Útgáfufagnaður Ísafirði: menning við ysta haf

Í tilefni útgáfu bókarinnar Menning við ysta haf: Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða og Stranda verður blásið til útgáfufögnuðar á Ísafirði.
Dagskráin fer fram í Safnahúsinu við Eyrartún á Ísafirði í dag frá kl. 15 til 16:30 laugardaginn 7. október og í Edinborgarhúsinu frá kl. 20:00 til 22:30.

Bókin hefur að geyma greinar um bókmenntir og menningu frá miðöldum fram á okkar daga. Greinarhöfundar eru fræðimenn og rithöfundar frá Íslandi, Kanada og Danmörku, og ritstjórar bókarinnar eru dr. Birna Bjarnadóttir, rannsóknasérfræðingur við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, og Ingi Björn Guðnason, bókmenntafræðingur og staðarhaldari á Hrafnseyri. Bókin er tileinkuð minningu Eiríks Guðmundssonar (1969 – 2022). Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Háskóla Íslands. Útgáfunni verður einnig fagnað í borginni og mun sá viðburður fara fram í Veröld – húsi Vigdísar, Auðarsal, þann 15. nóvember næstkomandi.

Dagskrá:

Kl. 15:00 – 16:30 Safnahúsið Ísafirði

Útgáfufögnuður bókarinnar Menning við ysta haf og opnun sýningarinnar Úr kúltíveruðum kindarhausnum: Sýning bóka frá Vestfjörðum og Ströndum.

Ingi Björn Guðnason flytur ávarp f.h. ritstjóra.
Eiríkur Örn Norðdahl opnar sýninguna.
Ármann Jakobsson, forseti Hins íslenska bókmenntafélags flytur ávarp f.h. útgefanda

Greinarhöfundarnir Andrew McGillivray, Birna Bjarnadóttir, Gunnar Þorri Pétursson og Oddný Eir Ævarsdóttir segja frá greinum sínum í bókinni.

Kl. 20:00 –  22:30 Edinborgarhúsinu Ísafirði

Kvöldvaka sköpunarkraftsins.

Við fögnum sköpunarkrafti Vestfjarða og Stranda með kvöldvöku í Edinborgarhúsinu. Fram koma starfandi rithöfundar og tónlistarmenn sem flytja verk sín. Nýtt efni í bland við gamalt.  Ókeypis aðgangur og öll velkomin!

Fram koma:

Eiríkur Örn Norðdahl, rithöfundur
Gosi, tónlistarmaður
Helen Cova, rihtöfundur
Hermann Stefánsson, rithöfundur
Jarosław Czechowicz, rithöfundur
Oddný Eir Ævarsdóttir, rithöfundur
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, rithöfundur
Skúli mennski, tónlistarmaður

Um bókina Menning við ysta haf: Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða og Stranda

Þegar spáð er í íslenska bókmennta- og menningarsögu má sjá hvernig mörg merkisverk íslenskra bókmennta eiga rætur sínar að rekja til Vestfjarða og Stranda. Markmiðið með útgáfunni á greinasafninu er að skapa samræðu um þetta efni og kortleggja um leið þó ekki væri nema brot af þeim handritum og bókmenntaverkum sem rísa úr djúpinu frá miðöldum til okkar tíma. Útgáfan er lokahluti verkefnisins Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða (2017–2021) og byggir að hluta á erindum sem flutt voru á Hrafnseyri (sumarið 2017) og tveimur málþingum á Ísafirði, (2018 í Edinborgarhúsinu og 2021 í Safnahúsinu). Tilurð verkefnisins má rekja til sumarnámskeiðs Íslenskudeildar Manitoba-háskóla á Vestfjörðum (2007–2015) og samstarf deildarinnar í því efni við Háskólasetur Vestfjarða. Verkefnið hefur notið stuðnings prófessorsembættis Jóns Sigurðssonar við Háskóla Ísland sem Guðmundur Hálfdánarson gegnir og hann skrifar formála bókarinnar.



DEILA