnig í gær á fund Samgönguráðherra fulltrúar Vesturbyggðar og afhentu ráðherranum minnisblað um Vestfjarðaveg 60. Þar eru rakin nokkur atriði varðandi vegagerðina,  meðal annars að undirbúningur fyrir vegalagningu um Vestfjarðaveg hafi hafist í júlí 2003 þegar Vegagerðin lagði fram drög að tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar milli Bjarkalundar og Eyrar.

101 slys

Einnig kemur fram að á árunum 2009-2016 hafi verið skráð 101 slys á Vestfjarðavegi, þar af hafa 30 valdið slysum á fólki.
Að auki er mikið eignartjón fyrirtækja og íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum og ekki allt skráð í opinberum gögnum.

Auglýsing

Dýrafjarðargöng – verkframvinda vika 3, 2019

Vinna við Dýrafjarðargöng hefur gengið mjög vel í vikunni.  Nú er grafið í gegnum stórstuðlað basaltlag, þannig að sama lagið hefur verið á stafninum alla vikuna. Jarfræðilega séð hefur það verið tíðindalítið og framvindan eftir því góð. Verkstaða í lok vikunnar er því þannig að lengd ganganna Dýrafjarðarmegin er orðin 602,1 m, vikuframvindan var 82,4 m. Samanlögð lengd ganga er  nú 4.259,7 m sem er um 80,4% af heildarlengd. Lengd að gegnumbroti er nú 1.041,3 m, þannig að ef fram heldur sem horfir verður innan við 1 km eftir í lok vikunar sem nú er að hefjast.

Auglýsing

ÖBÍ: Tekjuviðmið útiloka fólk frá félagslegu húsnæði

Þarna er Reykjavíkurborg að útiloka fatlað fólk, öryrkja og sjúklinga, sem eru sá hópur sem sækir helst um félagslegt húsnæði,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.

Tilefni ummælanna er nýtt álit ÖBÍ um drög að nýjum reglum Reykjavíkurborgar um úthlutun félagslegs húsnæðis.

Þuríður segir að til standi að funda með Reykjavíkurborg um málið, því ekki verði annað séð en að verði reglurnar innleiddar svona, sé verið að brjóta lög.

Í umsögn ÖBI um reglurnar segir „Tekjumörkin samkvæmt drögunum sem hér eru til umsagnar eru enn lægri eða 3.680.475 kr. sem myndi gera að verkum að rorkulífeyrisþegar með engar aðrar tekjur en lífeyri almannatrygginga eru yfir tekjumörkum fyrir félagslegt leiguhúsnæði.“  þetta er hópur sem er í bráðum húsnæðisvanda, sem hefur aukist hin síðustu ár.

 

 

Auglýsing

Vilja meiri fisk seldan á markaði : 30% – 70% verðmunur

Arnar Atlason, formaður SFÚ.

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda áttu í síðustu viku fund með fulltrúum Fiskmarkaðs Suðurnesja, Fiskmarkaðs Íslands, Fiskmarkaðs Vestfjarða, Fiskmarkaðs Norðurlands og Reiknistofu Fiskmarkaða. Málefni fiskmarkaða landsins voru rædd og mikilvægi þeirra fyrir aukna verðmætasköpun í sjávarútvegi.

Fundarmenn voru sammála um að skora á stjórnvöld að tryggja að allur sá afli sem ekki kemur til vinnslu hjá samþættum útgerðar- og vinnslufyrirtækjum, þ.e. afli sem er seldur á milli ótengdra aðila, verði boðinn til sölu í uppboðskerfi fiskmarkaðanna. Fundurinn telur að með þessu móti megi tryggja að hæsta verð fáist fyrir þennan hluta auðlindarinnar, að sjálfstæðar fiskvinnslur hafi greiðan aðgang að hráefni og þjóðarhagur sé þar með hámarkaður.

Arnar Atlason, formaður SFÚ, sagði samtali við Bæjarins besta að lengi hefði verið við lýði tvöföld verðmyndun á fiski sem þýddi að útgerðin fengi viðvarandi afslátt á launum sjómanna. Í beinum viðskiptum er að jafnaði miðað við verð frá Verðlagsstofu skiptaverðs. Það er, segir Arnór , verulega lægra en það verð sem fæst á fiskmarkaði. Munurinn er frá 30% – 70% sé miðað við stöplarit sem birt er á heimasíðu samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda. „Af þeim sökum verður þjóðin af umtalsverðum tekjum“  segir Arnór og bætir við að stærstu útgerðir landsins ættu ekki að þurfa þennan afslátt.“ Látum markaðsöflin ráða verði á fiski og hámörkum þannig arðinn af auðlindinni.“ Arnór Atlason rekur fiskvinnslufyrirtækið Tor ehf, sem er kvótalaust fiskvinnslufyrirtæki,  og hefur gert síðan 1995.

 

Í hverjum mánuði birtir Sea Data Center seadatacenter.com samanburð á meðalverði hvers mánaðar frá Reiknistofu fiskmarkaða og viðmiðunarverð Verðlagsstofu skiptaverð fyrir óslægðum þorski af meðalstærð 2.0-3.5 kg. Breyting á viðmiðunarverði tók gildi þann 7. janúar 2019.

Samanburður á verði síðustu 15 mánaða má sjá í myndinni hér að neðan þar sem meðalverð frá Verðlagstofu skiptaverð er með svartri línu og meðalverð Reiknistofu fiskmarkaða með appelsínugulri línu. Grafið hér að neðan hefur verið uppfært miðað við tímabilið 1. til 14. janúar 2019.

Auglýsing

Landvernd deilir á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands

Laandvernd hefur sent frá sér fréttatilkynningu og mótmælir harðlega málflutningi sem fram kemur í  nýrri  skýrslu  Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um hvalveiðar. 

„Í fyrsta lagi eru þær forsendur sem skýrsluhöfundur gefur sér í útreikningum sínum af vistfræðilegum toga og þar með langt utan hans fagsviðs. Margir vistfræðingar telja þessar forsendur úreltar. 

Í öðru lagi er fráleitt að spyrða saman náttúruverndarsamtök og hryðjuverk almennt og ekki síst í „faglegri“ skýrslu sem fjallar um hvalveiðar, hvað þá að hvetja til lagasetningar um hryðjuverk í samhengi við baráttu fyrir verndun umhverfisins. Raunveruleg hryðjuverk beinast að því að drepa almenna borgara í þágu tiltekins málstaðar. Barátta náttúruverndarsamtaka er friðsamleg. 

Í þriðja lagi er sú ógn sem að okkur steðjar vegna rányrkju manna raunveruleg og þessi ógn kristallast í baráttu náttúruverndarsamtaka fyrir verndun hvala.  

Stjórn Landverndar skorar á Hagfræðistofnun til að draga skýrsluna til baka og vinna hana upp á nýtt í samráði við vistfræðinga.“

Auglýsing

Bent á vegaleið í Reykhólasveit

Gunnbjörn Óli Jóhannsson, Reykhólum.

Hvaða leið sem verður valin, verður samt að lagfæra Reykhólaafleggjarann á núverandi vegstæði eftir Barmahlíð að byggðinni á Reykhólum enda vegurinn fallinn á prófinu nú þegar.

 

Það talar enginn um veginn sem liggur áfram út Reykjanesið með fram eða í gegnum lönd þeirra bæja sem eru þar á leiðinni samtals 8 bæir i byggð. Heldur fólk að sá vegur standist öryggiskröfur i dag?

Þar fer um mjólkurbíll, póstur, akstur skólabarna og annarra íbúa á bæjunum, sem vinna að hluta til á Reykhólum.

Það er nefnilega þannig að bændur og búalið vinna mikið utan heimilis almennt í dag og sækja vinnu á Reykhólum bæði af Reykjanesinu og innan úr sveit, hjá t.d Þörungaverksmjunni, í Saltinu, Dvalarheimilinu og skólanum, þannig að vegirnir þurfa að standast kröfur og vera vel þjónustaðir svo allt gangi upp.

 

Umferðin í dag vestur á núverandi vegi er fyrst og fremst umferð ferðamanna innlendra sem erlendra ásamt íbúum Vesturbyggðar og Tálknafjarðar, ekki flutningabíla eins og sumir sumarhúsa-jarðareigendur hafa haldið fram.

Enda eru flestir þjónustuaðilar á leiðinni  búnir að bæta aðstöðuna hjá sér undanfarin ár, eins og t.d Hótel Flókalundur að stækka um 12 herbergi, úr 15 í 27 núna í vetur/vor. Væntanlega er það gert til að hýsa ferðamenn en ekki flutningabílstjóra, því ef það hefur farið framhjá einhverjum hefur verið gríðarleg aukning á ferðamönnum á svæðinu undanfarin ár. Talið hafa bjargað þjóðinni eftir hrun með gjaldeyri, orðið stærra dæmi i þjóðarbúið en útgerðin með allan sinn kvóta fisk ef það hefur farið framhjá einhverjum.

Leið I, þverun Þorskafjarðar .

 

En hvar á vegurinn að liggja? fyrir 10-15 árum vildu flestir veginn Þ-H um Teigskóg en fengu ekki. Núna eru margir sem vilja veginn hjá Reykhólum og út Reykjanesið, á eða sem næst núverandi veglínu til að koma Reykhólum nær umferðinni væntanlega til að geta þjónustað ferðamenn innlenda sem erlenda ekki bara flutningabíla enda lifir enginn á því svo fáir eru þeir hér um slóðir og hafa ekki haldið vöku fyrir neinum á þessum slóðum frekar en fólkinu á Patreksfirði þar sem vegurinn til Tálknafjarðar og Bíldudals liggur við Patreksjarðarbæ  milli Aðalstrætis og kirkjugarðsinns þar, ef fólk áttar sig ekki á því. Og þá eru farartálmar eftir þar á bæ, vegurinn um Mikladal, Hálfdán og Kleifaheiði. Af hverju hefur ekkert gerst þar, t.d sameina sveitarfélögin þar og þrýsta á betri vegi heima i héraði?

 

Og þá er ótalinn fjallvegurinn yfir Klettháls sem er erfitt er að þjónusta á veturnar enda er það tryggingin fyrir rekstri Baldurs yfir Breiðafjörðinn i Stykkishólm. En ég hef ekki heyrt að nokkur hafi kvartað  yfir umferðinni i Stykkishólmi enda einungis reynt að þjónusta ferðafólkið.

 

En varðandi veginn gegnum Reykhólasveitinna hef ég bent á og skrifað að I leiðin sem liggur sunnanmegin í Þorskafirði  með brú yfir á Hallsteinsnes framhjá Teigsskógi og áfram yfir Djúpafjörð og Gufufjörð á Þ-H leið. Með vegtengingu í Bjarkalund og fyrir Reykjanesið í Reykhóla, Þá er komin hringtenging um Reykjanesið og búið er að fara með leiðina í umhverfismat, hannað og teiknað af Vegagerðinni en örlítið dýrara en Þ-H. Þá geta þeir sem ferðast valið að fá sér veitingar i Bjarkalundi eða Reykhólum sumar sem vetur ef fært er yfir Klettsháls, eða tekið Baldur áfram og fengið sér veitingar i Stykkishólmi.

 

Það þarf enginn að halda það að skipið verði lagt af á meðan Klettháls er ekki lagaður eða boraður, það vitum við sem keyrum eða þjónustum vegina.

 

En kannski eru ljón á veginum á I eins og á ÞH og R?

Það er nefnilega þannig, það vilja allir veg en enginn vill hafa hann.

 

Með kveðju

Gunnbjörn Óli Jóhannsson

 

Auglýsing

Lítil erfðafræðileg áhrif af því að sleppa 40 milljónum laxaseiða

Frá ráðstefnunni í Hofi á Akureyri. Frá vinstri: Þorleifur Ágústsson, Anna G. Edwardsdóttir, Þorleifur Eiríksson og Ragnar Jóhannsson.

Mikil aðsókn var að ráðstefnu um fiskeldi í Eyjafirði, sem haldin var á laugardaginn á Akureyri. Það var Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar sem efndi til raðstefnunnar. Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri atvinnuþróunarfélagsins sagði að aðsókn hefði farið langt fram úr sínum vonum. Gert hafði verið ráð fyrir að um 100 manns myndu sækja ráðstefnuna en all komu um 170 manns og var húsnæðið troðfullt.

Líklega er þetta ein fyrsta ráðstefna af þessu tagi, þar sem fræðimenn koma og gera grein fyrir fiskeldi og áhrifum þess, hver  út frá sinni sérþekkingu. Miðaðist ráðstefnan við að gera grein fyrir mögleikum fiskeldis í Eyjafirði. Heimilt er að stunda fiskeldi í Eyjafirði ásamt svæðum á Vestfjörðum og Austfjörðum, en annars staðar er fiskeldi í sjó bannað.

Flutt voru sjö erindi. Athyglisvert er að þrír fyrirlesarar bjuggu lengi og störfuðu á Vestfjörðum.

Það eru þau Anna G. Edwarsdóttir, Þorleifur Ágústsson og Þorleifur Eiríksson.

Anna fjallaði um áhrif atvinnuppbyggingar á sjálfbærni og seiglu samfélaga. Þorleifur Ágústsson ræddi laxeldi almennt, einkum í Noregi þar sem hann starfar. Kom fram í erindi hans að meira en 1000 leyfi hefðu verið gefin út , ástand villtu laxastofnana væri almennt gott. Laxalúsin væri helsti vandinn þar en Þorleifur sagði að engin birt vísindagrein sýndi fram á að laxalúsin hefði áhrif á villta stofna. Helsti vandi villtu stofnana hefði verið ofveiði í net.  Lagði hann áherslu á að sjókvíaeldi yrði að vera í sátt við íbúana. Kostur hér á landi við laxeldið væri að sjórinn væri kaldari og laxalúsin vex hægar.

Þorleifur Eiríksson ræddi áhrif laxeldis á lífríki fjarðarins, sem væri einkum truflun sem leiddi af nýjum lífmassa í sjónum  og úrgangur frá honum. Rannsóknir hans sýna að úrgangurinn minnkar hratt þegar frá kvíum er farið.

Aðrir sem fluttu erindi voru Steingrímur Jónsson sem fór yfir haffræði og strauma, Stefán Óli Steingrímsson ræddi umhverfismál fiskeldis. Benti Stefán á að eldislaxinn stendur sig verst í náttúrulegu umhverfi og fer þar halloka fyrir villta laxinum. Helstu áhrifaþættir varðandi mögulega blöndum væru stærð stofns villta laxins og magn sleppinga. Lítill stofn og miklar sleppingar þýddu verulega áhættu en stór stofn og litlar sleppingar aftur á móti litla áhættu. Helgi Thorarensen fór yfir valkosi í fiskeldi í Eyjafirði, svo sem landeldi. Þessi þrír eru allir starfandi við Háskólann á Akureyri eða Háskólann á Hólum.

Loks flutti erindi Ragnar Jóhannsson frá Hafrannsóknarstofnun. Ragnar fer með gerð áhættumatslíkansins við stofnunina sem Vestfirðingar þekkja og var vísað til þess þegar Hafrannsóknarstofnunin kom í veg fyrir laxeldi í Djúpinu. Athyglisvert er að Ragnar er menntaður í efnaverkfræði en hvorki í líffræði, erfðafræði né neinu sem tengist fiskeldi.  Hann var sá eini af fyrirlesurunum sem ekki er sérmenntaður í því sem hann flutti fyrirlestur um. Gerði Ragnar grein fyrir áhættu við erfðablöndun og mótvægisaðgerðir.

Fram kom hjá honum í svari við fyrirspurn lítil erfðafræðilega áhrif hefður orðið af hafbeit, en sleppt var um 40 milljónum laxaseiða um áratuga skeið.

 

 

 

 

Auglýsing

Arctic Sea Fram: Bráðabirgðaleyfið kært

Níu aðilar hafa kært útgáfu bráðabirgðarekstrarleyfis dags 5. nóv 2018 til Arctic Sea Farm. Leyfið var gefið út eftir að Alþingi samþykkti sérstök lög svo unnt yrði að starfrækja fiskeldið í Arnarfirði og Tálknafirði meðan að málarekstur færi fram fyrir dómstólum. Var þetta talið nauðsynlegt eftir að úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi rekstrarleyfin úr gildi.  Í kærunni er bæði sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðherra og Arctic Sea Farm stefnt fyrir dómstóla og gerð sú krafa að rekstrarleyfið til bráðabirgða verði fellt úr gildi.

Þeir sem stefna eru:

Ari P. Wendel fyrirsvarsmaður samtakanna Laxinn lifi,

Árni Finnsson, formaður Náttúrurverndarsamtaka Íslands,

Óttar Yngvason, fyrirsvarsmaður Geiteyri ehf og Akurholt ehf, sem eru félög um veiðiréttindi í ám á Vesturlandi,

Guðmundur Halldór Jónsson, fyrirsvarsmaður Varplands ehf, sem á veiðiréttindi í Ísafjarðardjúpi,

Páll A. Jónsson, fyrirsvarsmaður veiðifélags Laxár á Ásum í Húnavatnssýslu,

Víðir Hólm Guðbjartsson, Grænuhlíð, Bíldudal vegna Hringsdals og

Atli Árdal Ólafsson, Selfossi vegna veiðiréttinda í Ísafjarðardjúpi.

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur og hefur dómurinn samþykkt flýtimeðferð málsins. Gera kærendur viðmiklar athugasemdir við bæði form og efni málsins, þar með talið lagasetninguna. Telja kærendur meðal annars að handhafar forsetavalds hafi ekki staðfest lögin með réttum hætti og þau séu því andstæð 26. grein stjórnarskrárinnar og að auki gangi efni laganna gegn 2. grein stjórnarskrárinnar. þá hafi ráðherra verið vanhæfur til þess að skrifa undir bráðabirgðaleyfið og auk þess ekki gætt að því að standa rétt að því.

Fyrir liggur í málinu að ef leyfið verður fellt úr gildi beri opinberum stofnunum að láta loka fyrirtækjunum strax og lóga fiskinum í kvíunum. Málareksturinn snýst því í raun um starfsemi laxeldisfyrirtækjanna.

Auglýsing

Deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun – umsagnir

Runnin er út frestur sem gefinn var til þess að senda inn umsagnir eða gera athugasemdir við deiliskipulag vegna rannsókna sem tengjast Hvalárvirkjun í Árneshreppi. Í deiliskipulagstillögunni er afmörkun tímabundinnar lóðar og byggingarreits fyrir starfsmannabúðir og vinnusvæði. Ennfremur afmörkun og umfang efnistökusvæða, vegir innan svæðisins og tenging við þjóðveg.

Umsagnirnar voru lagðar fram á síðasta fundi hreppsnefndar fyrr í janúar. Átta aðilar gera engar athugasemdir við deiliskipulagsbreytingarnar. Það eru Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, Landsnet, Samgöngustofa, Veðurstofan, Orkustofnun, Vegagerðin, Strandabyggð og Ísafjarðarbær.

Tvær opinberar stofnanir til viðbótar skila inn umsögn og setja fram athugasemdir. Umhverfisstofnun segist hafa hafið undirbúning að friðlýsingu á Drangavíðernum í samstarfi við landeigendur og sveitarfélagið. Bendir stofnunin á að áhrifasvæði virkjunarinnar nái inn á jörðina Dranga, sem sé í friðlýsingarferli, og vill stofnunin að það komi fram í deilskipulagstillögunni.

Náttúrfræðistofnun Íslands sendi inn umsögn eftir að fresti lauk, en fékk samþykkta framlengingu á skilum. Telur stofnunin að ekki eigi að heimila rannsóknirnar á grundvelli rannsóknarleyfis heldur þá fyrst þegar virkjunarleyfi fyrir virkjunina liggi fyrir, ef virkjunin samrýmist þá ákvæðum um friðun svæðisins.  Náttúrufræðistofnun hefur lagt til við Umhverfisráðherra að Drangajökull og svæði út frá honum njóti verndar samkvæmt B hluta náttúruminjaskrár og telur Hvalárvirkjun ekki samýmast þeim áformum.

Þá skiluðu inn umsögn Landvernd ( 62 bls.), ÓFEIG náttúruverndarsamtök ( 22 bls.), landeigendur hlutja Seljaness ( 14 bls.), Rjúkandi og Tómas Guðbjartsson, Reykjavík og leggjast þessair aðilar gegn skipulagsbreytingunum.

Auglýsing

Nýjustu fréttir