Merkir Íslendingar – Þórður Júlíusson

Þórður Ingólfur Júlíusson fæddist á Atlastöðum í Fljótavík á Hornströndum þann  4. ágúst 1918.

Foreldrar hans voru Júlíus Geirmundsson, útvegsbóndi á Atlastöðum í Fljótavík og síðar á Ísafirði, og k.h. Guðrún Jónsdóttir húsfreyja.

Móðurforeldrar Þórðar voru Jón Guðmundsson, húsmaður á Steins-túni, og k.h., Elísa Ólafsdóttir, en föðurforeldar hans voru Geirmundur Guðmundsson, húsmaður í Látranesi, og k.h., Sigurlína Friðriksdóttir.

Systkini Þórðar:
Júdith Friðrika, f. 1920,  Ingibjörg, f. 1906, Geirmundur, f. 1908, Sigurlína, f. 1909, Jón Ólafur, f. 1910, Jóhann, f. 1912, Guðmundína, f. 1915, Snorri, f. 1916, Júlíana, f. 1921, Anna, f. 1923, og Guðmundur, f. 1925.

Eiginkona Þórðar var Aðalheiður Bára Hjaltadóttir frá Selhúsum í Nauteyrarhreppi, dóttir Ásthildar Magnúsdóttur og Hjalta Jónssonar.

Börn Þórðar og Báru:
Ásthildur Cesil, Jón Ólafur, Hjalti, Gunnar, Halldóra, Sigríður, Inga Bára, og Júlíus.

Þórður Júlíusson ólst upp á Atlastöðum og vann þar að búi foreldra sinna.
Þórður hleypti heimdraganum 19 ára og flutti til Ísafjarðar. Þar stundaði hann sjómennsku fyrst í stað en fór síðan að stunda vöru- og leigubílaakstur og einnig fiskverkun og veitingarekstur í félagi við Jóhann, bróður sinn. Þeir bræður stofnuðu ásamt Jóni B. Jónssyni Útgerðarfélagið Gunnvöru árið 1955 og kom Þórður þar að rekstri í áratugi.

Þórður og Bára fluttu í Vinaminni við Seljalandsveg árið 1945. Þar byrjaði Þórður fyrst með saltfisk- og skreiðarvinnslu og rak einnig rækjuvinnslu um 20 ára skeið. Einn og í félagi við aðra stóð Þórður einnig í útgerð innfjarðarrækjubáta um áratugaskeið. Þá kom Þórður að stjórn ýmissa annarra fyrirtækja á Ísafirði og víðar. Þau hjón bjuggu alla tíð á Vinaminni en síðustu þrjú árin dvaldi Þórður á Hlíf, íbúðum aldraðra á Ísafirði.

Þórður Júlíusson lést þann 15. ágúst 2010.

DEILA