Askja: Hraðstefnumót við landsbyggðina

Hraðstefnumót Öskju hefst á miðvikudag, 13.september, þar sem valdir bílar frá Mercedes-Benz, Kia, Honda og smart freista þess að finna verðuga lífsförunauta á landsbyggðinni. Fyrsta Hraðstefnumótið verður haldið í Vestmannaeyjum, en bílarnir munu í kjölfarið heimsækja Höfn, Egilsstaði, Reyðarfjörð, Akureyri, Sauðárkrók, Ísafjörð og Stykkishólm.

Á Ísafirði verður kynningin 22. september hjá Bílatanga, Suðurgötu 9.

“Um er að ræða viðamesta “roadshow” í sögu Öskju. Við verðum með tvo stóra bílaflutningabíla og alls 14 nýja bíla til sýnis og sölu sem reyndir sölufulltrúar Öskju kynna á hverjum stað fyrir sig. Við leggjum mikla áherslu á rafmagn í þessari ferð þar sem 13 af 14 bílum sem við kynnum eru búnir rafmagni á einn eða annan hátt. Allir þessir bílar henta landsbyggðinni fullkomlega og gerir fólki kleift að taka skrefið til orkuskipta“, segir Egill Örn Gunnarsson, einn verkefnastjóra Hraðstefnumóta Öskju á landsbyggðinni.

„Við eigum hóp af tryggum viðskiptavinum um allt land og það er okkur mikilvægt að heimsækja þá. Okkur fannst hugmyndin um hraðstefnumót skemmtileg og lýsandi, en tilgangur ferðalagsins er einmitt að gefa íbúum um land allt tækifæri á að kynnast bílunum betur og finna þann eina rétta. Það er mikið að gerast í rafmagni og Askja hefur verið í fararbroddi í þeim málum“, segir Sigríður Rakel Ólafsdóttir, markaðsstjóri Öskju. Um er að ræða rafbíla, tengiltvinnbíla og dísilbíla, en skattaívilnanir af rafbílum falla úr gildi um áramót og óvíst er um framhaldið. „Við hvetjum alla þá sem hafa hug á að stíga þetta skref til að gera það sem fyrst, áður en verð á rafbílum hækkar“, bætir Sigríður Rakel við.

DEILA