Uppskrift vikunnar – Lambalæri með ótrúlega lítilli fyrirhöfn

Það er yfirleitt einfalt að elda lambalæri, en þessi aðferð er meðal þeirra allra einföldustu og fljótlegustu. Frábært þegar manni langar í sunnudagsmatinn en nennir varla að hafa fyrir honum. Svo endilega bara að bera fram með fersku salati og ef vill sósu en kjötið og grænmetið er svo safaríkt að það er alls ekki nauðsynlegt.

Hráefni:

1 lambalæri

4 hvítlauksrif

2 msk. ólífuolía

1 tsk rósmarín

salt og pipar

12 meðalstórar kartöflur

8 gulrætur

4 laukar

1 msk. Ólífuolía.

Aðferð:

Snyrtið lærið

Sneiðið hvítlaukinn í litla báta, skerið litlar raufar í kjötið beggja vegna á lærinu og stingið hvítlauknum í raufarnar.

Penslið kjötið með einni matskeið af olíu, rósmaríni, salti og pipar.

Setjið lærið í stóran ofnfastan steikarpott með loki og steikið við 180°C í 30 mínútur.

Skerið kartöflur til helminga eða í stóra báta, gulrætur í lengjur og lauka í báta. Veltið grænmetinu upp úr einni matskeið af olíu með salti og pipar og látið kartöflur og grænmeti umhverfis kjötið í pottinum.

Steikið í eina klukkustund til viðbótar eða þangað til rétturinn er hæfilega steiktur.

Þeir sem vilja skorpu á grænmetið og kjötið geta tekið lokið af síðustu mínúturnar og stillt á glóðarsteikingu.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA