Tungusilungur: endurnýjun á 200 tonna leyfi til landeldis

Matvælastofnun hefur unnið tillögu að endurnýjun á rekstrarleyfi Tungusilungs ehf. vegna fiskeldis á landi við Tálknafjörð. Um er að ræða endurnýjun á rekstrarleyfi án breytinga þar sem hámarkslífmassi miðast við 200 tonn af bleikju og regnbogasilungi. Mun nýja leyfið gilda í 16 ár eða til 2040.

Leyfið gildir um landeldi á þremur stöðum í Tálknafirði, á Þórsberg, Mjóparti og Keldeyri við Tálkafjörð.

Gildistaka rekstrarleyfis er háð úttekt Matvælastofnunar og liggur dagsetning ekki fyrir. Gildistaka rekstrarleyfis fiskeldisstöðva á landi er háð því skilyrði að stöð sé útbúin búnaði sem kemur í veg fyrir að fiskur sleppi úr eldiskari og búnaði staðsettum í frárennsli stöðvar sem fangar fisk sem sleppur.

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Matvælastofnun á mast@mast.is. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 19. apríl 2024.

Tungusilungur er rótgróið fjölskyldufyrirtæki og eitt elsta fiskeldisfyrirtæki landsins. Fyrirtækið framleiðir hágæða sælkeravörur á borð við birkireyktan regnbogasilung, reykta og grafna bleikju, ferska bleikju, ferskan silung og silungapaté.

DEILA