Ferðafélag Ísfirðinga: Hvítanes í Skötufirði- gengið um fjörur og nes – 1 skór

Laugardaginn 10. júní

Fararstjóri: Barði Ingibjartsson

Mæting kl. 9 við Bónus og 9.20 við búðina í Súðavík.

Gengið um fjörur og nes. Frá Hvítanesi er gott útsýni yfir Ísafjarðardjúpið og Vigur. Það sem leynist í fjörunni við bæinn er það sem fær flesta til þess að nema staðar. Á klöppunum og skerjunum rétt fyrir utan liggja yfirleitt nokkrir selir og stundum nokkrir tugir þeirra. Það kæmi ekki á óvart ef að þátttakendur gæddu sér á veitingum að ferðalokum í Litlabæ.

Áætlaður göngutími 3 – 4 klst.

Litlibær í Skötufirði skiptist úr Hvítaneslandi árið 1895 og á sér því um 125 ára sögu svo vitað sé. Húsið sjálft er jafngamalt og því orðið yfir 100 ára og friðað samkvæmt lögum. Bærinn var gerður upp að utan af Þjóðminjasafninu árin 1998 –2002. Hann er hlaðinn til hliðanna og smíðaður úr timbri að öðru leyti og er þakið gert úr torfi.

Húsið telst til minnstu bæjarhúsa á Íslandi eða aðeins tæplega 29 m² að grunnfleti með portbyggðu lofti. Hjörleifur Stefánsson arkitekt segir svo frá í bókinni Andi Reykjavíkur:

 Úr grjótinu sem rutt var til að rækta túnblett byggðu fjölskyldurnar þetta litla og látlausa hús sem lýtur engum hátimbruðum fræðireglum um fegurð, aðeins hefðum hins fátæka manns um að nýta sér það sem nærtækt er og búa til skjól fyrir sig og ástvini sína með eins litlum tilkostnaði og auðið er. En húsið er einfaldlega fallegt og fegurð þess höfðar til alls þorra manna vegna þess að við skiljum vafningalaust hvernig húsið varð til og það segir fallega sögu um erfið lífskjör.

Saga fjölskyldnanna tveggja sem hófu búskap á Litlabæ í Skötufirði árið 1895 er talandi dæmi um fátækt fólk sem byrjaði með tvær hendur tómar en tókst með dugnaði og elju að rísa til bjargálna og sjá fyrir stórum fjölskyldum. Það lifði af því litla sem landið gaf af sér en öðru fremur þeirri lífsbjörg sem það sótti á gjöful fiskimið.

Þetta voru hjónin Finnbogi Pétursson og Soffía Þorsteinsdóttir og hjónin Guðfinnur Einarsson og Halldóra Jóhannesdóttir.  Finnbogi og Soffía bjuggu eignuðust átta börn og komust sjö af  þeim til fullorðinsára. Guðfinnur og Halldóra eignuðust fimmtán börn en af þeim komust níu upp til fullorðinsára. Fyrstu áratugina voru fleiri heimilisfastir að Litlabæ og er talið að flest hafi verið þar tuttugu og fimm manns. Það hefur því oft verið mannmargt í Litlabæ sem er þó eins og nafnið gefur til kynna ekki stór.

Í bókinni Einars saga Guðfinnssonar minnist Einar Guðfinnsson athafnamaður æskunnar á    Litlabæ, en hann var sonur Guðfinns og Halldóru og var fæddur árið 1898. „ Bærinn var        nefndur Litlibær og var það réttnefni. Jarðnæðið, sem fylgdi Litlabæ, mætti fremur kalla        ræktunarlóð en jörð. Hálflenda foreldra minna bar ekki þann bústofn, sem þau höfðu til         heimilisþurftar, eina kú og 20 kindur, heldur varð að  fá slægjur hjá öðrum og oft um langan  veg að sækja og með mikilli fyrirhöfn…Hins vegar var Skötufjörðurinn fullur af fiski, smokk,síld, hrognkelsum, sel, hrefnum og fugli.“ (Ásgeir Jakobsson, 1978) Þó segist Einar ekki hafa þurft að líða matarskort þrátt fyrir  stórt heimili.

Kristján Kristjánsson hefur ásamt eiginkonu sinni, Sigríði Friðgerði Hafliðadóttur frá Hafrafelli í Reykhólasveit, búið á Hvítanesi frá árinu 1967. Kristján er barnabarn Finnboga Péturssonar og Soffíu Þorsteinsdóttur, frumbyggja Litlabæjar. Hann var ómetanlegur heimildamaður við deiliskráningu svæðisins vegna framkvæmda við bæinn enda eins og segir í greinargerð um þá skráningu hafsjór af upplýsingum og þekkir svæðið eins og handarbakið á sér.

Skötufjörður er annars 16 km langur fjörður sem liggur til suðurs út frá Ísafjarðardjúpi miðju, milli Skarðseyrar og Hvítaness í Súðavíkurhreppi. Undirlendi er lítið í Skötufirði nema fyrir botni hans. Beggja vegna fjarðarins eru brattar, stöllóttar klettahlíðar, Eyrarhlíð að vestan og Fossahlíð að austan. Þær þóttu báðar illar yfirferðar, einkum Fossahlíð. Arnór Jónsson prestur í Vatnsfirði kvað svo um þessa annexíuleið sína:

Ár og síð og alla tíð

aldrei skrýðist fönnum.

Fjandinn ríði Fossahlíð,

ég fyrirbýð það mönnum.

Margar smáar ár renna í Skötufjörð en stærsta áin er Kleifará sem fær vatn frá mörgum ám og rennur til sjávar í botni fjarðarins í gegnum Kleifarós. Inn af firðinum liggur Skötufjarðarheiði fram á Glámuhálendið. Við mynni fjarðarins, úti fyrir Hvítanesi, er eyjan Vigur.

Heimildir:

Ásgeir Jakobsson. (1978). Einars saga Guðfinnssonar. Skuggsjá

Deiliskráning vegna fyrirhugaðra framkvæmda   á Litlabæ í Skötufirði. Skráð af Hrönn Konráðsdóttur 17.04.2020. (sótt 4.6.2023) Þjóðminjasafn Íslands.

www.litlibaer.is (2023, 4.júní)

Vestfirzkar ættir. Arnardalsætt, 1. bindi, bls. 55.

DEILA