Viðtalið: Daníel Jakobsson

Daníel Jakobsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish.

Þennan föstudag tókum við tali Daníel Jakobsson fyrrverandi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Okkur langaði að vita hvað hann er að bralla í dag og fá að vita aðeins meira um hann og hans áhugamál.

Í dag er ég að vinna á skrifstofunni hjá Arctic Fish. Við í Arctic erum að ala lax og rekum seiðaeldisstöð í Tálknafirði og erum með eldisstöðvar í sjó í Patreksfirði, Tálknafirði, Arnarfirði, Dýrafirði og Ísafjarðardjúpi. Til viðbótar erum við með vinnslu í Bolungarvík og skrifstofu á Ísafirði. Nú eru um 120 starfsmenn hjá félaginu og við erum að framleiða um 11.000 tonn af slægðum laxi á ári. Félagið er með sterkt bakland, stærsta eldisfyrirtæki í heimi, Mowi á ríflega helming og Síldarvinnslan á um þriðjung. Afgangurinn er í dreifðri eigu. Þannig að bakland félagsins eru með mikla kunnáttu og fjárhagslega öflugt.

Mitt starf hjá Arctic er í viðskiptaþróun. Í því felast m.a. öll leyfismál og sala og svona hitt og þetta sem fellur til hverju sinni í ungu fyrirtæki. Það er gefandi að taka þátt í uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum. Þetta er gríðarlega mikil innspýting sem hefur algjörlega snúið við efnahagslífi Vestfjarða. Það er í raun magnað að hugsa til þess að nú vinna um 350 manns hjá fyrirtækjum í fiskeldi á Vestfjörðum sem voru nánast ekki til fyrir tíu árum. Á þessu ári eru þessi fyrirtæki að flytja út vörur fyrir hátt í 40 milljarða sem duga í um 100 milljónir máltíða. Til viðbótar hafa svo fyrirtæki eins og Kerecis, Arna og fleiri skapað mörg störf og fyrir var hérna mjög sterkur sjávarútvegur og þjónusta og mörg opinber störf. Það er alls ekki sjálfgefið en gríðarlega jákvætt.

Þessi viðsnúningur á atvinnulífinu er svo forsenda fyrir lífsgæðum okkar sem hér búa og við finnum það öll sem búum á Vestfjörðum að þessi uppbygging í atvinnulífinu skiptir okkur öll máli. Þegar að fólksfækkun hætti, hækkaði fasteignaverð og fólk gat aftur farið að kaupa og selja eignir. Þeir sem vilja færa sig út af svæðinu geta losað eignir og aðrir koma í staðinn og geta jafnvel fengið nýjar íbúðir. Það að fólk upplifi sig ekki í vistarböndum skiptir máli.

Og, af því að spurt er um áhugamál þá má segja að eitt af mínum áhugamálum sé einmitt, samfélagsmál. Ég var lengi í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og það var ákaflega gefandi að taka þátt í því og gera bæinn aðeins betri á hverju ári. Ég held einmitt í þeim efnum að nú þegar að atvinnulífið hefur eflst og fjárhagur sveitarfélaganna er að braggast þurfum við sem samfélag að horfa meira til þess hvað fólk gerir utan vinnutíma. Við eigum náttúrulega æðislega náttúru og hér er hægt að fá fjölbreytta afþreyingu utan vinnutíma. En við getum gert mun betur og þurfum að gera betur til að standast samkeppni við önnur svæði þegar kemur að lífsgæðum. Að mínu mati höfum við setið aðeins eftir þegar kemur að íþróttamannvirkjum sem dæmi. Önnur sveitarfélög hafa verið að koma sér upp knattspyrnuhúsum, sundlaugum, fimleikahöllum og líkamsræktarstöðum. Við höfum ekki náð að fylgja þessari þróun eftir. Þetta skiptir fólk máli þegar kemur að lífsgæðum. Það væri t.d. æðislegt að hafa á Torfnesi, alvöru íþróttamiðstöð með sundlaug, líkamsrækt og knattspyrnuhúsi. Við þurfum að finna leiðir til að koma þessu upp, jafnvel þó að það taki tíma. Sama á við um skíðasvæðið, það er geimsteinn sem þarf að þróa. T.d. mætti hugsa sér að færa gönguskíðin nær fólki og troða brautir í bænum. Það mundi einfalda aðgengi að íþróttinni og gangandi gætu nýtt brautirnar líka til útivistar. Nýta stígana sem búið er að koma upp og troða þá á veturna. Sama á við um skólamál. Við þurfum að tryggja fé í uppbyggingu skólanna þannig að húsnæðið sé nútímalegt og búnaður sé í takt við kröfur samtímans. Svona hlutir skipta okkur máli sem búum hérna og þá sem eru að skoða  að flytja hingað og við þurfum öll sem hér búum að stuðla að því að samfélagið verði aðeins betra á hverju ári.

Annars er ég bara brattur, sól fer hækkandi á lofti. Það er hvergi betra að vera en á Vestfjörðum þegar sólin sest ekki. Það eru forréttindin að fá að búa á svona stað.

DEILA