Umhverfismálum snúið á haus

Það má sjá samnefnara í umræðunni um hvalveiðar og eldi á laxi í sjókvíum. Umræðan er drifin áfram af fólki með sterkar og miklar skoðanir um að mikil náttúruvá sé fyrir dyrum og velferð dýra fótum troðin. Segja má að upplýsingaóreyða sé talsverð og mörgum ekki ljóst hvað sé satt og hvað séu hreinar flökkusögur. Í stuttu máli er hér reynt að varpa ljósi á það hversu öfugsnúin umræðan getur  stundum verið, aðallega þó fyrir fólki sem er í vafa um hvað sé satt og rétt, því lítið þýðir að rökræða við fólk sem er trúfast á eigin sannleika. Það hjálpar ekki fyrir vandaða umræðu að fréttafólk og stjórnmálamenn taka oft undir illa ígrunduð og hagsmunatengd sjónarmið. Kíkjum aðeins undir yfirborðið.

Hvalkjöt er umhverfisvænn matur

Ástand hvalastofna í heimshöfunum er gott og stofnar stækka, þó sumir séu ennþá laskaðir eftir ofveiði fyrr á öldum.  Það er staðfest af vísindamönnum Alþjóða hvalveiðiráðsins (IWC) og vissulega er hægt að stunda sjálfbærar veiðar á flestum hvalastofnum. Hvalveiðibann er tilkomið vegna starfs umhverfissamtaka sem nýta sér vonda umhverfissamvisku borgarbúa heimsins til fjáröflunar. Gróðabrall umhverfissamtaka á sjávarspendýrum hófst á miðjum áttunda áratugnum þegar Birgitta Bardot tókst að banna verslun með selskinn innan Evrópusambandsins, með skelfilegum afleiðingum fyrir Grænlendinga. En það er önnur saga. Í heimshöfunum og hér við land eru veiddir hvalir sem nærast nær eingöngu á dýrasvifi. Kolefnisfótspor hvalkjötsins er lítið sem ekkert og þegar kjötið er komið í frystigeymslur er fótsporið mjög óverulegt í samanburði við rautt kjöt af landdýrum. Það yrði t.a.m. afar umhverfisvænt að hvetja til neyslu hvalkjöts á kostnað nautakjöts. En slík áhersla myndi grafa undan fjármögnun umhverfisverndarsamtaka. Nýting hvalastofna til að fæða hungraðan heim er afar mikilvæg ef takast á við hlýnun jarðar. Slík staðreynd truflar ekki umhverfissinna. Vissulega er velferð hvala og aflífun þeirra orðin nýtt sjónarmið. Slík sjónarmið hafa þó ekki náð sama flugi þegar kemur að veiðum á öðrum spendýrum. Nefna má sem dæmi að samkvæmt sænskri rannsókn drepast aðeins 17% veiddra elgja strax við fyrsta skot. Hlutfallið er þó margfalt hærra við hvalveiðar í dag. Eru sjávarspendýr heilagri hvað þetta varðar?

Háværar raddir á villigötum

Þegar kemur að laxeldi í sjókvíum eru allmargir samnefnarar við hvalveiðar. Umræðan er drifin áfram af eldheitum hagsmunahópum sem telja mikið umhverfisslys í vændum og jafnvel að svo sé þegar orðið. Þar fara veiðiréttarhafar með himinskautum og fullyrða að útrýming íslenska laxastofnsins sé yfirvofandi. Ekkert dugi nema að stöðva allar fyrirætlanir um vöxt greinarinnar, reyndar vilja þeir banna þessa starfsemi nú þegar til framtíðar.

Lífrænt botnfall er áburður sem nærir lífríkið

Hvaða fullyrðingar um skaðsemi eru haldbærar? Er það mengun, erfðablöndun og/eða fiskivelferð? Lífrænt botnfall er ekki vandamál þegar stjórnendur kunna til verka. Því miður hafa orðið misbrestir á því. Af yfir 800 kvíastæðum í Noregi eru undir 2% með sjáanlega mengun og slíkum svæðum er lokað. Sama er tilfellið hérlendis. Í 98% tilvika eru lífræn úrgagnsefni áburður sem nærir botndýralíf og eykur fiskigengd í fjörðum. Það staðfesta t.a.m. smábátasjómenn á Vestfjörðum. 

Erfðablöndun er afturkræf

Sleppingar úr eldiskvíum er afar slæmt mál, sérstaklaga ef fyrirbyggja á verðfall á rándýrum laxveiðileyfum. Enginn stangveiðimaður er tilbúinn til að greiða fyrir að veiða feita og lata laxa. Svo er þetta vissulega tjón fyrir laxeldisfyrirtækin. Með upptöku á gæðastaðli fyrir eldisbúnað og nýjum verklagsreglum hérlendis árið 2015, samskonar og Norðmenn tóku upp árið 2006, tókst að draga mjög verulega úr slysasleppingum þar í landi. Hvernig hafa svo mælingar á erfðablöndun þróast í Noregi? Jú, stórlega hefur dregið úr innblöndun á framandi genum í villtum laxveiðistofnum á árabilinu 2014 til 2022. Er þá erfðablöndun afturkræf? Já, svo virðist vera – þrátt fyrir fullyrðingar um annað, m.a. frá okkar ágætu fræðingum hjá Hafrannsóknastofnun. Ástæðan er einföld – náttúruúrval. Velþekkt er að minna en 1% af afkvæmum villtra laxa lifir af í hverri kynslóð. Samsagt; meira en 99% drepast í ánum eða í hafinu af náttúrulegum orsökum. Afkvæmi sem verða til við pörun milli eldislaxa og villtra virðast hafa 10-100x minni lifun. Ástæður þess eru m.a. þær að með kynbótum fyrir hraðari vexti er eldislaxinn einfaldlega orðinn óhemju frekur og gráðugur. Afkvæmin hafa misst eiginleika fyrir  óðalshegðun –  sem er grundvöllur fyrir því að lifa af í köldum straumi vetrarlangt. Seiðin þeysast um allt í leit að mat í stað þess að grafa sig í möl bakvið gott grjót og brenna því einfaldlega upp.

Íslenskir laxastofnar hafa þolað mikil inngrip í áratugi 

Fleiri ranghugmyndir um erfðablöndun í dægurmálaumræðunni mætti nefna. Blöndun gena milli eldislaxa og villtra laxa stækkar erfðabreytileikann en minnkar hann ekki. Því er hins vegar öfugt farið þegar litið er til athafnasemi veiðiréttarhafa við sleppingar seiða. Þá er sleppt mörgum afkvæmum undan fáum foreldrum, sem þrengja erfðamengi laxastofnsins. Eftirlit með slíkri starfsemi er í skötulíki hérlendis. Gott dæmi um skaðleg áhrif seiðasleppinga er í Laxá í Aðaldal, en þar hefur samtellt í áratugi verið sleppt 2x fleiri eldisseiðum en sem nemur þeim fjölda sem gengur náttúrulega út frá ánni. Veiðiréttahafar ættu því að líta sér nær og krefjast þess að umhverfismat verði framkvæmt við sérhverja fiskræktaraðgerð. Ofveiði til áratuga hefur skaðað erfðamengi villta laxsins, sem sjá má í verulegri fækkun stórlaxa í veiði. Reynt er að klóra í bakkann með veiða-sleppa reglum – sem eru að skila árangri, sem sýnir virkni náttúruúrvals og stöðugleika í erfðamengi einstakra laxastofna.

Mikil erfðafesta í laxastofnum

Stöðugleika erfðamengis má einnig skoða í ljós ítrekaðra seiðasleppinga í áratugi með framandi genum af Kollafjarðarstofni eða þegar litið er til hafbeitarstarfsemi þegar tugum milljóna af sama stofni var sleppt frá vatnslitlum eða nær vatnslausum árósum. Ratvillur slíkra seiða skipta tugum prósenta. Í dag leyfir Fiskistofa að milljónum laxaseiða sé sleppt í hafbeitar-stangveiði aðgerðum. Engin erfðablöndun hefur verið staðfest frá þessum tugum þúsunda framandi löxum. Í því ljósi og reynslunnar frá Noregi er sérkennilegt þegar íslensk stjórnvöld gleypa við hræðsluáróðri um yfirvofandi útrýmingu íslenska laxastofnsins þótt illa á sig komnir eldislaxar leiti hælis hjá frændum sínum í íslenskum ám.  Sagan mun sýna að áhrif nokkurra strokulaxa verða lítil þegar málið er skoðað í samhengi þess að erfðablöndun af dreifingu framandi gena í fiskirækt og hafbeit í hálfa öld eru ekki merkjanleg. Íslenskir laxastofnar hafa mikla erfðafestu sem bundin er í ca 50 þúsund sérhæfð gen, sem dreifast á 4-7 árganga. Því verður ekki auðveldlega haggað. Litlir og nýtilkomnir laxastofnar eru þó mögulega viðkvæmari fyrir framandi genum en stórir aldagamlir stofnar. Það er reynslan frá Noregi. Þar skiptir meginmál að tilvera strokulaxa heyri til algerra undantekning og eru laxeldisfyrirtækin vel meðvituð um það.  

Velferð dýra í matvælaframleiðslu er mikilvæg

Velferð laxa í eldiskvíum er vissulega vandamál þar sem laxalúsin fyrirfinnst. Lúsin skapar vandamál á Vestfjörðum, þó ekki í Djúpinu, og á Austfjörðum þrífst laxalúsin ekki. Mikilvægt er að atvinnugreinin taki upp verklag sem tryggi velferð laxins og ekki er ólíklegt að lokaðar sjókvíar geti verið hluti af lausninni í baráttu við lúsina. Útspil ráðherra um að greinin fá að þróast og finna lausnir næstu fjögur árin var klókt að öllu tilliti.

Saga hvalveiða og sjókvíaeldis á laxi er í mörgu ekki fögur. Báðar atvinnugreinar voru uppbyggðar á þeirri færni og búnaði sem fyrirfannst fyrir öldum eða áratugum síðan. Báðar greinar útvega nauðsynlegt dýraprótein með lágt kolefnisspor fyrir sísvangt mannkyn. Afar ódýrt er að byggja mótmæli á gömlu orðspori og neita að viðurkenna að endurbætur og þróun geti skilað og muni skila umhverfisvænni nýtingu náttúruauðlinda.

 Jón Örn Pálsson (M.Sc.)

Ráðgjafi

DEILA