Súðavík: vandséð að mikill sparnaður verði af lokun póstafgreiðslu

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri.

„Við erum ekki í neinni aðstöðu til þess að hlutast mikið til um það hvernig Pósturinn hagar sínum málum í Súðavík“ segir Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík um þá ákvörðun Póstsins að loka afgreiðslunni í Súðavík.

„Staðreyndin er hins vegar sú að póstþjónusta í Súðavík hefur verið rekin með þjónustusamningi við Súðavíkurhrepp þar sem starfsmenn á skrifstofu sveitarfélagsins hafa sinnt afgreiðslu. Flokkun pósts og dreifing hefur farið fram í Súðavík, en eins og margir vita er þjóðleiðin með póst um Djúpveg og því er fyrsti viðkomustaður frá Hólmavík hér á leið til Ísafjarðar.

Kostnaður Póstsins af þessari þjónustu, aðstöðu og mannskap hér við afgreiðslu, er undir 260 þúsundum á mánuði og því vandséð að mikill sparnaður verði af því að loka afgreiðslunni í Súðavík.“

Bragi Þór segir að klárlega sé um þjónustuskerðingu að ræða en vonandi verði þetta ásættanlegt þegar til kemur

„Hins vegar eru auðvitað breyttir tímar og gildi, umfang og vægi sendibréfa er næstum liðin tíð. Pakkasendingar til og frá einstaklingum og lögaðilum verður leyst með einhvers konar þjónustu, póstboxi eða útkeyslu eða blöndu af því. Samkvæmt upplýsingum sem komu fram á fundi í aðdragandanum að ekki liggur alveg fyrir hvernig þetta verður leyst.“  

DEILA