Vestfirsk bíómynd í vinnslu

Unnið er að gerð vestfirskrar kvikmyndar í fullri lengd sem kallast Ótti. Ísfirsku feðgarnir Fjölnir Baldursson og Roman Ægir Fjölnisson skrifuðu handritið fyrir tveimur árum og hófust upptökur í Reykjavík í byrjun febrúar. Stefnt er að upptökum á Ísafirði í byrjun apríl. Þá er von á tökuliði og leikurum vestur ásamt því að hópur heimafólks kemur að verkefninu.  Gert er ráð fyrir því að tökum ljúki snemma sumars en þá hefjist vinna við klippingu, hljóð- og eftirvinnslu til áramóta.

Ótti er reynslusaga Arnórs, ungs manns sem hlotið hefur erfitt hlutskipti í lífinu með alkóhólískan föður og móður sem berst við geðrænan sjúkdóm. Er hann reynir að finna sjálfan sig leiðist hann út í fíkniefnaneyslu og kynnist misjöfnu fólki sem leiða hann í ógöngur. Hann endar á því að selja fíkniefni. Líf hans flækist svo enn meira þegar hann lendir í ástarþríhyrningi milli fíkniefnalögreglu og – sala.

„Þessi mynd fjallar um ást samkynhneigða einstaklinga. Það hefur aldrei verið gerð kvikmynd um svipað efni og teljum við að þessi saga muni hreyfa við mörgum, og verði gott innlegg í flóru íslenskra kvikmynda, segir Fjölnir sem er bæði handritshöfundur, framleiðandi, klippari og leikstjóri myndarinnar. „Við förum af stað með þetta verkefni af því að við höfum trú á þessari sögu og teljum að sagan sé sterk, góð og hafi sterkan boðskap.“

Nánari upplýsingar er að finna á karolinafund-vefnum þar sem hægt er að styrkja þetta vestfirska menningarverkefni.

https://www.karolinafund.com/project/view/5912?fbclid=IwAR0-OUUqsFZgplfmWgYToUqqn8pYPTTdWAKt9XErQvnMEbLHbv9OoS_hbIY

DEILA