Byggðasafn Vestfjarða: viðgerða þörf á nýlegu geymsluhúsi

Húsaþyrping Byggðasafns Vestfjarða.

Komið hefur í ljós að viðgerða er þörf á norðurhlið geymsluhúss Byggðasafns Vestfjarða , sem nefnt er Jónshús. það var reist árið 2005 og er því nýlegt, en í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar kemur fram að norðurhlið matshluta 1 var í upphafi hannaður sem innveggur, og glervirkið kæmi í framhaldi, sem myndi hlífa við þeirri ágjöf sem fylgir norðanáttinni. Verkið var á sinum tíma ekki fullklárað og matshluti 2 var ekki byggður.

Vandamál eru að koma upp sem tengjast norðurgaflinum, þá sérstaklega í kringum hurðina. Ekki hefur almennilega verið hægt að þétta í kringum hana. Þar af leiðandi hefur bleyta á leið þar inn og jafnvel, má leiða að því líkum að þéttingar undir fótstykki séu að gefa eftir. Við rakaskimun þá mældist umtalsverður raki, í allt að 50 cm. upp eftir veggnum.

Við úrbætur verður farið í að hreinsa, blautt og myglað byggingarefni. Jafnframt að hurðinni verði lokað, með klæðningu og varanlegum frágangi við fótreim, t.a.m. vatnslás meðfram fótstykki að utanverðu.

Áætlaður kostnaður við framkvæmdir er um 2 m.kr. og verður endurnýjun á þakjárni í smiðjunni frestað um ár til þess að standa straum af kostnaði.

DEILA