Vestfirðir: fasteignagjöld viðmiðunarhúss hækka um 8,2% milli ára

Tafla úr skýrslu Byggðastofnunar um fasteignagjöld 2024.

Fasteignagjöld viðmiðunarhúss hafa hækkað á Vestfjörðum um 8,2% milli ára frá 2023 og er árshækkunin hvergi minni. Meðatalshækkun á landinu öllu er 12,7%. Mest er hækkunin á Suðurnsjum 21,3%.

Til fasteignagjalda eru talin fasteignaskattur, lóðarleiga, fráveitugjald og vatnsgjald. Sorpgjald er ekki tekið með í útreikninginn að þessu sinni vegna mismunandi aðferða sveitarfélaga við álagninguna.

Það er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) sem reiknaði út fasteignamat á sömu viðmiðunarfasteigninni í þéttbýli um allt land fyrir Byggðastofnun. Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m2 að grunnfleti og 476 m3. Stærð lóðar er 808 m2.

Fasteignaskatturinn er veigamestur liðurinn í gjöldunum.

Heildarfasteignagjöld viðmiðunareignar árið 2024 eru hæst á matssvæðunum tveimur á Seltjarnarnesi, 609 þ.kr. á matssvæðinu Seltjarnarnes sem er svæðið vestan við Nesveg14 og 602 þ.kr. á matssvæðinu Brautir sem er nyrðri hluti Seltjarnarness. Á Selfossi eru heildarfasteignagjöld viðmiðunareignar 601 þ.kr. og á Egilsstöðum eru þau 589 þ.kr.

Hæst á Patreksfirði

Á Vestfjörðum eru fasteignagjöldin hæst á Patreksfirði 490-500 þúsund krónur. Næsthæst eru þau í Bolungavík 450-470 þúsund krónur. Ísafjörður, eldri byggð er í þriðja sæti þar sem gjöldin eru einnig 450 – 470 þúsund krónur og eilítið lægri í nýrri byggð 430 – 450 þúsund krónur. Á Tálknafirði og Bíldudal eru gjöldin á bilinu 390 – 410 þúsund krónur. Á Hólmavík eru þau 330 þúsund kr., Súðavík 289 þúsund kr.,Hnifsdalur 278 þú kr., Flateyri 229 þúsund kr., Þingeyri 215 þúsund krónur og lægst eru þau á Suðureyri 189 þúsund krónur.

DEILA