Ísafjörður: Tónlistarhátíðin við Djúp í júní

Tónlistarhátíðin Við Djúpið 2024 er nú óðum að taka á sig mynd og byrjað er að kynna dagskrána. Hátíðin fer fram dagana 17.–22. júní í sumar þegar sól er hæst á lofti og Vestfirðir eru að komast í sumarbúning.

Föstudagskvöldið 21. júní verður tileinkað nýrri tónlist fyrir strengi. Kvartett úr Cauda Collective treður upp með fimm verk; þrjú glæný strengjatríó og tvo strengjakvartetta. Öll verkin eru eftir meðlimi tónskáldahópsins Errata.

Halldór Smárason, Haukur Þór Harðarson, Petter Ekman fá frumflutt ný tró fyrir strengi, samin fyrir tilefnið og Bára Gísladóttir og Finnur Karlsson bera fram nýlega kvartetta á tónleikunum.

Halldór, Petter og Finnur eiga það sameiginlegt að hafa sótt tónskáldasmiðju hátíðarinnar, „ný tónsláld“, þegar þeir voru að stíga sín fyrstu skref sem tónskáld eftir útskrift úr námi. Það er því sérstaklega ánægjulegt að fá verk þeirra flutt á hátíðinni nú segir í kynningu hátíðarinnar á dagskránni.

Um vetrarsólstöður á nýliðnu ári kynnti hátíðin nýjan lagalista sem sem ber heitið Winter Music. Listinn passar vel við myrkrið og kuldann, undir teppi heima eða þegar þarf einbeitingu og innblástur við vinnuna. Tónlistin kemur úr ýmsum áttum en ef vel er að gáð eru margar skemmtilegar skírskotanir til hátíðarinnar og Ísafjarðar.

Dagskrá hátíðarinnar verður nánar kynnt á næstu vikum.

DEILA