Náttúruverndarsamtökin ÓFEIG létu ráðgjafarfyrirtækið Environice vinna fyrir sig í desember 2018 og janúar 2019 skýrslu áhrif hugsanlegrar friðlýsingar víðerna við Drangajökul (Drangajökulsvíðerna) á umhverfi og samfélag á svæðinu og í næsta nágrenni þess, einkum í Árneshreppi. Tilgangurinn með skýrslunni, segir í fréttatilkynningu frá ÓFEIG er að bera saman áhrif friðlýsingar annars vegar og fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar hins vegar, auk þess að fjalla um svonefndan núllkost, þ.e.a.s. það ástand sem þróast myndi ef hvorki kæmi til friðlýsingar né virkjunarframkvæmda. Skýrslunni er ætlað að vera þar til bærum stjórnvöldum til aðstoðar við mikilvæga ákvarðanatöku um framtíð svæðisins.
Meginniðurstaða skýrslunnar er sú að friðlýsing Drangajökulsvíðerna sé til þess fallin að skapa ný atvinnutækifæri á svæðinu til langs tíma, bæði í ferðaþjónustu, opinberri þjónustu og í afleiddum greinum, og stuðla þar með að eflingu byggðar. Jafnframt myndi friðlýsing koma í veg fyrir óafturkræfa röskun á landslagi og víðernum, menningarminjum o.fl. Áhrif friðlýsingar á einstaka þætti umhverfis og samfélags voru í öllum tilvikum metin jákvæðari eða minna neikvæð en áhrif fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar á sömu þætti.
Skýrslan byggir ekki á mælingum á stöðu mála eða áhrifum, heldur á mati sem byggt er á fyrirliggjandi upplýsingum.
Víðernin sem skýrslan fjallar um eru samtals um 1.190 km2 að flatarmáli og ná allt frá Steingrímsfjarðarheiði í suðri að mörkum Hornstrandafriðlandsins í norðri. Lagt er til að allt þetta svæði verði friðlýst sem óbyggð víðerni skv. 46. gr. náttúruverndarlaga, þ.e. sem stórt landsvæði „þar sem ummerkja mannsins gætir lítið sem ekkert og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum umsvifum“. Friðlýsing miðar að því að „varðveita einkenni svæðisins, t.d. að viðhalda fjölbreyttu og óvenjulegu landslagi, víðsýni og/eða vernda heildstæð stór vistkerfi, og tryggja að núlifandi og komandi kynslóðir geti notið þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja”.
Þá segir í fréttatilkynningunni að friðlýsing og virkjun geta ekki farið saman. „Með virkjunarframkvæmdunum mætti auka tekjur sveitarfélagsins verulega til skamms tíma, en um leið væri mikilvægum hluta af aðdráttarafli svæðisins eytt til frambúðar og lokað á þá möguleika til atvinnuuppbyggingar til langs tíma sem felast í þessu aðdráttarafli.“
Skýrslunni er ætlað að stuðla að upplýstri umræðu. Mun völdum aðilum verða veitt tækifæri á að rýna skýrsluna á næstu dögum og vikum. Almenningi verður að því loknu veittur aðgangur að henni.