Bubbi: eitt gildir fyrir hann og annað fyrir HSÍ

Í síðustu viku var tilkynnt um styrktarsamning Arnarlax við Handknattleikssamband Íslands, HSÍ. Eins og hendi væri veifað brast á mikill stormur á samfélagsmiðlum og einna fyrstur á vettvang með háværa gagnrýni var tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens. Hann skrifaði á visir.is grein og sagði samninginn reginhneyksli. HSÍ ætti ekki að þiggja fé frá Arnarlax. Sjókvíaeldi væri „hörmulegur og mengandi iðnaður sem mun ganga af íslenskum náttúrulegum laxastofni dauðum“ og fyrirtækið væri með peningunum að hvítþvo ímynd sína. Fleira segir Bubbi í greininni en látum þetta duga að sinni.

HSÍ er samband fólks sem vill vinna að framgangi íþróttarinnar, einkum í sjálfboðavinnu, og leggur sig fram um að gera íþróttafólki kleift að keppa fyrir hönd þjóðarinnar í ýmsum aldursflokkum karla og kvenna. Núna í dag eru stúlkurnar að hefja leik á heimsmeistaramóti kvenna og eru eðlilega spenntar fyrir þessu einstaka tækifæri.

Fjáröflun er lífsnauðsynleg til þes að HSÍ geti sinnt þessu og þrátt fyrir marga styrktaraðila er kannski sambandið samt rekið af nokkrum vanefnum og gæti gert betur. Stuðningur Arnarlax hjálpar örugglega til og verður til góðs.

En Bubbi er ekki sammála þessu. Hann vill að landsliðin verði af þessum tekjum af því að hann er á móti sjókvíaeldi. Sjálfsagt mun hann síðar gera frekari grein fyrir því hvaða önnur fyrirtæki í landinu á að útiloka frá því að styðja HSÍ eða aðra íþróttastarfsemi. Það verður fróðlegt að sjá þann lista af fyrirtækjum og rökstuðninginn fyrir því að þiggja ekki styrki frá þeim.

En Bubbi hefur sjálfur verið í þessari klemmu. Hann hefur um langt árabil hamast gegn sjókvíaeldinu og þar með talið fyrirtækinu Arnarlax. En fyrir sex árum, í júní 2017, bar svo við að Bubbi samdi við Arnarlax og spilaði á Bíldudal á hátíð gegn greiðslu frá Arnarlax. Frá þessu var auðvitað sagt á bb.is í frétt með fyrirsögninni: Bubbi og Arnarlax slíðra sverðin. Á facebook síðu hátíðarinnar lét Bubbi hafa eftir sér að skárra væri það nú ef menn gæti ekki tekið tónlistinni hans fagnandi þótt þeir væri ekki sammála skoðunum hans.

en Bubbi tekur ekki fagnandi skoðunum annarra

Þarna kemur fram alvarlegur tvískinningur hjá tónlistarmanninum. Honum finnst það allt í lagi að hann sjálfur fái greitt frá Arnarlax en reginhneyksli að HSÍ fái greitt frá Arnarlax. Þegar hann fær greitt er það fáránlegt bull að gagnrýna það en þegar HSÍ fær greitt er formaður HSÍ sakaður um dómgreindarbrest og ætti að segja af sér. Það er ekki svo að formaður HSÍ sé að fá peningana í eigin vasa, þeir fara í að kosta starfið, en það á við um Bubba, peningarnir fór beint í hans vasa.

Karlalandsliðið fær þá einkunn hjá tónlistarmanninum að þeir séu nú ekki lengur strákarnir okkar, þ.e. þjóðarinnar heldur strákarnir þeirra, þ.e. Arnarlax. Bubbi afneitar landsliðinu af þeirri einu ástæðu að hann er á móti Arnarlax. En með þessu bendir hann á sjálfan sig fyrir sex árum og segir að hann hafi verið strákurinn þeirra sem honum fannst á þeim tíma vera ekkert ankannalegt.

Staðreyndavillur og innihaldslaus stóryrði

Í grein Bubba er margt sagt sem er einfaldlega rangt. Að sjókvíaeldi muni ganga af laxastofnum landsins dauðum er enginn fótur fyrir. Hvergi hefur það gerst annars staðar í veröldinni að eldislax hafi útrýmt náttúrulegum stofni. Erfðablöndun hér á landi er óveruleg, aðeins eitt tilvik hefur orðið á rúmum áratug þar sem kynþroska eldislax hefur gengið upp í ár í einhverjum mæli og það var núna í haust. Það eru einnig staðlausir stafir að eldið leggi lífríkið í fjörðum landsins í rúst. Öðru nær það er vel fylgst með því og þess gætt að lífríkið skaðist ekki , enda er það hagur sjókvíaeldisins að unnt verði nýta kvíasvæðin að nýju að lokinni eldislotu.

Bubbi bendir á að Arnarlax hafi verið sektað um 120 m.kr. fyrir aðgæsluleysi þar sem það geti ekki gert grein fyrir afdrifum um 80 þúsund laxa úr einni kví á tímabilinu okt 2020 til okt 2022. Svo merkilegt sem það er þá hefur ekkert ennþá orðið vart við þá laxa í laxveiðiám landsins. Allt bendir því til þess að laxarnir hafi drepist í sjó. Jafnvel þótt einhverjir komi til með að ganga upp í ár síðar er ljóst að þeir verða fáir og mun ekki valda neinum skaða. Svona mikil sleppning er einsdæmi, sem betur fer og virðist hafa farið betur en á gæti hafa horfst. Skaðinn er fyrst og fremst hjá fyrirtækinu sem tapar um 440 tonnum af fullvöxnum eldislaxi sé miðað við 5,5 kg fisk í sláturstærð. Verðmæti þess er um 440 milljónir króna. Hafa ber í huga að Arnarlax hefur áfrýjað sekt Mast til dómstóla sem munu útkljá þetta mál í fyllingu tímans.

hver skrifaði greinina?

Athygli vekur að daginn áður en Bubbi skrifaði sína grein á visir.is birtist færsla á facebook frá Guðmundi Þ. Guðmundssyni, fyrrverandi landsliðsþjálfara karlalandsliðsins í handknattleik. Þar kvað við sama tón og í grein Bubba. Þegar þessi skrif eru borin saman vekur athygli að um er að ræða að stofni til sama textann með sömu skilaboðunum.

Báðir skrifa: „Þessi samningur milli HSÍ og Arnarlax er reginhneyksli og sýnir stórkostlegan dómgreindarskort af hálfu formanns HSÍ, Guðmundar B. Ólafssonar.“

Og þetta er líka í báðum textunum: „Þetta sjókvíaeldi er hörmulegur og mengandi iðnaður sem mun ganga af íslenskum náttúrulegum laxastofni dauðum.“

Bubbi skrifar: „Að þiggja peninga frá þessu fyrirtæki sem vill nýta sér íslenska landsliðið til að hvítþvo dapurlega ímynd sína er ömurlegt“ og landsliðsþjálfarinn fyrrverandi skrifar: „Að þiggja peninga frá þessu fyrirtæki sem vill nýta sér íslenska landsliðið til að lappa upp á dapurlega ímynd sína er óskiljanlegt“

Bubbi skrifar: „Arnarlax var sektað ekki alls fyrir löngu af Matvælastofnun að upphæð 120 miljón króna fyrir að hafa brotið gegn skyldu um að tilkynna um strok á laxi úr kvíum sínum.“ Og Guðmundur : „Arnarlax var meðal annars fyrir nokkru síðan sektað af Matvælastofnun að upphæð 120 milljónir króna fyrir að hafa brotið gegn skyldu um að tilkynna um strok á fiski“.

Spurningin sem vaknar er hver skrifaði þennan texta. Líklegt er að hvorki Bubbi né Guðmundur hafi samið textann heldur hafi þeir fengið hann sendan og þeir samþykkt að skrifa sig fyrir honum. Með öðrum orðum að einhver áróðursmeistari andstæðinga sjókvíaeldisins hafi lagt til efnið og skipulagt birtinguna. Sé það rétt til getið hafa þeir báðir vísvitandi samþykkt að nota nafn sitt í áróðursstríðinu gegn laxeldinu á Vestfjörðum.

Áróðursstríðið hefur geisað af miklum krafti allt þetta ár eins og sést hefur á fjölmiðlum landsins og stormurinn nú var bersýnilega til þess að koma í veg fyrir að stuðningur Arnarlax við handknattleiksíþróttina fengi jákvæða umfjöllun. Það er öllu til kostað til þess að koma laxeldinu á kné. Bubbi og Guðmundi Þ. eiga það báðir sameiginlegt að gefa ekkert fyrir hagsmuni Vestfirðinga og krefjast þess að þeir færi fórnir og fái ekkert í staðinn.

Höfum það i huga.

-k

DEILA