Alþingi: órökstudd gagnrýni Ríkisendurskoðunar um framleiðslustuðla

Í áliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um skýrslu Ríkiendurskoðunar um sjókvíaeldi, sem birt var í gær, kemur enginn rökstuðningur fram til stuðnings gagnrýni stofnunarinnar á umreikning leyfa til framleiðslu yfir í leyfi fyrir lífmassa í sjó. Nefndin fékk skýringar Hafrannsóknarstofnunar á því að frá 2020 var miðað við hlutfallið 0,8:1 í stað þess að leggja lífmassa og framleiðslu að jöfnu. Fulltrúar Hafrannsóknarstofnunar lýstu því hvernig hafi skoðaðar hafi verið upplýsingar úr umhverfismatsskýrslum og aflað upplýsinga frá fyrirtækjum. Jafnframt hafi verið leitað upplýsinga frá ríkjum þar sem fiskeldi er stundað bæði austan hafs og vestan. Starfshópurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að á þeim tíma væri eðlilegt að nota stuðulinn 0,8 fyrir landið í heild sinni. Nú má nálgast raungögn úr sjókvíaeldi á laxi í mælaborði fiskeldis og það er mat Hafrannsóknastofnunar að sá stuðull sem notast var við hafi verið nokkuð nærri lagi miðað við þau gögn sem nú eru aðgengileg.

Ríkisendurskoðun taldi í skýrslu sinni að stuðullinn nær því að vera 1,1 á móti einum að meðaltali.

Upphaflega voru leyfi til sjókvíaeldis gefin út þannig að í þeim var tilgreint hversu mikið mætti framleiða af eldislaxi. Síðan var horfið til þess að í leyfunum stæði hveru mikinn lífmassa af eldislaxi mætti hafa í sjó. Við endurnýjun leyfis varð stundum því að breyta úr framleiðslumagni yfir í lífmassa. Hlutföllin 0,8:1 þýddu að til þess að ná t.d. 10.000 tonna framleiðslu þyrfti að hafa 12.500 tonn af lífmassa. Því varð 10.000 tonna framleiðsluleyfi að 12.500 tonna lífmassaleyfi við umbreytinguna. Ríkisendurskoðun gagnrýndi þetta og telur í skýrslu sinni að í raun hafi hlutföllin verið nær því 1,1:1 sem þýðir að 10.000 tonna framleiðsluleyfi yrði að 9.000 tonna lífmassaleyfi. Með stuðli sínum hefði Hafrannsóknarstofnun í raun aukin verulega framleiðsluheimildirnar, sem eldisfyrirtækin hefðu þannig fengið fyrirhafnarlaust og endurgjaldslaust.

Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis kafaði ofan í þessa gagnrýni Ríkisendurskoðunar og finnur í raun ekkert sem hönd er á festandi. Hafrannsóknarstofnun leggur fram sinn rökstuðning, skýrir hvar var leitað fanga um gögn og upplýsingar og bendir á að niðurstaða hennar hafi reynst nærri lagi þegar gögn eru athuguð.

Athyglisvert er að ekkert kemur fram í áliti meirihluta nefndarinnar til stuðnings niðurstöðu Ríkisendurskoðunar um hver stuðullinn eigi að vera. Þrátt fyrir að hafa örugglega leitað að stuðningi fyrir fullyrðingum Ríkisendurskoðunar er ekkert dregið fram sem styður mál stofnunarinnar.

Niðurstaðan er að staðhæfingar Ríkisendurskoðunar um ranga umbreytingarstuðla sem hafi fært eldisfyrirtækjunum auknar framleiðsluheimildir eru órökstuddar og þingnefndin tekur ekki undir þær.

Það er hins vegar sérkennilegt hvernig meirihlutinn skautar framhjá þessu í nefndarálitinu og leitast við að gera lítið úr svörum Hafrannsóknarstofnunar með þessum orðum: „Meiri hlutinn hefur ekki forsendur til að leggja mat á skýringar Hafrannsóknastofnunar og telur að ekki verði horft fram hjá að við úttekt sína gat Ríkisendurskoðun ekki staðfest að niðurstaða starfshóps Hafrannsóknastofnunar hafi verið byggð á haldbærum og hlutlægum gögnum.“

Þingmennirnir átta , sem standa að álitinu, hefðu líkað getað orðað þetta þannig að ekki hafi verið forsendur til að leggja mat a skýringar Ríkisendurskoðunar og að nefndin hafi ekki getað staðfest að niðurstaða Ríkisendurskoðunar um umbreytingarstuðla hafi verið byggt á haldbærum og hlutlægum gögnum.

En þeir gerðu það ekki og hlífðu Ríkisendurskoðun við því að standa á berangri í þessu máli. Þess í stað er Hafrannsóknarstofnun hengd upp á snúruna. Segja má að þetta sé frekar neikvæð nálgun í nefndarálitinu. Betri svipur hefði verið á álitinu að fagna því að mat Hafrannsóknarstofnunar hafi reynst nærri lagi.

-k

DEILA