Ísafjarðarbíó: Piff hefst í dag

Piff – alþjóðleg kvikmyndahátíð sem haldin er á Vestfjörðum hefst með opnunarhátíð í Ísafjarðarbíói dag. Verður þar boðið upp á léttar veitingar og gefst bíógestum tækifæri til að hitta erlent kvikmyndafólk sem mætt er til Íslands til að fylgja myndum sínum eftir. Allir eru velkomnir bæði á opnunina og sýningarnar sem eru fríar.

Opnunarmynd hátíðarinnar verður svo sýnd kl. 18 en það er vestfirska myndin Leitin að Auði eða The Search for Auður. Um er að ræða draugasögu um unga konu sem leitar örlaga ömmu sinnar sem fórst á sjó við dularfullar aðstæður 60 árum áður.

Kl. 20 verður finnska myndin Sólvindar eða Solar Wind Alley sýnd sem fjallar um systur í afskekktu þorpi sem eru að takast á við lífið eftir að móðir þeirra féll frá. Þær þurfa svo ásamt öðrum þorpsbúum að takast á við óvæntar afleiðinar þess að rafmagnið fer af eftir að sterkir sólvindar skella á þorpinu.

Þetta er fyrsta mynd finnska leikstjórans Anastasia Lobkovski, em hún hefur gert margar stuttmyndir og listrænar myndir. Myndin hefur verið á mörgum hátíðum í sumar og fengið góða dóma og verið vinsæl á meðal áhorfenda.

Síðasta mynd kvöldsins er pólska hryllingsmyndin Það kom úr vatninu – eða It came from the Water. Hér er um að ræða ádeilu á ástand móður jarðar sem nær hefnd á mannfólkinu með því að breyta því í uppvakninga eftir að það kemst í tæri við mengun í baltneska hafinu. Nokkurs konar vistfræðileg heimsendasaga í bland við hvað það þýðir að vaxa úr grasi og þurfa taka ábyrgð og berjast fyrir lífi sínu.

DEILA