Ný sýn: vilja að samfélagið verði heillandi kostur til búsetu

Í tilkynningu frá Nýrri sýn, framboðslista í sameinuðu sveitarfélagi í Vesturbyggð og Tálknafirði segir :

„Lista Nýrrar sýnar myndar hópur fólks með það að markmiði að samfélagið okkar, hér á sunnanverðum Vestfjörðum, verði heillandi kostur til búsetu. Hér viljum við að fólk geti fengið að lifa og eldast í sátt við náungann og umhverfið. Heimastjórnir, sem verður kosið í samhliða bæjarstjórnarkosningunum, er spennandi nálgun til að brúa bil á milli íbúa hvers svæðis og stjórnvaldsins. Við erum mjög ákveðin í að hlúa vel að þeim. Leik- og grunnskólamál verða í brennidepli á þessu stutta kjörtímabili, enda liggur þungi fjárfestinga næstu ára í þeim flokki. Við erum á leið í útboð með nýja skólabyggingu á Bíldudal, við erum nýbúin að stækka leikskólann Araklett á Patreksfirði, við erum með framkvæmdir í þremur áföngum á skólalóð Patreksskóla sem búið er að endurhanna. Uppbygging skólalóðar á Tálknafirði, sem var verkefni nemenda, er líka á dagskrá. Allar þessar framkvæmdir þarf að tryggja að vel gangi.“

Þá er vikið að samöngumálum:

„Í huga okkar og íbúa eru samgöngur ofarlega í huga. Nú liggja fyrir drög forgangsröðunarlista í jarðgangagerð. Við fögnum því að jarðgöng um Mikladal og Hálfdán séu komin á listann. Í okkar huga eru samgöngur innan sveitarfélagsins lykillinn í að nýtt sveitarfélag kom til með að dafna og þroskast í takt við tímann. Nú er það að berjast fyrir enn frekari áheyrn og þoka göngunum sem og uppbyggingu á Bíldudalsvegi um Trostansfjörð ofar á listanum. Í ofanálag þarf að berjast fyrir aukinni þjónustu á vegum, innan svæðis og sem tengja okkur við þjóðveg 1, bæði hvað varðar viðhald og vetrarþjónustu.“ 

DEILA