Jólahugvekja: Hitt guðspjallið

I.
Tveir af guðspjallamönnunum, þeir Matteus og Lúkas segja frá fæðingu Jesú og þeim atburðum, sem þá urðu. Lúkas segir frá ferðalagi Maríu og Jósefs til Betlehem og að frelsarinn hafi verið lagður í jötu nýfæddur. Hann segir einnig frá fjárhirðunum á völlunum við Betlehem, sem hlustuðu á engil segja þeim frá því að frelsarinn væri fæddur. Síðan sungu englarnir Guði lof og dýrð. Þessi frásaga er vel þekkt og hún er alltaf lesin upp í kirkjum landsins á jólum.
Matteus segir söguna allt öðru vísi. Þar eru það þrír menn, líklega stjörnuskoðunarmenn frá Meópótamíu, sem eru á ferðalagi af því að þeir sáu nýja stjörnu á himninum. Þessir vitringar álíta stjörnuna boða stórtíðindi og dettur þeim helst í hug að það muni vera fæðing nýs konungs. Og líkt og fréttamenn nútímans þá storma þeir inn í höllina í Jerúsalem og spyrja hvort þar hafi nokkuð fæðst nýr konungsson, Messías Hebreanna.
Þetta atriði sýnir okkur að þessir vitringar voru kjánar. Já, bjálfalegt var það að fara í höllina til Heródesar gamla og spyrja þennan grimmdarsegg hvort það hefði ekki nýlega fæðst barn, sem hugsanalega væri Messías, hinn fyrirheitni konungur og frelsari. Og brosandi glaðir og spenntir sögðu vitringarnir Heródesi að þessi nýfæddi konungur yrði konungur konunganna, sem myndi skyggja á allt og alla. Já, það hefði meira að segja birst ný stjarna á næturhimninum! Og þetta söguðu þeir við hinn grimmlinda konung í Jerúsalem, sem í vænisýki sinni hafði látið drepa konu sína, syni og fjölda þegna sinna.
Heródes gamli var ekki Ísraelsmaður eða Gyðingur. Hann var fæddur handan árinnar Jórdan, þar sem nú er ríkið Jórdanía. Hann var útlendur harðstjóri, sem drottnaði yfir Ísrael. Og nú komu til hans þrír stjörnuskoðunarmenn, sem sögðu honum að hinn nýi konungur Gyðinganna væri fæddur. Heródes vissi alveg hvert hann átti að senda þessa stjörnuspekinga að leita að nýfæddum konungi. Ætt Davíðs konungs var frá Betlehem og þar hlaut barnið að vera fætt. Og Heródes sagði spekingunum þremur að fara til Betlehem og leita þar að barninu. Þegar þremenningarnir voru farnir þá skipaði Heródes hermönnum sínum að elta vitringana þrjá og drepa barnið, sem þeir leituðu að.
II.
Frásögn Matteusar er ekki beint jólaleg. Þetta er ekki saga, sem nokkur prestur vill lesa upp í kirkjunni á aðfangadagskvöld þegar hátíð jólanna, hátíð ljóss og friðar er hringd inn. Frásaga Matteusar er eins og handrit að hasar- og spennumynd, sem Hollývúdd myndi framleiða. Lesendur Matteusar eru eins og hengdir upp á þráð þegar þeir lesa fyrstu tvo kaflana í guðspjalli hans. Lesendinn spyr sig hvernig þetti endi allt saman. Matteusarguðspjall er hitt guðspjallið, sem við lesum ekki upp í kirkjunni fyrr en á þrettándanum, – ef það er þá messað þann dag!
Samt er þetta guðspjall með engu minni jólaboðskap en frásaga Lúkasar. Því boðskapur Matteusar er sá að manneskjan sé ekki ein hér í heimi, ekki ofurseld grimmd herkonunga eins og Heródesar. Nei, guðspjall Matteusar minnir okkur á þann sannleik að yfir veröldinni vaki góður Guð, sem hjálpar mönnunum og verndar þá. Þess vegna vitjar Guð vitringanna í draumi og segir þeim að varast Heródes og láta hann og hans menn ekki vita af barninu. Og engill Drottins birtist Jósef í draumi og segir honum að flýja með Maríu og barnið til Egyptalands því Heródes ætli að vinna því mein.
III.
Já, fjölskylda Jesú var flóttafólk, þau flúðu til Egyptalands, voru á vergangi í nokkur ár áður en þau áræddu að snúa aftur heim til Ísraels.
Á Íslandi er flóttafólk. Sumt er langt að komið og hefur leitað hér skjóls undan stríði, ofsóknum eða atvinnuleysi og eymd. Aðrir eru landar okkar. Já, á þessum jólum eru Íslendingar á flótta í eigin landi. Grindvíkingar hafa orðið að flýja heimili sín vegna náttúruhamfara. Jólin þeirra í ár verða allt öðru vísi en jólin í fyrra eða hitteðfyrra. En samt verða það heilög jól. Og þetta er leyndardómur jólanna; það er alveg sama hvar þú ert staddur, hvort þú ert heima hjá þér, vinnandi á stofnum eða á ferðalagi úti í heimi þá kemur yfir þig jólaandinn þegar hátíðin gengur í garð og þú brosir framan í ástvini þín og segir gleðileg jól. Það er engin önnur hátíð, sem hefur viðlíka stemmingu og áhrif og jólin. Jólin snerta við okkur á sérstakan hátt. Þau búa í huga okkar og hjarta.
Og svo er það flóttafólkið, sem enginn vill vita af. Það er fólkið, sem hefur ákveðið að flýja sjálft sig með því að sökkva sér ofan í algleymi vímuefna, fólkið, sem ráfar um stræti stórborganna og á hvergi höfðu sínu að halla eða getur hvergi fest rætur. Í Reykjavík bjóða Hjálpræðisherinn og Samhjálp slíku utangarðsfólki upp á jólamat. Annars staðar á landinu er það útrétt hönd nágrannans, sem hjálpar.
Jólin eru hátíð kærleikans. Þau segja frá kærleika Guðs til okkar manna. Þau eru tækifæri til halda upp á og innsigla kærleika okkar til fjölskyldu okkar og vina með gjöfum og veislumat. Og jólin kveikja í hjarta okkar kærleika til allra manna og þess vegna viljum við rétta þeim hjálparhönd, sem eru á vergangi í lífinu.
Engin hátíð er eins stórkostleg eins og jólin.
Guð gefi þér og þínum gleðileg jól.

Magnús Erlingsson,
prestur á Ísafirði.

DEILA