Háafell: 1,5 milljarður kr. fjárfesting í seiðaeldisstöð

Fiskeldisfyrirtækið Háafell ehf á Ísafirði hefur lagt um 1,5 milljarð króna í stækkun seiðaeldisstöðvar fyrirtækisins á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Unnið hefur verið að stækkun og aukinni tæknivæðingu seiðaeldisstöðvar Háafells á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi frá því í maí í fyrra þegar framkvæmdir hófust. Um 25 manns vinna við þennan fyrsta áfanga í stækkun sem áætlað er að verði lokið í sumar.

Seiðaeldisstöðin á Nauteyri var byggð árið 1984 af Íslaxi hf., fyrirtæki sem stofnað var af heimamönnum úr sveitinni og fyrirtækjum á norðanverðum Vestfjörðum. Síðan þá hefur verið nánast samfleytt starfsemi í stöðinni. Eftir að HG (síðar Háafell) eignaðist stöðina hefur gamla seiðastöðin verið mikið endurnýjuð.

Á síðasta ári hófst bygging þriggja nýrra húsa sem rúmlega tvöfaldar núverandi afkastagetu stöðvarinnar. Stækkunin er liður í áformum Háafells um að auka vægi landeldis í rekstri sínum með því að ala stærri seiði á landi sem styttir tíma laxins í sjó og draga þannig úr áhættu og minnkar lúsaálag í sjókvíum. Framkvæmdin á Nauteyri og næstu áfangar kalla á uppbyggingu innviða á svæðinu, til dæmis að tryggja nægjanlega og örugga raforku.

Áætlað er að þessi áfangi kosti um 1,5 milljarða króna og er næsti áfangi stækkunar jafnframt nú þegar á teikniborðinu.

Í tilkynningunni segir að um stóra framkvæmd sé að ræða fyrir Háafell sem endurspegli trú eigenda móðurfélagsins á að fjárfesta og styrkja stoðir atvinnulífs og samfélaga við Djúp.

„Öflug og traust landeldisstöð er forsenda þess að geta framleitt stærri, hraust og heilbrigð seiði. Þau eru aftur forsenda góðs árangurs í áframeldinu í sjókvíum og því lykilatriði til þess að viðhalda halda þar áfram góðum árangri.“

Frá framkvæmdum á Nauteyri.

Myndir: Háafell.

DEILA