Píratar um laxeldi á Vestfjörðum: skyndilausnir og skammsýni

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, fulltrúi Pírata í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur birt álit sitt um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi. Áður var fram komið sameiginlegt álit átta annarra nefndarmanna og hefur verið gerð grein fyrir því hér á Bæjarins besta.

Í upphafi álitsins segir að minni hlutinn taki undir þá alvarlegu gagnrýni sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit, sem og þá gagnrýni sem fram kemur í áliti meiri hluta nefndarinnar um skýrsluna. Síðar segir: „Þegar ríkisstjórnin hóf þá vegferð að heimila sjókvíaeldi í fjörðum landsins hringdu ótal viðvörunarbjöllur. Reynsla Norðmanna gaf til kynna að galli væri á gjöf Njarðar. Líkt og oft áður þegar stjórnvöld reyna að byggja upp atvinnuvegi á landsbyggðinni ráða skyndilausnir og skammsýni för. Ekki er ráðist í vandaða vinnu til að benda á möguleika sem svæðin hafa upp á að bjóða.“

stöðva ný leyfi og frekari vöxt sjókvíaeldis

Skortur á eftirliti og veikburða stjórnsýsla er sagt sérstakt áhyggjuefni en alvarlegri séu „hinar alvarlegu og jafnvel óafturkræfu afleiðingar sem sjókvíaeldi hefur haft fyrir lífríki og vistkerfi fjarðanna og fyrir laxastofna í ám og vötnum.“ Ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis er gagnrýndur fyrir að hafa brugðist við  ákvörðun úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál á árinu 2018 um að fella úr gildi rekstrarleyfi sjókvíaeldi á Vestfjörðum með því að lögfesta heimild til rekstrarleyfis til bráðabirgða. Segir í álitinu að úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi mat á umhverfisáhrifum og að ESA, eftirlitsstofnun ESA hafi síðar komist að þeirri niðurstöðu að það væri brot á EES samningnum að leiða í lög undanþágu frá umhverfismati.

„Óverjandi er að eyðileggja náttúru, lífríki og vistkerfi landsins fyrir skammtímagróða. Að svo stöddu er eina rökrétta niðurstaðan sú að stöðva útgáfu nýrra leyfa og frekari vöxt sjókvíaeldis þar til endurskoðun laga er lokið og rannsóknir liggja fyrir um áhrif starfseminnar á lífríki og vistkerfi.“

byggja upp aðra starfsemi

Álitinu lýkur svo með með því að tilgreina að ef sjókvíaeldi verður lagt niður hafi það alvarlegar afleiðingar fyrir byggðarlög á landsbyggðinni, sem verði að bregðast við með viðeigandi mótvægisaðgerðum. „Ríkisstjórnin gæti til að mynda lagt fram fjármuni til að byggja upp aðra starfsemi sem gerði svæðin sjálfbærari. Einnig mætti tryggja að þau verðmæti sem til verða á svæðunum skiluðu sér til samfélagsins, svo sem með því að virðisaukaskattur væri eyrnamerktur uppbyggingu á viðkomandi svæði. Þá mætti margfalda nýsköpunarstyrki og uppbyggingu innviða til að efla nýjar atvinnugreinar og sprotafyrirtæki og gera samfélögin aðlaðandi fyrir nýja íbúa.“

Landsbyggðin eigi „skilið þá virðingu að ríkisstjórnin leggist í vandaða vinnu til að byggja hana upp en horfi ekki ávallt til skammtímalausna sem hafa langvarandi og neikvæðar afleiðingar.“

Álit Þórhildar Sunnu

DEILA