Jöfnunarsjóðurinn: erfitt að sjá sveitarfélögin standa undir sínum verkefnum

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps.

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri í Tálknafjarðarhreppi segir um lækkun framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til flestra sveitarfélaga á Vestfjörðum samkvæmt frumvarpsdrögum Innviðaráðherra að það sé erfitt að sjá hvernig þau sveitarfélög sem koma verst út úr þessum breytingum eigi að standa undir lögbundnum verkefnum sínum, hvað þá öllum þeim öðrum verkefnum sem sveitarfélög sinna.

„Við hjá Tálknafjarðarhreppi eigum eftir að greina betur hvaða áhrif þetta mun hafa fyrir okkur og eins hefur verið óskað eftir útreikningi á því hvernig nýtt sameinað sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum kæmi út úr þessum breytingum. Það er þó alveg ljóst að þetta er ekki góð sending inn í rekstur sem fyrir er þungur. Rekstur smærri sveitarfélaga getur verið viðkvæmur og þar finnst vel fyrir tekjutapi í líkingu við það sem hér er boðað.“ Annars sagði Ólafur að málið yrði rætt á fundi sveitarstjórnar seinni partinn í gær.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð sagðist ekki búin að skoða tillögurnar í þaula, en tók eftir því að framlög til Vesturbyggðar lækka lítillega í hlutfalli við önnur sveitarfélög. „Við höfum tíma til þess að gera umsögn við þessa tillögu í samráðsgáttinni og ég þarf að nýta mér hann a.m.k. að hluta til að geta komið með einhverja betri sýn á sveitarfélagsins á tillöguna.“

Samkvæmt tillögunum munu framlögin til Tálknafjarðar lækka úr 50 m.kr. á ári í 36 m.kr. eða um 28%. Í Vesturbyggð yrði breytingin minni, en þó lækkun úr 329 m.kr. í 322 m.kr. eða um 2%.

DEILA