Vestri: völlurinn þarf að vera tilbúinn 10. apríl næsta vor

Samúel Samúelsson við leikvöllinn. Mynd: fotbolti.net.

Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs Vestra segir að Torfnesvöllur þurfi að vera tilbúinn fyrir fyrsta leik næsta vors, sem verður 10. apríl. Karlalið Vestra mun leika í Bestu deildinni á næsta ári og því fylgja auknar kröfur til vallar og aðbúnaðar, svo sem varðandi útsendingar, eftirlit og fjölmiðla. Eins og kunnugt er hefur verið ákveðið að setja gervigras á Torfnesvöll og æfingavöllinn og hefjast framkvæmdir við það nú strax í haust.

Samúel segir að rekstrarkostnaður knattspyrnudeildar sé um 100 m.kr. og muni aukast nokkuð við það að taka þátt í Bestu deildinni. Það þurfi að stækka leikmannahópinn og ferðakostnaður muni aukast. Á móti auknum kostnaði munu hins vegar koma auknar tekjur. Á þessu ári fékk hvert lið í Bestu deildinni 20,5 m.kr. fyrir sjónvarpsréttindi og 13 m.kr. frá UEFA í afreksþjálfun.

Til þessa hefur Vestri sparað sér kostnað sem mörg lið eru með og m.a. öll lið í Bestu deildinni. Má þar nefna að Vestri er ekki með starfandi framkvæmdastjóra, sjúkraþjálfara og leikgreinendur.

Aðspurður hvort hlutskipti Vestra verði að verma botnsætið næsta ár segir Samúel að hann telji að svo verði ekki. „Vestri á marga góða að og allir munu leggjast á eitt og sjá til þess að lið Vestra spili vel og verði Vestfirðingum til sóma.“ Hann segir mikilvægt fyrir liðið að halda sér í deildinni. Vestri hafi verið með besta heimavallaárangur í Lengjudeildinni í sumar og á því þurfi að byggja.

Samúel Samúelsson segir að æfingaaðstaðan í vetur verði ekki ákjósanleg og að það þurfi að vera hiti á nýju gervigrasvöllunum. Verði völlurinn ekki leikfær á útmánuðunum þurfi að leika á útivelli og það þýði meiri kostnaður fyrir Vestra. Deildakeppnin byrjar sem fyrr segir í apríl og Lengjubikarinn fyrr eða í mars og þetta þurfi allt að hafa í huga við aðstöðusköpun.

DEILA