Vel heppnuð Náttúrubarnahátíð á Ströndum

Þessirlandsþekktukappar mættu á Sævang og skemmtu börnunum. Myndir: aðsendar.

Náttúrubarnahátíð á Ströndum var haldin helgina 14.-16. júlí á Sauðfjársetrinu í Sævangi rétt utan við Hólmavík. Það er Náttúrubarnaskólinn sem stendur fyrir hátíðinni en hann hefur verið starfræktur síðan sumarið 2015. Náttúrubarnaskólinn stendur fyrir námskeiðum og viðburðum yfir sumartímann sem miða að því að fræða börn á öllum aldri um ólíkar hliðar náttúrunnar.

Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur er skipuleggjandi Náttúrubarnahátíðarinnar og er hæst ánægð með helgina: „Það var góð aðsókn, alls komu í kringum 400 manns og þetta gekk bara eins og í sögu. Veðrið var einmitt eins og það átti að vera, flugdrekaveður og kajakfæri á laugardag og sól og blíða á sunnudag, öll kát og glöð og skemmtiatriðin frábær,“ segir Dagrún.

Dagskráin var fjölbreytt en á henni var til dæmis að finna fuglaskoðun og fjöruplokk, tónleika með Gunna og Felix, Ingó Geirdal töframaður tróð upp og svo voru náttúrusmiðjur, núvitundarævintýri og jóga, Benedikt búálfur og Dídí, Tufti tröll og ýmislegt fleira. Náttúrubarnahátíðin er fjölskylduhátíð sem einkennist af útivist, náttúruskoðun, fróðleik og fjöri: „Á Náttúrubarnahátíðinni snýst allt um að vera úti í náttúrunni og fræðast um hana og dagskráin miðar að því að börn og fullorðnir geti leikið sér saman og skapað skemmtilegar minningar,“ segir Dagrún.

„Eftir svona helgi er manni þakklæti efst í huga, það eru svo margir sem koma að svona hátíð, bæði í undirbúninginum og á hátíðinni sjálfri. Styrktaraðilarnir eiga auðvitað miklar þakkir skyldar, Uppbyggingarsjóður Vestfjarða gerir okkur mögulegt að hafa frítt inn á hátíðina og svo fengum við líka dálítinn styrk frá Orkubúi Vestfjarða. Listafólkið og öll þau sem voru með atriði, smiðjur og stöðvar voru frábær og svo fáum við langbestu gestina, það er ekki amalegt,“ segir Dagrún hress.

Það er ýmislegt spennandi á döfinni hjá Náttúrubarnaskólanum og Dagrún segist strax vera farin að hlakka til næstu hátíðar. „Næsta ár verður tíunda árið sem Náttúrubarnaskólinn starfar, svo það má búast við miklu fjöri þá,“ segir Dagrún að lokum.

DEILA