Vestfirðir eru orkuauðugasti landshlutinn

Vandi steðjar að Vestfirðingum í orkumálum.  Orkuöflun byggist um of á gömlum bilanahættum flutningslínum og orkuverð er háð dyntum Landsvirkjunar.   Nýrrar stefnumótunar er þörf í orkumálum landshlutans.  Hana þarf að byggja á víðsýni og staðreyndum.  Taka þarf tillit til þess m.a. að Vestfirðingar sitja betur að orkuauðlindum en aðrir landshlutar, þegar til framtíðar er litið.    

Sjávarfallaorka er lausnin

Ekki er unnt að ræða stefnumótun í orkumálum Vestfirðinga án þess að horfa til sjávarfallaorku, enda eru þar öflugustu sjávarfallarastir landsins.  Samanlagt eru þau stórfljót orkumeiri en stærstu virkjanasvæði landsins í dag, s.s. Þjórsársvæðið.  Látraröst er þeirra stærst, en virkjanlegar rastir eru við flest vestfirsk annes.  Þegar hafðar eru í huga þær stórstígu tækniframfarir sem nú eru að verða í sjávarorkunýtingu víða um heim; og jafnvel í okkar næsta nágrenni, verður að telja það gáleysi að líta framhjá sjávarorku í orkuáætlunum Vestfjarða. 

Tæknin er nánast tilbúin.

Víða um heim er unnið að þróun tækni til nýtingar sjávarfallaorku.  Má segja að öll tæknivædd lönd; önnur en Ísland, leggi kapp á nýtingu þessara umhverfisvænu orkulausna, einkum með þróun hverfla.  Flestir eru þeir skrúfuhverflar í mismunandi útfærslum.  Þeir henta ágætlega í miklum straumhraða, þar sem orkuþéttni er mest, en þurfa helst meira en 2,5 m/sek til hagkvæmnar vinnslu.  Eitt afbrigði þeirra sem nú er langt komið í þróun getur þó gagnast við aðeins lægri hraða.  Það er hverfill hins sænska Minesto, sem nú er farinn að sjá Færeyingum fyrir sjávaarfallaorku.  Hverfillinn er í svifdreka sem tjóðraður er við botn og svífur í áttulaga ferli, líkt og flugdreki í vindi.  Nýjasta gerðin „Dragon-12“ hefur 1,2 MW uppsett afl.  Með þeim hverfli eru Færeyingar komnir í forystu um sjávarorkunýtingu.  Þar eru núna áætlanir um 200 MW orkuframleiðslu úr sjávarföllum í sjö sundum, sem er um 40% af núverandi raforkuþörf eyjanna.  Hverfla Minesto eru sagðir gagnast við straumhraða yfir 1,5 m/sek, enda margfalda þeir hraðann með svifi sínu.  Þeir eru því af svonefndri „annarri kynslóð“ sjávarfallahverfla, en slíkir hverflar tvöfalda það umfang sjávarorku sem hingað til hefur verið talið nýtanlegt.  Skrúfuhverflar eru þó ekki hagkvæmir í annnesjaröstum Vestfjarða; jafnvel ekki þessi, þar sem straumhraði er allajafna mun minni en þetta.  Þar þarf hverfil af „þriðju kynslóð“ sjávarhverfla; með getu til hagkvæmrar nýtingar hægari strauma en 1,5 m/sek.  Slíkir hverflar sjöfalda þá sjávarfallaorku sem hingað til hefur þótt nýtanleg.

Íslenskur hverfill

Svo vill til að hérlendis hefur verið þróuð lausn sem hentar íslenskum aðstæðum og getur nýtt slíkan straumhraða.  Uppfinningin er undirritaðs; byggð á reynslu af sjávarfallastraumum við Vestfirði.  Fyrirtæki mitt, Valorka ehf, hefur frá árinu 2009 unnið að þróun all sérstæðra hverfla sem henta í hægum orkurýrum straumi og á tiltölulega litlu dýpi.  Vegna hinnar dreifðu orku þurfa hverflarnir að vera stórir, enda getur þessi gerð orðið nokkur hundruð metra löng.  Hverflarnir verða algerlega á kafi, á miðdýpi sjávar og hafa engin óæskileg áhrif á lífríki eða umhverfi.  Sjávarföllin eru virkjuð í báðar áttir, þó snúningsstefna hverfilsins breytist ekki.  Hverlarnir eru auðveldir í lagningu og að fullu endurheimtanlegir á stuttum tíma.  Á síðasta ári var gerð hagkvæmniathugun þar sem sett var upp dæmi um 5 hverfla, hvern 400 metra langan, sem lagt væri á 40 metra dýpi í Látraröst, undan Látrabjargi.  Uppsett afl væri alls 2,6 MW.  Raforkan yrði leidd til Patreksfjarðar með sjó- og loftlínum og nýtt þar til kyndingar vatns fyrir fjarvarmaveitu.  Ýmsar stærðir eru óljósar, en samkvæmt bestu fáanlegu gögnum myndi virkjunin vera hagkvæm og skila 10% arðsemi yfir 25 ára tímabil, miðað við núverandi orkuverð.  Hitun vatns er vafalítið hagkvæmasta nýting sjávarfallaorku, en varmarýmd vatnsins jafnar út sveiflur vegna fallaskipta, svo ekki er þörf á jöfnunarorku.  Með nýtingu sjávarfalla til vatnshitunar munu Vestfirðir breytast úr köldu svæði í heitt svæði.  Ekki verður einungis gnægð orku til húshitunar, heldur einnig til atvinnustarfsemi, s.s. landeldis á fiski. 

Stjórnvöld dragbítur

Hverflar Valorku hafa verið prófaðir í smáum líkönum og staðið undir öllum væntingum.  Stórt líkan er nánast tilbúið fyrir sjóprófanir.  En íslensk stjórnvöld hafa staðið í vegi fyrir þessari þróun.  Engin stefna er fyrir hendi um rannsóknir á sjávarorku eða þróun sjávarorkutækni.  Meðan svo er fæst ekkert fé til þróunarinnar.  Þessi afstaða stjórnvalda á rætur í stjórnkerfi raforkumála, þar sem Landsvirkjun og aðrir orkurisar halda alfarið um stjórnvölin og ráðamenn dansa eftir þeirra vilja.  Nú kemst ekkert annað að hjá stjórnvöldum en áróður fyrir auknum vatnsaflsvirkjunum og vindmyllum; allt knúið áfram af fjársterkum hagsmunaaðilum. 

Nýtum „bæjarlækinn“

Ég skora á Vestfirðinga að halda ráðamönnum við efnið varðandi rannsóknir, tækniþróun og nýtingaráætlanir sjávarorku.  Rjúfa verður þá þöggun og kyrrstöðu sem nú viðgengst um þessa orkulind, ef við eigum ekki að dragast enn frekar aftur úr alþjóðlegri þróun og valda framtíðarkynslóðum skaða.  Engin nauðsyn er til þess að sökkva náttúruperlum undir virkjanalón eða spilla hinum tígulegu Vestfjarðafjöllum með vindmyllum og vegalagningu.  Nýtum orkuna í „bæjarlæknum“; orkumestu sjávarrastir landsins eru nærtækasta framtíðarlausnin á orkumálum Vestfjarða. 

Valdimar Össurarson

Sjávarfallavirkjun Minestro í Færeyjum er 1.2 MW.

DEILA