Jöfnunarsjóðurinn: virðist eiga að ganga frá fámennustu sveitarfélögum landsins

Bjarni Jónsson, alþm.

Bjarni Jónsson, alþm Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi tók til máls á Alþingi í gær og ræddi frumvarpsdrög Innviðaráðherra um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem eru til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda.

Um drögin sagði Bjarni að „þar virðist nú samkvæmt frumvarpsdrögum frá innviðaráðherra sem nú liggja í samráðsgátt, eiga að ganga frá fámennustu sveitarfélögum landsins með fjársvelti.“

Bjarni sagði hlutverk jöfnunarsjóðs ekki að vera tæki til þess að þrýsta á sameiningar sveitarfélaga eða hygla ákveðinni stærð þeirra og samsetningu, heldur að vera jöfnunartæki sem endurspeglar þörf og samsetningu og tekjuskerðingar sem sjóðnum hefur til áratuga verið ætlað að mæta. „Að taka svo snarlega niður framlög til sumra þessara sveitarfélaga eins og áform eru um setur þau á vonarvöl. Framlög til Kaldrananeshrepps niður um 78,8%, Reykhólahrepps 53%, Súðavíkurhrepps 56,9 %, Strandabyggðar 37,1%.“

Frumvarpsdröin fengu þá einkunn hjá Bjarna Jónssyni að vera “ hrafnaþing þar sem hrafnarnir sem hafa parað sig saman til sveitar, leggjast á smærri byggðir og sveitarfélög sem ein standa.“

DEILA