Mast: auglýsir tillögu að rekstrarleyfi fyrir Arnarlax í Ísafjarðardjúpi

Eldiskvíar Háafells í Ísafjarðardjúpi.

Matvælastofnun hefur unnið tillögu að rekstrarleyfi fyrir Arnarlax ehf. til sjókvíaeldis á 10.000 tonna hámarkslífmassa af ófrjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. Tillagan er byggð á matsskýrslu framkvæmdaraðila frá 2020 fyrir 10.000 tonna sjókvíaeldi á laxi.

Um er að ræða nýtt rekstrarleyfi sem heimilar allt að 10.000 tonna hámarkslífmassa á ófrjóum laxi á hverjum tíma. Burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar gerir ráð fyrir 30.000 tonna hámarkslífmassa og áhættumat stofnunarinnar gerir ráð fyrir 12.000 tonnum af frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. Arnarlax sótti um 10.000 tonna hámarkslífmassa af bæði frjóum og ófrjóum laxi en þar sem Matvælastofnun hefur þegar ráðstafað hámarkslífmassa upp á 12.000 tonnum af frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi þá mun stofnunin einungis heimila eldi á ófrjóum laxi í umræddu rekstrarleyfi segir í tilkynningu á vefsíðu Matvælastofnunar.

Leyfið nær til eldis á þremur svæðum, Óshlíð, Drangsvík og Eyjahlíð og er háð því að fyrirliggjandi sé samstarfssamningur milli Arnarlax hf og annars vegar Hábrúnar ehf. og hins vegar Arctic Sea Farm
ehf. sem tryggir samræmdar forvarnir og viðbrögð við sníkjudýrum og sjúkdómum.

Jaðar sjókvíaeldisstöðvanna Drangsvíkur og Eyjahlíðar skulu ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeira vitaljósa en 50 m. En jaðar sjókvíaeldisstöðvarinnar Óshlíðar skal ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeira vitaljósa en 200 m.

Framkvæmd fyrirtækisins fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Matvælastofnun á mast@mast.is . Frestur til að skila inn athugasemdum er til 2. apríl 2024.

DEILA