Merkir Íslendingar – Bjarnfríður Leósdóttir

Bjarnfríður Leósdóttir var fædd á Másstöðum í Innri-Akraneshreppi þann 6. ágúst 1924.

Foreldrar hennar voru Leó Eyjólfsson bifreiðarstjóri, og Málfríður Bjarnadóttir húsmóðir. Bræður Bjarnfríðar voru Ragnar og Jón Leóssynir og systir hennar var Hallbera Guðný Léósdóttir en hennar maður var Ríkharður Jónsson, knattspyrnukappi.

1947 giftist Bjarnfríður Jóhannesi Finnssyni frá Kaldá í Önundarfirði, f. 26. júní 1917, d. 15. febrúar 1974.

Foreldrar hans voru Steinunn Jóhannesdóttir og Finnur Torfi Guðmundsson. Jóhannes lauk prófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík 1938 og starfaði lengst sem skrifstofumaður á Akranesi en stundaði einnig sjó.

Bjarnfríður og Jóhannes eignuðust saman fjögur börn:

1) Steinunn, f. 24.5. 1948, maki Einar Karl Haraldsson.

 2) Eyjólfur, f. 11.3. 1950, d. 12.3. 1950.

3) Leó, f. 23.9. 1951, maki Sólveig Reynisdóttir.

4) Hallbera, f. 28.9. 1956, maki Gísli Gíslason.

Bjarnfríður lauk verslunarprófi frá Samvinnuskólanum 1943 og var einn vetur í Húsmæðraskólanum í Reykjavík. Hún hlaut kennsluréttindi frá KHÍ 1982 og sem svæðisleiðsögumaður á Vesturlandi.

Á yngri árum vann Bjarnfríður síldarsöltun og verslunarstörf, var virk í menningarlífi Akraness, lék um árabil með leikfélaginu og sat í stjórn þess, tók þátt í stofnun bókmenntaklúbbs sem enn lifir og var lengi umboðsmaður Máls og menningar.

Bjarnfríður var í stjórn og trúnaðarráði Verkalýðsfélags Akraness, varaformaður um árabil, átti sæti í miðstjórn Alþýðusambands Íslands.

Bjarnfríður var varafulltrúi Alþýðubandalagsins í bæjarstjórn Akraness í nokkur kjörtímabil og sat 12 ár í félagsmálaráði.

Bjarnfríður var varaþingmaður Alþýðubandalagsins í Vesturlandskjördæmi og tók nokkrum sinnum sæti á Alþingi á áttunda áratugnum. Hún átti sæti í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins og starfaði með Samtökum kvenna á vinnumarkaði.

Bjarnfríður var í stjórn Félags eldri borgara á Akranesi um 13 ára skeið, þar af formaður í níu ár.

Bjarnfríður og Jóhannes reistu sér hús við Stillholt 13 og þar bjó hún þar til að hún flutti á Dvalarheimilið Höfða.

Bjarnfríður var gerð heiðursfélagi í Verkalýðsfélagi Akraness 1994. Hún hlaut viðurkenningu Jafnréttisráðs árið 2000 og var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á nýjársdag 2002.

Bjarnfríður Leósdóttir lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi þann 10. mars 2015.

DEILA