Vegagerðin varar við ástandi vega í Reykhólasveit og Dölum

Vestfjarðavegur í gær í Dölunum við Erpsstaði. Mynd: Björn Davíðsson.

Á laugardaginn birti Vegagerðin fréttatilkynningu þar sem varað var við ástandi Vestfjarðavegar (60) í Reykhólasveit og Dalabyggð og segir að það sé er afar bágt. Segir að slitlag hafi farið mjög illa og hafi burðarlag gefið sig á löngum köflum. „Það veldur því að stórir kögglar í slitlagi hafa losnað og við það skapast mjög hættulegar aðstæður fyrir ökumenn.“

Langir kaflar á Vestfjarðavegi eru metnir það slæmir að ekki er hægt að halda þeim við. Því hefur verið ákveðið að fræsa slitlagið á þessum köflum saman við burðarlög vegarins, hefla út og þjappa. Veðuraðstæður koma í veg fyrir að hægt sé að leggja klæðingu á veginn og því verða þessir ákveðnu hlutar vegarins malarkaflar fram á sumar. Reynt verður að klæða þá við fyrsta tækifæri þegar hlýnar í veðri segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.

Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta er um að ræða langan vegarkafla frá Erpsstöðum og norður fyrir Búðardal.

Vegagerðin hvetur ökumenn til að sýna sérstaka aðgát þegar ekið er um svæðið. Unnið var að lagfæringum nú um helgina en ljóst er að þungatakmarkanir verða áfram í gildi á Vesturlandi og Vestfjörðum fram í næstu viku.

Þessir vegarkaflar verðar malarvegir fram á sumar. Mynd: Vegagerðin.

DEILA