V- Barð: Ný sýn vill ekki Vatnsdalsvirkjun strax

Páll Vilhjálmsson, oddviti Nýrrar sýnar.

Páll Vilhjámsson, oddviti Nýrrar sýnar, annars framboðslistans í komandi sveitarstjórnarkosningum næsta laugardag í sameinuðu sveitarfélagi Vesturbyggðar og Tálknafjarðar í Vestur Barðastrandarsýslu segir aðspurður um afstöðu listans til Vatnsdalsvirkjunar að í orkumálum sé hún á þann veg að „við viljum berjast fyrir öryggi í afhendingu á raforku. Við teljum það alveg ljóst að sama hvort við virkjum ekkert, lítið eða mikið að tvöföldun Vesturlínu sé óumflýjanleg og það er vinna sem við þurfum að hefja strax. Við viljum að gengið verði í að virkja þá kosti sem sitja í orkunýtingarflokki eftir umfjöllun og skoðun í rammaáætlun áður en farið er virkjanakosti á friðlýstum svæðum.“

Orkubú Vestfjarða hefur farið þess á leit við orkumálaráðherra að hann heimili að virkjunarkosturinn Vatnsdalsvirkjun verði tekinn til skoðunar í rammaáætlun og aflétti friðun sem er á svæðinu. Í umsögn Vesturbyggðar í desember sl. um erindið kom fram að meirihluti Nýrrar sýnar í Vesturbyggð lagðist gegn erindinu en minnihluti sjálfstæðismanna og óháðra studdi það.

DEILA