Messað í Furufirði

Bænhúsið í Furufirði. Myndir: Vestfjarðaprófastdæmi.

Sunnudaginn 16. júlí klukkan tíu árdegis var messað í Furufjarðarkirkju. Prófastur Vestfjarða sr. Magnús Erlingsson messaði og var þetta í þriðja sinn á þremur áratugum, sem hann embættar í Bænhúsinu í Furufirði. Átján sálir voru viðstaddar messuna. Gengið var til altaris. Sálmar voru sungnir án undirleiks. Lagt var út frá texta dagsins, sem var 6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Sveinbjörn Björnsson hringdi klukkunni í Furufirði.

Á vefsíðu Vestfjarðaprófastdæmis er að finna þessa samantekt um bænhúsið í Furufirði:

Á 19. öld var ekkert bænhús í Furufirði og því þurftu íbúarnir á austurströndum að sækja messu að Stað í Grunnavík. Þar var einnig kirkjugarðurinn. Íbúarnir í Furufirði og nálægum fjörðum vildu gjarnan koma sér upp kirkju. Þeir vildu hafa helgidóm í sinni sveit og geta lagt ástvini sína til hinstu hvílu í sveitinni.Undir lok 19. aldar komust þessi mál á rekspöl þegar styrkur að upphæð 500 krónur fékkst úr viðlagasjóði Sparisjóðs Ísafjarðar til að reisa bænhús í Furufirði. Smíðinni var lokið sumarið 1899 og hafði Benedikt Hermannsson bóndi í Reykjarfirði yfirumsjón með verkinu en einnig naut hann aðstoðar Jóns Snorra Árnasonar smiðs á Ísafirði. Benedikt hjó til úr rekaviði grindina í húsið en Norðmenn, sem ráku hvalveiðistöð á Meleyri í Veiðileysufirði, gáfu panelklæðningu í húsið. Hjónin í Reykjarfirði þau Benedikt og Ketilríður Jóhannesdóttir gáfu klukkuna, sem er í bænhúsinu og mun Benedikt hafa smíðað klukkunni ramböld og komið henni fyrir. Bænhúsið í Furufirði var vígt þann 2. júní 1902. Fyrsta jarðsetningin var sama ár en þá var jarðsettur þar 4 ára gamall drengur, Guðmundur Hólm. Hann er vökumaður garðsins. Síðasta jarðarförin var 1949 en þá var Guðný Alfífa Benediktsdóttir jarðsett.

Bænhúsið í Furufirði er ekki stór helgidómur. Kirkjan er smíðuð úr timbri og er hún rúmir fimm metrar að lengd og fjórir og hálfur metri að breidd. Lágreist þak er á kirkjunni og kross á framstafni. Kirkjan er bárujárnsklædd og hefur verið gerð upp. Veg og vanda að því verki hefur haft Guðmundur Ketill Guðfinnsson en ýmsir hafa lagt honum lið. Guðmundur Ketill er frá Reykjarfirði, en langafi hans var Benedikt Hermannsson, sá sem smíðaði kirkjuna á sínum tíma. Heilsársbyggð og búskapur lagðist af í Furufirði sumarið 1950. Fólk fætt í Furufirði og fjölskyldur þeirra hafa reist sér bjálkahús á staðnum, sem þau dvelja í á sumrum. Þegar prófastur var þar á ferð tóku á móti honum systurnar Sigrún, Matthildur og Hlíf og bróðir þeirra Árni, sem þar voru ásamt fleira fólki.

Sr. Magnús Erlindsson sagði í samtali við Bæjarins besta að afkomendur ábúenda í Furufirði hafi staðið að endurbótum á bænhúsinu og staðið straum af kostnaði. Sagði hann að mikill hlýhugur og átthagatryggð einkenndi störf velunnara bænhússins.

Guðmundur Ketill Guðfinnsson hafði veg og vanda af viðgerð bænhússins.
Loft kirkjunnar er blátt og á það eru límdar stjörnur úr pergmenti. Gamall olíulampi er í kirkjunni.

DEILA